26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

144. mál, Austurvegur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er ekki margt, sem ég ætla að segja, en hv. 6. þm. Reykv. talaði um, að þm. lýstu gleði sinni yfir frv. En það er síður en svo, að ég hafi gert það eða við, sem komum með brtt. við það. Þetta vesalings frv. er sorgarbarn feðranna. Einn talaði um járnbraut, og getur verið, að sá hugur magnist og sú hugmynd fái betri byr seinna.

Hv. 6. þm. Reykv. talaði um, að bensínskattur gæti hjálpað og orðið til bóta. Aðalflm. vildi lengja tímann upp í 8 ár, sem skatturinn ætti að standa. Ég verð að segja, að þetta frv. er tilraun til þess að olnboga sig áfram. Það liggur fyrir, að þegar búið er að fá lán, þá gengur þessi vegur á undan framkvæmdum með aðra vegi. Þá gæti helzt komið til mála það, sem hv. þm. Str. sagði, að hann gerði sér von um, að ekkert gagn yrði að þessu, því að ekkert mundi verða af þessari lántöku. Og get ég skilið það frá hans bæjardyrum séð og hans flokksmanna, sem ætíð hafa staðið gegn lántökum stjórnarinnar, en þó þykir mér þetta geiga nú.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ef hér væru látnar 10 millj., þá kæmi hv. þm. Barð. og heimtaði 10 millj. fyrir eina 500 íbúa í hans kjördæmi. Ég hygg, að enginn hafi skilið orð hv. þm. Barð. svo, en við teljum, að við eigum hlutfallslega rétt á því, er Alþ. lætur af mörkum. — Mér finnst þessi vegur hálfilla undirbyggður og ekki búið að rannsaka Ölfusmýrarnar nægilega, og segja sumir, að það sé langt til botns austur á Ölfusmýrum, og hygg ég, að það sé einnig langt til botns í þessu frv., og býst ég við, að ég fylgi því ekki.