10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

144. mál, Austurvegur

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér þykir fyrir því, ef hv. 10. landsk. þm. vildi skilja það svo, að af því að ég hét fylgi við brtt. ráðh., þá vantreysti ég hv. 10. landsk. þm. til fylgis við málið. Það ber ekki að skilja það svo. En mér virtist það tryggilegra upp á framgang málsins, þar sem ekki er um meira atriði að ræða en fram kemur í brtt. hæstv. ráðh. og hann á, eftir því sem nú horfir, að annast framkvæmdina, að tryggja mér sem beztan stuðning hans við framgang málsins. Og þó að þykkjur okkar, hæstv. ráðh. og mín, fari ekki saman í mörgum málum, er ég þó þannig skapi farinn, að þegar um málefni er að ræða, sem eru mikilvæg, þá vil ég leita þeim liðs hvar sem er, ekki sízt ef það getur ráðið úrslitum málsins í framkvæmd. Nú hef ég heyrt það af munni hæstv. ráðh., að hann vill greiða fyrir því, að málið gangi í gegn. Og hvað áhrærir þessa brtt. og að málið þurfi að koma til Ed., þá held ég, að það geti ekki orðið málinu til stórvægilegrar tafar, því að ég ætla, að þetta mál hafi verið afgr., að mig minnir, með 12 shlj. atkv. frá Ed., svo að ég vantreysti ekki Ed. til að samþ. frv., þegar það kæmi þangað. Hv. 10. landsk. þm. viðurkenndi líka, að þetta væri að deila um keisarans skegg. Hann viðurkenndi með öðrum orðum, að þetta væri svo smávægilegt atriði, að úr því væri ekkert gerandi, og þá finnst mér, að það megi vænta þess, að hann geri heldur ekki mikið úr þessu atriði, ef það gæti orðið til þess að tryggja framgang málsins síðar meir í hinni verklegu framkvæmd.

Hvað Krýsuvíkurveginn snertir, þá hefur hæstv. samgmrh. tekið allt fram, sem máli skiptir, svo að ég fer ekki út í það. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vænti þess, að hv. 10. landsk. þm. láni sitt lið á sem allra beztan hátt til þess að málið fái sem bezta afgreiðslu.