26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

144. mál, Austurvegur

Gísli Jónsson:

Ég ætlaði ekki að taka til máls í þessu máli, en ég get ekki þolað lengur rökleysur hv. þm. Árn. án þess að mótmæla þeim. Hann verður að gera sér ljóst, að verði, þetta frv. samþ., þá er farið inn á nýja braut, og þessi hv. þm. verður einnig að gera sér það ljóst, að geti viðkomandi hérað bent á nauðsyn þess að fá veg, þá hafa þm. talið sér skylt að styðja slíkt mál. Þessi vegur, sem hér um ræðir, er í vegalöggjöf, og verði þetta frv. samþ., þá er algerlega nýr háttur upp tekinn. Annars virðast það einkennileg vinnubrögð að eyða mörgum fundum í að láta vegi fara inn í vegalöggjöf, sem hafa verið í henni.

Hitt er svo annað mál, að í þessum umr. hefur ekki verið upplýst nauðsyn þessa vegar að öllu leyti. Það, sem hv. 6. þm. Reykv. benti á, að nauðsyn bæri til að tryggja flutninga á mjólk til Reykjavíkur, er að vísu rétt, en ég ætla, að slíkt hefði mátt gera á ódýrari hátt.

Viðvíkjandi benzínskattinum skal ég geta þess, að um það var rætt í fjvn. í vetur að hækka skatt til vegabóta. Þetta má vitanlega setja inn í frv. enn þá, en þá yrði um leið kreppt að annars staðar, þar sem sýslusjóðirnir stynja undir útgjöldunum. Þá kæmi stærsti hlutinn í þennan veg frá bílum, sem nota þennan veg. Ég vil gjarna taka höndum saman við hv. 6. þm. Reykv. um það mál, og þá er mér miklu ljúfara að fylgja frv., er þetta er sett inn í það. Hins vegar virðist mér sumir vilja loka augunum fyrir því, að annars staðar er tiltölulega eins brýn þörf fyrir veg og hér, og vil ég þó ekki neita því, að þörfin hér er mikil. Og það mega menn muna, að þegar þetta frv. er komið í gegn, þá koma sams konar kröfur frá ótal stöðum öðrum á landinu. Þeir, sem að þessu frv. standa, skulu ekki gleyma því.