11.04.1946
Efri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Bjarni Benediktsson:

Ég hef löngun til að vera með, að heimilað yrði, að fleiri en eitt byggingarfélag yrði á sama stað. En ég hef nú fallið frá því og treysti mér ekki til að vera með till. hv. 4. landsk. Heldur mundi ég leggja upp úr því, að frjáls samtök, sem spryttu upp, nytu þeirra hlunninda, sem lögin ákveða. Ég tel till. hv. þm. sneiða fram hjá meginkjarna málsins og gera sáralitla bót. Hún gerir þetta ekkert frjálsara en nú er.

Hér í Rvík hefur reynslan orðið sú, að félagsskapur, sem unnið hefur að þessu, hefur lagt sig fram við að rækja skyldur sínar vel, og hefur hann verið vinsæll, og mega menn vel við una. Við þetta bætist nú, að með þessum lögum eru félaginu veitt ýmis aukin réttindi frá því, sem nú er. Ég tel það ekki illa farið, meðan verið er að sjá, hverja raun þetta gefur, að láta þau félög, sem reynslu hafa, njóta forréttinda. Verkamannasamvinnubyggingafélög voru stríðsfyrirbrigði til að lina áhrifin af verðbólgu og hjálpa þeim, sem verst voru settir.

Ég tel óhjákvæmilegt, að fylgzt verði með, að vel sé á þessu máli haldið, og yfirlit væri mjög miklu erfiðara, ef félögin væru fleiri en eitt á sama stað: Ég held því eins og nú er ástatt, að rétt sé að hafa ekki nema eitt félag á hverjum stað. Ég mun áskilja mér rétt til að halda mér við þá skoðun, að félögin eigi að vera fleiri en eitt, en eins og nú er ástatt, að hafa þau eigi fleiri en eitt á hverjum stað, svo að betra sé um eftirlit.

Ég tel rétt og óhjákvæmilegt, að formaður verði kosinn af ríkisstjórninni.

Varðandi tillöguna um, að nýbyggingarráð skuli hafa með þetta að gera, en ekki viðskiptaráð, vil ég benda á það, að nýbyggingarráð ei nú hlaðið störfum, og held ég, að ekki sé leggjandi á það meira í bili.

Breytingartillögum nefndarinnar er ég meðmæltur, tel ég þær vera til bóta. Sama get ég sagt um till. hv. 2. varaforseta, 9. landsk., og mun ég greiða henni atkv., ef hér er um heimild að ræða.