12.04.1946
Neðri deild: 108. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Sigurður Guðnason:

Ég vil ekki tefja þetta mál, en vil þó benda nefndinni á, að í 4 gr. frv. er ákvæði þess efnis, að einungis eitt byggingarfélag megi vera í hverjum kaupstað eða kauptúni. Nú er það þó þannig, að hér í Reykjavík hafa verið starfandi tvö byggingarfélög, þ. e. byggingarfélag alþýðu og byggingarfélag verkamanna. Byggingarfélag alþýðu hefur byggt um 170 íbúðir, en nú verður þetta félag svipt rétti til lána úr byggingarsjóði samkv. frv. Ég vil vænta þess, að hv. n. taki þetta til athugunar og leitist við að bæta úr þeim misrétti, sem hér er gerður.