15.11.1945
Efri deild: 31. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Það er í raun og veru efnislega alveg það sama að segja um þetta frv. og það, sem næst á undan var hér á dagskrá. Þetta frv. er nákvæmlega shlj. l. um tekjuskattsviðauka, nr. 50 frá 1945, sem gilda fyrir þetta ár, og frv. þetta fer fram á, að þessi tekjustofn verði framlengdur, af því að ekki þykir fært, vegna afkomu ríkissjóðs, annað en þessar tekjur séu heimilaðar áfram. Þessi tekjustofn hefur á árinu 1945 gefið, þ. e. álagður tekjuskattsviðauki hefur numið næstum 5 millj. kr. Það er náttúrlega vafasamt, hvort óhætt er að reikna með því, að hann gefi eins mikið í tekjur á næsta ári. Eins og fjárlagafrv. er nú, er áætlunin um tekjuskattsviðaukann lækkuð nokkuð frá því, sem er á þessa árs fjárl., og má gera ráð fyrir, að einhver lækkun verði á tekjuskattsviðaukanum. Þó er þess að gæta, að tekjuskattsviðaukinn kemur hlutfallslega mest niður á tekjum frá 30 þús. upp í 150 þús. kr., og það er kannske ekki ástæða til að gera ráð fyrir, að á því sviði verði veruleg tekjurýrnun á næsta ári. Tekjurýrnun mun koma frekar niður á hátekjum á næsta ári. Það er því ekki óeðlilegt að álíta, að gera megi ráð fyrir, að tekjuviðbótin af þessu frv., ef að l. verður, verði eitthvað svipuð og eftir þessum l. á yfirstandandi ári, 5 millj. kr.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjhn.