11.04.1946
Efri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Við 2. umr. tók ég aftur brtt. á þskj. 679, sem ég leyfi mér að taka nú upp aftur. Nefndin hefur ekki getað fallizt á brtt. mína við 4. gr., um að sett séu sérákvæði, að í Rvík megi tvö byggingarfélög verkamanna starfa. Ég rökstuddi þessa till. mína með því, að hér væri mun fjölmennara en annars staðar og sérdeilis að hér væru tvö byggingarfélög starfandi, og það félag, sem hér hefði rutt braut í byggingarmálum, mundi útilokað, ef till. yrði ekki samþ. Meðnm. mínir hafa ekki viljað samþ. þessa breyt., en ég mun samt leggja hana fram.

Önnur brtt. mín er við 6. gr. frv., um skipun stjórnar byggingarfélagsins. Slíka breytingu tel ég mjög til bóta og get ekki skilið, að hún hafi neina hættu í för með sér fyrir ríkisvaldið, því að það eru sameiginlegir hagsmunir, að fyrirkomulagið sé svo hagkvæmt sem kostur er á. Ég tel þetta eðlilegra og flyt því þessa brtt. Loks hef ég flutt brtt. við 38. gr., þess efnis, að í stað viðskiptaráðs skuli nýbyggingarráð hafa ráðstöfunarvald um byggingarefni. Ég tel það eðlilegra, þar sem nýbyggingarráð hefur eftirlit með byggingum, að þetta vald sé í höndum þess, meðan slíkra ráðstafana er þörf. Þó að viðskiptaráð hafi með innflutninginn að gera, þá hefur það ekki eins góð skilyrði og nýbyggingarráð til að fylgjast með þörfum manna. Ef úthlutunin ætti að vera í höndum viðskiptaráðs, hefði það mjög aukna vinnu í för með sér, en það hefur nú nóg að starfa og er vart á bætandi. Ég mun svo eigi fjölyrða meir um þetta, en láta þessar tillögur ganga undir atkvæði.