03.12.1945
Neðri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

129. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég skal skýra frá því, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands sendi sjútvn. tilmæli um, að hún flytti till. um breyt. á l. nr. 68 12. apríl 1945, um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum. Sú breyt. er á þá leið, að í stað þess, að nú er það skilyrði til þess að fá stýrimannsskírteini, að maðurinn hafi stundað siglingar í 18 mánuði á skipum yfir 60 rúmlestir, þá verði ekki annað skilyrði sett en að maðurinn hafi stundað siglingar í 36 mánuði á skipum, sem eru 30 rúmlestir eða stærri. Þessi breyt. hefur ekki annað í för með sér en það, að það er ekki víst, að sá, sem hlýtur stýrimannsskírteini, hafi nokkurn tíma verið á stórskipi, þó að líkindin séu meiri til þess, því að skipin stækka, þau nýju eru stærri en þau, sem hverfa af sjónarsviðinu.

Þar sem það er Farmanna- og fiskimannasambandið, sem leggur til, að þessi skilyrði séu lækkuð, er ekki líklegt, að þessi aðili sé með því að vinna að því, að stéttin fyllist meira en rétt er.

Nefndin sendi frv. þetta skólastjóra sjómannaskólans til umsagnar. Hann hefur lagt til, að ákvæðin um stærð skipanna séu rýmkuð dálítið, en vill ekki ganga inn á það, sem farið er fram á í frv., til fullnustu. Eftir að sjútvn. hafði athugað málið, vildi hún fylgja því eins og það kom frá Farmanna- og fiskimannasambandinu.

Mótmæli skólastjórans eru þau, að sá, sem fær stýrimannsréttindi, þurfi að hafa siglt á stóru skipi, til þess að vera fullfær um að vera verkstjóri á stóru skipi, þurfi hann að vera kunnugur þeim tækjum, sem þar eru.

Þar sem við erum að auka skipaflotann stórkostlega, fannst okkur nefndarmönnum þörf á að liðka þessi ákvæði sem mest og teljum okkur ekki hafa teflt á tæpt vað, þar sem tillagan er komin frá þeim aðilum, sem ekki ættu að hafa áhuga á að fylla stéttina um of.

Ég vil fara þess á leit, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. Það er flutt af nefnd og þarf þess vegna ekki að fara til nefndar.