21.11.1945
Efri deild: 34. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. gat um, var ég ekki viðstaddur þegar fjhn. afgr. þetta mál, en til þess var sú ástæða, að mér var ekki boðaður fundur n., en til þess mun þó hafa verið gerð tilraun, sem ekki bar árangur, af því að síminn í herbergi mínu var bilaður. Takast hefði þó mátt að boða mér fundinn, ef skelegglega hefði verið fram gengið, t. d. með því að senda til mín þingsvein. Ég get þessa vegna þess, að það er ekki venja mín að mæta ekki á þeim fundum, sem ég er boðaður á.

Ég er sammála meðnm. mínum um það, að framlengja þurfi þessi lög. Ríkissjóði mun ekki af veita. En í sambandi við þetta vil ég hreyfa atriði, sem ég hef hreyft á undanförnum þingum, þess efnis, hvort ekki sé réttari aðferð að ákveða þessar tekjur um óákveðinn tíma. Ef hagur ríkissjóðs batnar, þá má fella þetta niður. — Varðandi aðalefni frv. hef ég ekkert að athuga, en hef leyft mér að flytja tvær brtt. Hin fyrri er við 1. gr., þannig að við bætist „Veltuskatt álagðan 1945 skal draga frá hreinum tekjum áður en tekjuskattur og tekjuskattsviðauki er á þær lagður árið 1946“. — Ég hef borið þetta fram af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að ég tel veltuskattinn einn hinn ranglátasta skatt, sem á hefur verið lagður, og enn fremur er hægt að hugsa sér það, að allar nettótekjur fyrirtækis fari til að greiða veltuskatt, en samt á svo fyrirtækið að fara að greiða skatt af þessum tekjum. Þetta tel ég alls kostar óhæfilegt, þegar og þess er gætt, að veltuskatturinn er ekki lagður á eftir gjaldþoli, heldur eftir veltu. Mér hefur ekki unnizt tími til að athuga áhrif þessarar brtt., ef samþ. yrði, á tekjur ríkissjóðs, enda mundi það ekki koma fram fyrr en á næsta ári.

Hv. frsm. fór fram á, að ég tæki þessar till. aftur til 3. umr. Ég held nú satt að segja, að hér sé um svo einfalt mál að ræða, að hv. þdm. gætu nú þegar tekið afstöðu til þess. Hitt er eðlilegt, að frsm. getur ekki sagt um álit hv. fjhn. í þessu máli. Ég get auðvitað ekki verið með neina stífni í þessu og mun taka þetta aftur til 3. umr., ef fleiri óska þess. Vildi ég skjóta því til hæstv. fjmrh., hvort hann óskaði þess. Mundi ég þá draga brtt. til baka, ef hann vill athuga þær nánar, en ef hann hins vegar hefur þegar tekið sína ákvörðun í þessu máli, þá er það tilgangslaust. Ég legg þetta því undir hans dóm.