15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Um alllangt skeið hefur það verið eitt af vandasömustu viðfangsefnum bæði löggjafans og framkvæmdavaldsins, á hvern hátt væri hægt að veita sem hagnýtasta aðstoð til þess að greiða fyrir því, að landsmenn gætu búið í sem beztum og heilbrigðustum íbúðum. Fyrir löngu gerði Alþ. mikilsverðar tilraunir í þessu máli, sem snertu sveitir landsins, með l. um byggingar- og landnámssjóð, og hvað snertir kaupstaði með l. um verkamannabústaði, sem upphaflega voru sett 1929, og l. um samvinnubyggingar, sem voru sett nokkrum árum síðar.

Það er ekki nokkur vafi á því, að öll þessi löggjöf hefur gert mikið til þess að hjálpa mönnum til að koma upp vistlegum heimilum yfir höfuð sín. En nú á allra síðustu árum hefur borið mjög á því, að húsnæðisskortur færi í vöxt, sérstaklega í kauptúnum og kaupstöðum landsins. Á vissum tímum stríðsins dró allverulega úr byggingu íbúðarhúsa í kauptúnum og kaupstöðum, samtímis því sem fólkið fluttist þangað, ekki hvað sízt til Reykjavíkur. Það hefur því verið rætt mikið um það á seinustu tímum, að það beri að gera enn þá meira en gert hefur verið til þess að greiða fyrir byggingarmálefnum landsins. Á öndverðu árinu 1945 var samþ. till. hér á Alþ. um það að fela ríkisstj. að láta athuga, með hverjum hætti bezt verði hægt af hálft hins opinbera að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum og sveitum landsins. Árangur af þessari ályktun Alþ. var sá, að núverandi hæstv. ríkisstj., eða nánar tiltekið félmrh., lét eftirlitsmann sveitarstjórnarmálefna leita fyrir milligöngu félagsmálaráðuneytisins umsagnar frá kaupstöðum og kauptúnum og starfandi byggingarfélögum um það, hvað hægt væri að gera í þessum málum til úrbóta. Niðurstaðan var sú, að aðallega var snúið sér að málefnum kauptúna og kaupstaða hvað þetta snerti. Að fengnum allmiklum upplýsingum um þetta efni frá einstökum kauptúnum og starfandi byggingarfélögum verkamanna og byggingarsamvinnufélögum var samið að tilhlutun félagsmálaráðuneytisins frv. til l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, sem hér er til umr. Þetta frv. var lagt fram fyrir hv. Ed. fyrir alllöngu, og hefur það verið alllengi þar í meðförum, sem meðal annars stafar af því, að reynt var að ná samkomulagi milli flokka um einhverja skynsamlega lausn á málinu. Nú fyrir skömmu náðist í aðalatriðum verulegt samkomulag um málið í Ed., og hefur hv. Ed. afgr. málið fyrir sitt leyti, en þó með nokkrum verulegum breyt. á því frv., sem lagt var fyrir d. í upphafi. Þetta frv., sem þannig komst til þessarar hv. d., hefur verið til meðferðar heilbr.- og félmn. og liggur nú hér fyrir til 2. umr. Félmn. hefur að vísu ekki farið ýtarlega á fundi eða fundum yfir þetta mál, en ég hygg, að hún hafi kynnt sér það allrækilega, bæði þegar það kom fram, undir meðferð þess í Ed. og eins og það var afgr. frá Ed.

Það var niðurstaða meiri hl. n. að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt, en sumir nm. áskildu sér rétt til þess að bera fram brtt. Hv. 11. landsk., sem er einn af meiri hl. n., sem leggur til, að frv. verði samþ., hefur borið fram brtt., sem nú liggja fyrir, og mun ég ekki að þeim víkja fyrr en hann hefur gert grein fyrir þeim af sinni hálfu.

Hv. 2. þm. Eyf. hefur áskilið sér rétt til þess að vera með eða flytja brtt. við frv., en hann hefur enga brtt. flutt, og ég veit ekki, hvort þær brtt., sem 11. landsk. og 2. þm. N.-M. (PZ) flytja, eru þannig að hv. 2. þm. Eyf. vilji fylgja þeim. En það kemur fram í meðferð málsins.

Að öðru leyti töldum við í meiri hl. n., sem leggjum til, að frv. verði samþ., að þar sem svo mjög er áliðið þingtímans, sæjum við okkur ekki fært að bera fram brtt. við frv., a. m. k. þær brtt., sem gerðu það að verkum, að málið drægist nokkuð á langinn. Og ég fyrir mitt leyti, þó að ég hefði óskað breyt. á ákvæðum frv., tel mér ekki fært að fylgja neinni af þeim brtt., sem kynnu að setja málið í hættu við það, að það færi þá til Ed. á ný. Ég álít, og svo mun vera um meiri hl. nm., að það frv., sem hér liggur fyrir, feli í sér verulegar endurbætur á þeim tvennum l., sem fyrir voru um þetta efni, l. um verkamannabústaði og 1. um samvinnubyggingar. Hvað snertir þau fyrri, l. um verkamannabústaði, þá er gert ráð fyrir í I. kafla þessa frv., sem nú liggur fyrir, að hækka framlög til þessara bygginga úr ríkissjóði að allverulegu leyti og að breytt verði lánskjörum frá því, sem áður var. Lánstíminn í sumum flokkum er lengdur verulega, eða úr 42 árum, sem áður var, í A-fl. upp í 75 ár og í B-fl. upp í 60 ár. Lán þessi mega nema allt að 90% af kostnaðarverði eignarinnar. Þá er gert ráð fyrir, að í C-fl. verði lánshæðin 85% af kostnaðarverði hússins og lánstíminn 42 ár. Og er það ákvæði eins og að ákvæði, sem er í l. um verkamannabústaði, þannig að A-fl. og B-fl. eru nýmæli, sem eiga að gera það að verkum, að byggingarfélögum, sem stæðu fyrir byggingu verkamannabústaða, ætti að vera auðveldara að reisa slíka bústaði. Þetta er helzta ákvæði hvað snertir verkamannabústaði, sem gerir það að verkum, að það er nokkuð greitt fyrir byggingu þeirra, og er það sízt vanþörf. Því að eins og fram hefur komið í umr. í Ed. um málið, þá er það bæði svo, að nú er byggt mjög mikið af verkamannabústöðum víða í kaupstöðum og kauptúnum landsins, og þar að auki liggja fyrir margar beiðnir og umsóknir um byggingu verkamannabústaða hingað og þangað um landið. Og enn þá hefur ekki verið hægt að svara öllum þeim fyrirspurnum, sem þar er um að ræða. Það er vissulega tímabært, að þessu verði sinnt og gerðir meiri möguleikar til þess að byggja verkamannabústaði. Og hvað snertir breyt. á lánskjörum, þá er gert ráð fyrir, að vextir í öllum lánafl. verði 2%.

Þetta eru helztu breytingarnar, og eru þær allar til bóta hvað snertir byggingarlöggjöf um verkamannabústaði. En hvað snertir byggingarsamvinnufélögin, þá er gert ráð fyrir því, að ríkisábyrgð nái til miklu hærri fjárhæðar en áður var, aðallega til samvinnufélagabygginga. Upprunalega var það svo í löggjöfinni um byggingarsamvinnufélög, að ekki mátti lána meira út á hverja byggingu en 15 þús. kr., miðað við ísl. peninga, en er dýrtíðin óx, breyttist þetta. Var þessi breyt. þannig, að hægt var að færa lánsheimildina upp í 60% af kostnaðarverði húsanna. Nú er gert ráð fyrir, að lánstíminn verði lengdur upp í 75 ár, og er þar um verulega fyrirgreiðslu að ræða hvað þessa ríkisábyrgð snertir fyrir samvinnubyggingarnar. Að öðru leyti er í þeim kafla ekki um stórvægilegar breytingar frá því, sem áður var, að ræða, og sé ég ekki ástæðu til þess að geta um þær.

Í III. kafla er algert nýmæli hvað snertir leyfi til þess að greiða fyrir byggingarframkvæmdum í kaupstöðum og kauptúnum. Þar er gert ráð fyrir, því, að ríkið og bæir hafi samvinnufélagsskap um það að byggja hús fyrir það fólk, sem býr í ófullnægjandi húsnæði, eftir þeim reglum, sem nánar eru tilgreindar í III. kafla frv., og ég hirði ekki um að rekja þær, ég veit, að allir eru sammála, sem hafa kynnt sér kaflann eins og hann er nú hér í frv., en hér er vissulega um merkilegt nýmæli að ræða, sem ætti að geta orðið til þess á næstu tímum og ég vildi segja á næstu árum að útrýma því auma og lélega húsnæði, sem margur hefur orðið að sætta sig við í kaupstöðum þessa lands, og þá ekki hvað sízt hér í Reykjavík, þar sem fjöldi fólks hefur orðið að búa í hermannaskálum, kjöllurum og fleiri slæmum íbúðum, sem hafa verið óviðunandi og heilsuspillandi. Með ákvæðum þessa kafla ætti að vera hægt að gera með röggsamlegum framkvæmdum ríkisvaldsins annars vegar og bæja og kauptúna hins vegar ráðstafanir til þess, að þessi ljóta hlið í húsnæðismálum okkar hyrfi sem allra fyrst, og þá er vissulega vel farið.

Loks er IV. kafli frv., sem gerir ráð fyrir því, að nokkur íhlutun hins opinbera verði höfð um innflutning og skiptingu byggingarefnis. Og er það að áliti meiri hl. og ég held allrar n. mjög nauðsynlegt, á meðan svo standa sakir, að fjöldi fólks býr við algerlega óviðunandi húsnæði og nokkrir örðugleikar eru að fá nægjanlegt byggingarefni til landsins, og á meðan svo er., þá virðist eðlilegt, að það efni, sem fæst, verði þá notað í hinar nauðsynlegustu byggingar, svo sem skólahús, verksmiðjur og sjúkrahús o. fl., og þá einnig til bygginga ódýrra og hagkvæmra íbúðarhúsa. Ég fyrir mitt leyti hef þá skoðun, að þessi kafli hefði átt að vera eins og hann var upphaflega í frv., en eins og ég sagði áðan, álít ég, að það sé ekki unnt að taka upp deilur um það mál vegna þess, hve áliðið er þings og málið þar með lagt í hættu. Þess vegna hef ég fyrir mitt leyti ekki viljað flytja brtt. við frv.

Þá hygg ég, að ekki þurfi að hafa þessi almennu orð að því er snertir meðmæli með frv. fleiri. Mér gefst tækifæri til þess við áframhaldandi umr. að minnast á þær brtt., sem fluttar eru af hv. 11. landsk. og hv. 2. þm. N.-M. (PZ), og gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra, og þá býst ég við, að það verði afstaða okkar þriggja í n. til þessara brtt., og ég geri ráð fyrir, að meiri hl. n., sem skrifaði undir nál., vilji ekki fara inn á jafnstórvægilegar breyt. og gert er ráð fyrir í þeim brtt., sem ég nefndi, frá hv. 11. landsk. og hv. 2. þm. N.-M. Enda hefur hv. 11. landsk. lýst því yfir hér, eða mér skildist það á honum, að hann væri málinu fylgjandi, hvernig sem færi með hans brtt., því að aðalatriðið var í hans augum, eins og okkar hinna, sem meiri hl. skipum, að fá í aðalatriðum þau ákvæði, sem í frv. felast eins og það liggur fyrir, samþ. nú á þessu þingi, enda þótt við hefðum allir haft nokkra tilhneigingu til þess að endurbæta það hver á sinn hátt og kannske á nokkuð mismunandi hátt. En við mælum eindregið með því, að frv. gæti sem fljótast og bezt farið gegnum þessa hv. d. og hlotið endanlega afgreiðslu og samþykki Alþingis.