26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

144. mál, Austurvegur

Hermann Jónasson:

Ég skal ekki endurvekja deilur um þessa vegi, Krýsuvíkurveginn o. fl. En eins og kunnugt er, er sá vegur ákveðinn í l., og við afgreiðslu fjárl. var farið fram á að leggja svo mikið fé til þessa vegar, að áætlanir gætu staðizt, en þetta var fellt.

Í raun og veru er það einungis eitt, sem skiptir máli í þessu frv., og það er það, að í stað þess að leggja þennan veg fyrir fé ríkissjóðs á að taka lán til þess. Nú er ekki útlit fyrir, að ríkissjóður hafi betri ástæður síðar. Fleiri lántökuheimildir benda til, að fé muni ekki verða til í ríkissjóði. Ef lánsheimildin er felld úr frv., er það þýðingarlaust og ekkert verður úr framkvæmdum, að öðrum kosti fara framkvæmdir eftir efnum og ástæðum. Við, sem fylgjum þessu frv. af alhug, vitum þetta, en aðaláhyggjuefni okkar er yfirlýsing hæstv. fjmrh. Við viljum, að heimildin verði notuð, og ég vildi fara fram á það við hv. flm., að hann afli yfirlýsingar hjá hæstv. fjmrh. um, að heimildin verði notuð. Að öðrum kosti er gagnslaust að afgr. frv. samþ. þetta frv., og ég þekki ekki þann flokksaga að geta ekki fylgt málinu, þótt yfirlýsing liggi ekki fyrir frá stjórninni um stuðning. Ég minnist þess að vísu, að hæstv. fjmrh. gat um erfiðleika og dró sínar ályktanir, en í því fólst engin neitun um það, að heimildin yrði ekki notuð. Það er eftirtektarvert, að þegar byggja skal gistihús fyrir fleiri millj., þá er ekki horft í það. En þegar taka á lán til að framkvæma þetta stórmál, sem beðið hefur í 30–40 ár, þá eru ótal ljón á veginum, að margra dómi.

Ég vil að lokum segja það, að ef hv. þm. Str. hefur átt við það, að fylgi hans með frv. byggðist á því, hvað hæstv. fjmrh. segði, þá mun ég gera hvað ég get til þess að þessi hv. þm. greiði atkv. með málinu.