05.04.1946
Efri deild: 100. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Félags- og dómsmrh. ( .Finnur Jónsson) :

Ég vildi út af því, sem hv. 4. landsk. þm. sagði viðvíkjandi Byggingarstofnuninni, ítreka það, að ég tel, að sú till. sé að mörgu leyti mjög athugandi, þótt hins vegar verði ekki hægt að koma henni fram í því formi, sem hún liggur fyrir frá tillögumanni, að þessu sinni. Hins vegar er eflaust ekkert því til fyrirstöðu, að félögin geti að einhverju leyti, ef til vill með frjálsum samtökum, án þess að lagastafur sé þar fyrir, komið sér upp vísi að slíkri stofnun, þrátt fyrir það að ekki sé svo fyrir mælt í lögum.

Viðvíkjandi fjárútvegun, þá vildi ég vera mjög til viðtals í sambandi við frv., sem hefur verið lagt fram í Nd. í því efni af flokksmönnum hv. 4. landsk. þm. Ef til vill væri hægt að ná einhverju af því, sem ætlazt er til með því frv., með samningum, en ef það er ekki, getur vel komið til álita að setja um það einhverja slíka löggjöf. Út af brtt. 679,2 skal ég segja það, að ég hef ekki tekið afstöðu til þeirrar brtt., en mun fyrir 3. umr. vera til viðtals við hv. 4. landsk. þm. um afgreiðslu hennar.