26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

144. mál, Austurvegur

Magnús Jónsson:

Hæstv. forseti hefur víst ekki heyrt til mín, er ég kvaddi mér hljóðs, en nú hefur hv. 6. þm. Reykv. tekið að nokkru af mér ómakið að svara hv. þm. Barð. — Hann ásakar okkur fyrir, að við fylgjumst illa með, þótt hann virðist oft gera það sjálfur og tali í þeim tón, að hann sé málinu ekki kunnur. Mér sýnist, að fyrst skuli vinna að því að tengja vegina saman að austan og vestan. Þm. Barð. talaði um botnlausar forir í Ölfusi, sem vegurinn ætti að liggja um. Með þessari vegarlagningu er stefnt að því að leggja eins fullkominn veg og getur verið að Selfossi. Þessi kafli austur mýrar yrði þá lagður síðast, eftir að nákvæm, verkfræðileg rannsókn hefur farið fram.

Hv. þm. Barð. telur, að þessi vegagerð eyðileggi vegagerðir annars staðar og taki fé frá öðrum vegum. Það má ekki tefja þennan veg. Þetta er alveg nýmæli, þess vegna kvaddi ég mér hljóðs. Þetta mál er alveg sérstakt og kemur ekki við öðrum vegum. Þetta mál er vaxið upp úr járnbrautarmálinu.

Hv. þm. S.-Þ. taldi það kannske vera vegna forsvars síns með járnbrautarmálinu, að Jón heitinn Þorláksson féll við þingkosningar, en hann er sögufróður maður, eins og menn vita. Þetta eru heldur fáfengileg rök, og er mér nær að halda, að annað hafi þar til komið, að hann hafi fallið af öðrum ástæðum. Jón Þorláksson var skarpur maður og fljótur að grípa og meta það bezta í hverju máli, og þó féll hann, og það máske eingöngu fyrir, hvað hann var gáfaður. Það er afstaða Jóns Þorlákssonar í sambandsmálinu, sem e. t. v. varð honum frekar að falli en afstaðan gagnvart samgöngumálunum.

Því fer verr, að járnbraut var ekki lögð, og ég er sammála þm. Barð., að bezt sé að hafa járnbraut þar sem langt er á milli byggðra staða. Þá gæti einn og sami maður ekið hundruðum smálesta af vörum, þar sem annars þyrfti fjölda manns. Það er galli, að þessu máli var ekki haldið áfram, en menn þráðu víðtækari samgöngur en járnbraut, því var sú leið ekki farin. Járnbraut mætti reka sem sjálfstætt fyrirtæki, en vegina verður að afhenda. Var hér talið mögulegt, að ríkið hefði vagna til rekstrar og hefði ágóða af, jafnvel að veita einkarétt á því.

Það mætti taka skatt af veginum, en ef menn láta sér ekki nægja tekjur svo að milljónum skiptir af veginum í sambandi við sjálfa flutningana um hann, þá tek ég undir með hv. þm. Str., að lánsheimildin er aðalatriðið. Það má ekki hvika um lánveitingu. Það fé, sem á að fara í aðra vegi, heldur áfram að fara í þá. Þessum vegi á að halda alveg sérstökum. Hann á ekkert að draga frá öðrum vegum. Það á að einangra hann, gera hann óháð fyrirtæki vegna lánsheimildar. Ég skil vel þm. Barð., sem sagði að það ætti að klípa af öðrum fjárveitingum til þess að leggja þennan veg. Málið er flutt nú sem sérstakt fyrirtæki af okkur, sem tökum á þessu máli með alvöru. Hv. þm. Str. þarf ekki að rekja það. Það hefur flm. gert.

Ég álít yfirlýsingu ráðh. eðlilega, að Krýsuvíkurvegi verði haldið áfram, og er ég því sammála. Það gæti verið gott að grípa til Krýsuvíkurvegarins, ef snjór fyllti austurveg þennan og gerði hann ófæran. Mönnum vex það í augum að gera steinsteyptan veg og síðan Krýsuvíkurveginn, en ekki er lítið í húfi með öruggar samgöngur. Ef járnbraut hefði verið lögð fyrir 20–25 árum, hefði hún margfaldað framleiðsluna þá. Merkur þm. reiknaði kostnaðinn við að leggja járnbraut í dagsláttum, hvað sú fjárupphæð, sem til járnbrautar þyrfti, dygði til þess að rækta upp margar dagsláttur af landi. Þau rök dugðu til þess að fella frv. Þessi afstaða hefur orðið til stórkostlegs tjóns, og hv. þm. ættu að skoða hug sinn, áður en þeir tefja þetta mál. Ég vil, að þingið vilji samþ. lánsheimildina, að það hafi kjark í sér til að gefa stjórninni hana. Ég legg áherzlu á, að lánsheimildin sé samþykkt, og skil vel þá þm., sem vilja ekki klípa af veitingum til annarra vega. Hv. þm. Barð. segir, að heil héruð gætu komið í kjölfar þessa máls og heimtað slíkar framkvæmdir og hér er um að ræða. Komi þm. Barð. með heil héruð, er sitt hvað, hvort málið sé brýn nauðsyn í fjölmenninu eða hvað fámenninu hentar. Það er ekki sama, hvort um er að ræða 50 þúsund menn, sem byggja afkomu sína á þessu máli, eða íbúa Þaralátursfjarðar, sem eru um 500. Í fjölmenni er hægt að gera hluti, sem eru ekki mögulegir eða lítt mögulegir í fámenninu. Fjölmennið gerir þessa vegalagningu mögulega.. Hvernig ætti að líta á, þegar Bretar byggðu risavaxna brú yfir Forth-fjörð til þess að stytta járnbrautina um örfáa kílómetra? Þetta margborgaði sig. Er þetta ekki hægt hér með þessum vegi? Helmingur þjóðarinnar stendur að vegi þessum. Ég verð að segja það, að það á ekki að klípa af frá öðrum vegum, en það á að byggja upp fjárhag þessara héraða, það er eðlilegur gangur málsins. Síðar mætti veita öðrum héruðum aðstoð, ef svo sýnist. Fyrsta skilyrðið fyrir strjálbýlið til þess að afla peninga til slíkra framkvæmda er að, efla fjölbýlið til þess að standa undir framkvæmdum.

Ég vil leggja áherzlu á, þar sem fundi er að ljúka, að ég er með flutningi þessa frv. Mæli ég með því, að lántökuheimildin verði samþykkt, þar eð það á ekki að ganga á neins annars rétt í þessu frumvarpi.