11.03.1946
Efri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

144. mál, Austurvegur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hafa komið veigamiklar upplýsingar í þessu máli nú, og má þakka það forseta og öðrum, sem leyft hafa frestun á málinu, því að ella er ekki víst, að þær upplýsingar, sem hér hafa fengizt, hefðu komið fram. Ég hygg, að samgmn. hefði ekki skilað málinu óklofin, ef hún hefði verið búin að fá þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir.

Hæstv. samgmrh. sagði, að frv. þetta væri stórt og djarft hugsað. Ég er alveg sammála því, en við erum farnir að hugsa öðruvísi en áður og mörg frv., sem komið hafa fram á Alþ. nú, eru bæði stórt og djarft hugsað. Þá sagði ráðh., að brýn nauðsyn væri á að gera þennan steinsteypta veg, en það er bara í samræmi við aðrar framkvæmdir. Það er víða nauðsyn að fá góða vegi, og það er vissulega mjög margt, sem er mikið aðkallandi.

Mér finnst eðlilegt, að það komi fram, hvort ekki er hægt að binda þetta frv. við hækkun benzínskattsins. Ég skal gefa upplýsingar um, að það var rætt í fjvn. um það að hækka benzínskattinn til þess að koma á auknum framkvæmdum í landinu. En um þetta fékkst ekki samkomulag. Nú er það athugandi, hvort form. n. getur ekki komið því til leiðar í samráði við ríkisstj., að benzínskatturinn verði hækkaður og sú hækkun gengi til þessa vegar, og gæti ég betur fellt mig við þá leið en að taka 20 millj. kr. lán.

Hæstv. samgmrh. benti á, að það þyrfti 200–400 menn til að gera þetta, og veit ég ekki, hvort n. hefur gert sér þetta ljóst. Það væri þá e. t. v. rétt að flytja inn einhverja Pólakka, en það þarf þá að gera ráðstafanir til þess, og ekki víst, að Alþýðusambandið samþykki það. — Það er athyglisvert, sem hæstv. ráðh. viðurkennir, að hér muni koma á eftir sandur af lögum um einstakar framkvæmdir. Og er þetta ekki í samræmi við hið fyrra frv. hér á Alþ. um að sameina hafnarlögin til að forðast þetta? Hæstv. samgmrh. taldi rétt að ljúka fyrst við Krýsuvíkurveginn, og þyrfti þá að setja það hér í frv. Ég tel það fullkomið ábyrgðarleysi, eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að samþ. þetta frv. Og ef það þarf að fá viljayfirlýsingu um þetta, þá væri hægt að fá hana á annan hátt.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um rök hv. form. og frsm. samgmn. Hann hefur ruglað þessu saman, er hann sem form. n. má ekki gera, og tekið þetta mál út úr öllum öðrum samgöngumálum, af því að hann hefur sérstakan áhuga á þessu. — Þá spurði hv. þm., hvort samgönguþörfin hefði minnkað. Eins og það sé nokkur bending um, að samgönguþörfin hafi minnkað, þótt menn vilji ekki fylgja þessu máli út úr öðrum lögum. Ég vil benda hv. þm. á það, að það þarf nýja brú á Þjórsá og Iðu og það er nýbúið að leggja í Ölfusárbrú. Og þegar búið er að gefa þessum mönnum nýja brú á Þjórsá o. fl., þá þarf líka að leggja nýja vegi um þessi héruð. Hv. þm. er staðbundinn við þetta hérað, lítur bara á þennan eina veg, en ekki samgöngumál allrar þjóðarinnar. Ég vil biðja hv. þm. að sitjast við hlið hæstv. samgmrh., því að hann telur ekki rétt, að frv. fari óbreytt í gegn, og hv. þm. sagði, að ráðh. hefði bezta þekkingu á þessu, og vænti ég því, að hann taki tillit til þess, sem hann segir, því að hann hefur meiri þekkingu á þessu en við báðir.

Þá minntist hv. þm. á, að þessi n. væri skipuð ópólitískum sérfræðingum, en ég efast nú um, að Gunnar Benediktsson sé sérfræðingur í vegagerð, eða Árni G. Eylands. — Hæstv. samgmrh. álítur, að Krýsuvíkurvegurinn eigi að ganga fyrir, og hæstv. fjmrh. líka, en Alþ. og fjvn. lækkuðu framlagið til þessa vegar, sem átti að ganga fyrir. Ef við lítum á frv. sjálft, þá hygg ég, að viljayfirlýsingin, sem hæstv. fjmrh. talaði um, náist alveg, þótt þetta frv. verði ekki samþ. Ég tel, að vegamálastjóri hafi vald til að láta byggja vegina eins og heppilegast er talið fyrir það fé, sem lagt er í þá. Hæstv. ráðh. hefur lagt á móti því, að þetta verði gert á 6 árum, svo að ekki er þörf á því ákvæði. Viðvíkjandi 7. gr. þá hefur ráðh. lýst því yfir, að ótækt sé að útvega lán. Frv. hefur því ekkert að gera í gegn á þessu þingi.

Þá vil ég benda n. á, að það er ekki sannað enn, að þörf sé á að kasta burtu vegi, sem liggur yfir láglendið, en leggja í nýjan veg, yfir fen og foræði, sem ekki er víst nema kosti meira en gert er ráð fyrir. Það mætti láta Gunnar Benediktsson moka þarna skít í nokkurn tíma til þess að kynna sér þetta. Og það er engan veginn víst, að þessi vegur verði betri. Ég tel það ekki neinn fjandskap við málið, þótt menn vilji ekki samþykkja þetta frv., eftir að ríkisstj. hefur lýst yfir því, að hún taki ekki lánið og ómögulegt er að fá fólk til þessara framkvæmda.

Ég vil svo ákveðið mælast til þess, að hv. form. samgmn. kasti burt heimasjónarmiðunum.