10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

144. mál, Austurvegur

Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Það eru aðeins fáein orð út af síðustu ræðu hv. 1. þm. Árn. Hann hefur þegar fallizt á, að fyrir sér væri þetta um keisarans skegg að deila. En þegar hv. þm. játar, að það sé keisarans skegg að breyta málinu, þá á hann heldur ekki að ljá lið sitt til þess að tefla málinu í nokkra tvísýnu, eins og er um hvert mál, sem ekki er afgr. skelegglega nú, þegar komið er að þingslitum.

En svo vil ég benda á það, sem markar einkennilegt viðhorf hjá hv. 1. þm. Árn., og það er, að hann sló því föstu, að hann vildi gera þetta fyrir hæstv. samgmrh., með því að hann ætti að framkvæma málið. Hann hefur m. ö. o. góðan vilja á því, að núverandi hæstv. samgmrh. sitji í næstu 6–8 ár yfir framkvæmd málsins í ráðherrasæti, en ég skal ekkert frekar um það segja. Í öðru lagi lagði hv. 1. þm. Árn. áherzlu á það, að þetta gæti ráðið úrslitum málsins í framkvæmd næstu 6–8 ár, og ber það að sama brunni, að það á að tryggja þennan veg með brtt. hæstv. ráðh., sem sé, að málið fengi þá afgreiðslu síðar meir í framkvæmd, sem öllum væri fyrir beztu. Þó að ég unni þessum hæstv. ráðh. alls góðs, get ég ekki heitið honum, eins og sakir standa, fylgi mínu í 8 ár, einkum ef svo er, að þeir, sem skelegglegast hafa barizt á móti núverandi stjórnarháttum í landinu, eru nú með í ráðum og vilja óbeint veita slíkan stuðning.