23.11.1945
Efri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir, hve skjótt hann hefur brugðizt við þáltill., sem ég bar fram á síðasta Alþ. og samþ. var um þetta mál.

Ég hefði þó kosið, að ýmis atriði í frv. væru á annan veg. Ég hef að vísu samið frumdrög að frv. um þetta efni, sem bæjarstjórn Rvíkur hefur lýst sig fylgjandi, en mun þó ekki flytja það að sinni.

Ég mun ekki fara að rekja frv. eins og það liggur hér fyrir, en vil láta það koma fram, að ég tel þátt ríkisins um heilsuspillandi íbúðir of lítinn, þó að ég telji frv. góðra gjalda vert, svo langt sem það nær. Þó að ég teldi æskilegra að hafa hér nokkurn annan hátt á, skil ég vel afstöðu hæstv. ráðh. og vil á engan hátt vanmeta hans aðgerðir: Ég ætla ekki að ræða málið meira á þessu stigi. Og frv. kemur það seint fram, að ekki er hægt að ræða það eins ýtarlega og æskilegast hefði verið. En einmitt þess vegna og af því að það fjallar um ýmis ólík atriði, hefði ég álitið, að höfuðkaflar frv. hefðu átt að flytjast hver í sínu lagi, því að enda þótt menn verði sammála um sum atriði þess, er óvíst, að svo verði um það allt. Þess vegna álít ég óheppilegt að hafa það allt í einum lagabálki. Mun ég því hreyfa því í n., sem fær frv. til meðferðar, hvort ekki væri betra að skipta því í fleiri hluta.

Ég vildi hreyfa hér einu atriði vegna ummæla hv. þm. Str. um innflutning á sænskum húsum og að það mundi greiða úr húsnæðisvandræðunum. Ég hef að vísu enga þekkingu á þessum málum sjálfur og vil því ekki vefengja það, sem hv. þm. sagði, en fróðir menn, sem ég hef fyllstu ástæðu til þess að taka trúanlega, segja mér, að þessi sænsku hús mundu verða litlu ódýrari, þegar þau eru komin upp hér. Hið svo kallaða Kron-hús sannaði, að af þessu mundi vera vafasamur hagnaður. Ég hefði nú álitið rétt, að sérstakur fagmaður færi til Svíþjóðar og gæfi ríkisstj. skýrslu um þessi hús og áætlaði kostnað við að koma þeim hingað og setja þau upp. Það væri nefnilega slæmt að fara að flytja þau inn, ef svo kæmi í ljós, að það væri ekkert til bóta. En ef það sannaðist hins vegar, að þetta væri til bóta, þá væri það auðvitað ágætt. — Ég vildi nú beina þeirri uppástungu til hæstv. félmrh., hvort ekki væri heppilegt að senda fagmann í þessu skyni til Svíþjóðar. Ég hafði jafnvel hugsað mér að flytja sérstaka þáltill. um þetta, en ef hæstv. ráðh. tæki vel í það, þá væri það óþarft.