23.11.1945
Efri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson.) :

Herra forseti. Út af ummælum hv. 6. þm. Reykv. um það, að frv. komi seint fram, vildi ég segja það, að þetta er svo mikið efni, sem krefst rækilegs undirbúnings, að það hlýtur alltaf að taka sinn tíma. Þess vegna hefur það ráð verið tekið hér að framkvæma fyrst og fremst það bráðnauðsynlegasta af þessu, þótt ekki væri hægt að taka allt.

Viðvíkjandi sænsku húsunum vildi ég geta þess, að skipulagsstjóri fór utan í sumar og athugaði þau nokkuð þá, og núna er húsameistari ríkisins ytra og gæti þá e. t. v. athugað þau eitthvað nánar.

Ástæðan til þess að bera fram heildarlöggjöf um húsbyggingar í heilu lagi er sú, að fara verði eftir beinum l. í því efni, en þó gæti auðvitað þurft að gera einhverjar breyt., og væri ég þá fús til þess að ræða það við n., sem um frv. fjallar, ef hún óskar þess.

Tveir fyrstu kaflar frv. eru að verulegu leyti byggðir á núgildandi lögum, og hafa þau l. fengið nokkra reynslu. Sú löggjöf yrði því aukin til muna með samþykkt frv.

Hv. þm. Str. var fullur vandlætingar út af frv., vegna þess að ekki væri um verulegar breyt. að ræða varðandi sveitirnar. Hann sagði, að ég hefði ekki komið fram með það, þar eð það heyrði ekki undir mig, en nú hefur hann flutt frv. varðandi þetta, sem er mjög líkt tveimur köflum í þessu frv. Hann átaldi ríkisstj. fyrir, að hafa ekki komið í veg fyrir spákaupmennsku með húsnæði. Þessi ríkisstjórn hefur nú aðeins setið lítinn hluta ófriðartímans, en sjálfur sat þessi hv. þm. í ríkisstjórn 2–3 ár af stríðstímanum, en sá enga ástæðu til þess að gera neinar úrbætur, og situr því ekki á honum að skamma núverandi ríkisstjórn fyrir þetta. Hann talaði enn fremur um ýmis vandkvæði á því að bæta úr efnisskorti, skorti á vinnuafli o. fl. Mér er þetta fyllilega ljóst, en það er bara engin afsökun fyrir því að hefjast ekki handa. Hv. þm. Str. talaði um það, að í þessu frv. væru lögleidd ýmis mismunandi réttindi þegnanna En hann vitnaði í ummæli Beveridge, þess efnis, að allir ættu að hafa jafnan rétt. Í 5. gr. í frv. hv. þm. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórnir byggingarfélaga á hverjum stað gera tillögur um lánskjörin til stjórnar byggingarlánasjóðs með hliðsjón af óskum, efnahag og ástæðum lántakanda — — “ Í hans frv. á að fara eftir óskum, efnum og ástæðum lántakenda. Hefur þá flm. í frv. fylgt þeirri reglu að ívilna þeim, sem verr eru stæðir. Mér finnst alls ekki sitja á honum að deila á mig fyrir að hafa fylgt þeirri reglu. Hv. þm. Str. varaði við því og brýndi hv. þd. um það að fara ekki inn á þennan grundvöll, sem lagður væri í frv. Ég vakti athygli á því í gær, að tveir fyrstu kaflar þessa frv. eru byggðir á núgildandi löggjöf, en þó auknir allmjög möguleikar bæði byggingarsjóða verkamanna og byggingarfélaganna til þess að byggja miklu meira en nú er gert. Nú stóð þessi hv. þm. að vísu e. t. v. ekki öðruvísi en nokkuð til knúinn að þeirri löggjöf, sem nú gildir um þetta efni. En þó hafði ég ekki haldið, að hún væri honum svo mikið á móti skapi, að hann þyrfti beinlínis að brýna hv. þd. til þess að fara ekki inn á grundvöll núgildandi laga um byggingarmál, grundvöll, sem sýnir sig að hafa gefizt sæmilega, enda þótt framlög á þeim grundvelli þurfi, vegna núverandi ástands, að hækka verulega frá því, sem nú er. (Forseti: Ég vil geta þess, að hv. þm. Str. fékk burtfararleyfi til þess að fara á bankaráðsfund). Ég hef ekki vikið neitt persónulega. að hv. þm. Str., svo að það sé þess vegna ástæða fyrir hæstv. forseta að gera Þessa aths. (Forseti: Ég beindi þessu að hæstv. ráðh. aðeins í því augnamiði, ef hann vildi stytta mál sitt þess vegna, að hv. þm. Str. er fjarverandi). Ég er rétt búinn með mitt mál og stytti mál mitt ekki þess vegna, að hv. þm. Str. er fjarverandi. Og þegar þm. tala á Alþ., þá tala menn við Alþ., en ekki sérstaka þm. persónulega, og auk þess eru tveir flokksmenn þessa hv. þm. að skrifa niður aths., svo að hv. þm. Str. verður væntanlega flutt það, sem ég segi hér. — En mér þykir ekki líklegt, að hv. þm. Str. muni lengi brýna hv. þd. til að fara ekki inn á grundvöll þann, sem lagður er í tveimur fyrstu köflum frv., því að það er grundvöllur, sem hann á sínum tíma stóð að því að leggja, og grundvöllur, sem hefur reynzt vel, þótt hann í núverandi ástandi hafi ekki reynzt nægilegur.

En hvað er það þá, sem hv. þm. Str. er svo andstætt í frv.? Er það sá grundvöllur, sem lagður er í tveimur seinni köflum frv.? Annar þeirra kafla víkur að því, að gerðar séu óvenjulegar ráðstafanir vegna þess óvenjulega ástands, sem nú ríkir, til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Er það sá grundvöllur, sem hv. þm. Str. er svo mikið á móti skapi? Er honum það á móti skapi, að Alþ. geri nú á þessum tíma óvenjulegar ráðstafanir til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum? — Ég vænti þess, að hv. samflokksmenn hv. þm. Str. beini þessari spurningu áfram til hans, þegar hann verður hér viðstaddur við framhald umr., sem ég get ekki — því miður — vegna væntanlegrar fjarveru verið þátttakandi í.

Hv. þm. Str. lét þess getið, að hann væri mikið á móti spákaupmennsku og að það væri ákaflega leitt, að ríkisstj. hefði ekki gert ráðstafanir fyrr en á elleftu stundu til þess að útrýma spákaupmennsku í húsasölu og húsbyggingarmálum. — Síðasti kafli frv. þessa miðar að því að útrýma þessari spákaupmennsku. Og þó að í hinu ágæta frv. þessa hv. þm. sé vikið að hvorugum þessara kafla í frv. mínu, hvorki kaflanum um að útrýma heilsuspillandi íbúðum né heldur kaflanum til þess að gera ráðstafanir til þess að byggingarefni verði notað fyrst og fremst til byggingar íbúðarhúsa fyrir þær fjölskyldur, sem ekki óska eftir að búa í neinum stórum höllum, þá get ég ekki ímyndað mér, að hv. þm. Str. hafi svo mikla andúð á því að útrýma heilsuspillandi íbúðum né heldur hinu, að gerðar séu sérstakar ráðstafanir til þess, að byggingarefnið sé notað til þess að koma upp hæfilegum íbúðum fyrir almenning í landinu, að þess vegna hafi hann verið að brýna hv. þd. til þess að fara ekki inn á þann grundvöll, sem lagður er í þessu frv. En hvað er það þá, sem hann er að vara við? Er hann að vara við því einu að gera nokkrar aðrar ráðstafanir hér á Alþ. til þess að bæta úr húsnæðisleysinu en þær, sem hann sjálfur hefur lagt til, hversu ófullkomnar sem þær eru? Það má vel vera, að þetta sé í samræmi við framkomu þessa hv. þm. í ýmsum málum. — En þó er engin ástæða fyrir hv. þd. til að taka þær brýningar til eftirbreytni.