26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég vildi nú ekki vekja umr. um þetta mál frekar. Það er búið að ræða það, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir því. Ég vildi aðeins minnast á þá brtt., sem hér hefur komið fram á þskj. 498, frá þm. Dal. og hv. þm. S.-Þ., en hún er að minni skoðun þess eðlis, að samþykkt hennar væri það sama og að gera frv. að útlitssnotru pappírsgagni, en ræna það þeim mætti, sem fylgir því atriði frv. Það eru tvö atriði í þessari brtt., annars vegar að ákveða skuli í hvers árs fjárl., hvort veitt skuli til þessa verks, og svo hins vegar að nema burt lántökuheimildina. Hvorugt þessara atriða má tapast úr þessari lagasetningu, og verð ég því að mótmæla Þessari brtt. Hún hefur verið athuguð í samgmn., og urðu allir sammála um að vera á móti henni.

Annars held ég, að lítið ynnist við að fara að fjölyrða um þetta nú. Ég vil þó geta þess, að eitt af því, sem fundið hefur verið að þessu frv. af hálfu þeirra, sem hika við það, er, að of tímabundið sé að miða þessar framkvæmdir við 6 ár. Ég vil svara því, að í 5. gr. er sleginn sá varnagli af okkur flm., að þar er tekið fram, að þessi ákvörðun skuli því aðeins gilda, að nægilegt vinnuafl sé fyrir hendi, svo og vinnuvélar. Ég álít hófsamlegt að setja þetta inn í frv., og er það nægilegt svar. Það er aðstaða liðandi stundar hverju sinni, sem segir til um þetta, og þeir sem vilja taka málið af heilum hug, hljóta að viðurkenna, að þetta er sanngjarnt. Annars segi ég fyrir mitt leyti, að ef það mætti verða til samkomulags og til að sætta menn við frv., þá mundi ég greiða atkv. með því, að tíminn yrði lengdur í 8 ár, þótt ég telji, að það sé óþarfi.

Ég ætla svo að bíða og sjá, hvort ástæða verður gefin til umr. um þetta stórmál. Það er betur undirbúið en mörg önnur mál, og er vafamál, að nokkurt frv. hafi fengið betri undirbúning, og ætti það eitt með öðru að ýta undir þm. að greiða því atkvæði.