15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Sigurður Guðnason:

Við 1. umr. þessa máls vakti ég athygli á því, að Byggingarfélag alþýðu óskaði eftir, að tekið yrði til athugunar, hvort ekki mætti láta byggingarfélög, sem starfa hér í bænum, fá sama rétt til lántöku. Hv. 11. landsk. hefur tekið þetta upp, og er ég þakklátur fyrir það.

Ég ætla ekki að fara að rifja upp sögu þessa máls. Hv. 4. þm. Reykv. tók fram, að hann væri á móti þessu, og heyrði ég ekki betur en hann segði, að þetta félag væri ekki til. Út af þessu vildi ég segja nokkur orð. Þetta félag var búið að byggja í þrennu lagi og byggja upp 171 íbúð, sem voru miklu betri íbúðir en hægt var að búast við á þeim tímum. Margir þeir menn, sem í verkamannabústaðina fóru, höfðu ekki nokkurn möguleika til þess að komast í íbúð nema í gegnum þetta byggingarfélag. Og fyrstu íbúðarhúsbyggingarnar hjá þessu félagi hafa víst verið fyrstu opinberu byggingarnar, sem byggðar voru, sem ekki fóru fram úr áætlun. Húsin urðu ódýrari en áætlað hafði verið í fyrstu, og þau voru byggð þannig, að fyrst og fremst var hugsað um að fá góðar íbúðir og ódýrar og byggja sambyggingar. Nú, þegar þetta félag er búið að starfa í 6 ár og ætlar að fara að byggja í fjórða skiptið, búið að fá lóð o. s. frv., þá er það svipt byggingarstyrknum. Og menn geta hugsað sér, hvernig þetta er, búið að byggja þarna 171 íbúð og borga af þeim í 6 ár, búið að byggja upp tryggingu fyrir framhaldandi lánum. Ég fæ ekki skilið, hvaða rök sé hægt að færa fyrir því, að það félag, sem er búið að byggja upp tryggingu fyrir sínum lánum og hefur staðið vel í stöðu sinni, sé af hálfu löggjafarvaldsins svipt möguleika til að halda áfram og lánakjörin veitt yfir í annað byggingarfélag, sem er nýstofnað. Svo er kallað, að þetta félag sé ekki til. — Viðvíkjandi því, hvernig það hefur starfað síðan, var Byggingarfélag alþýðu, þegar það var svipt þessum réttindum, búið að byggja fyrir 171 meðlim, og enn þá eru eftir á annað hundrað manns, og núna er þetta mál kemur hér fram, þá má búast við leiðréttingu. Það eru tvö ár liðin síðan fundur hefur verið haldinn í byggingarfélaginu, og ástæðan er aðeins sú, að erfiðleikar hafa verið á því að ná samningum við Rvíkurbæ um heitt vatn. Á eina staðnum, sem byggt var, kom það fram, að hitaspursmálið var leyst þar með sérstakri framsýni. Hitatækjum fyrir öll húsin var komið fyrir á einum stað, og fyrir 170 íbúðir þurfti ekki að leggja nema tvær stöðvar. Hér var hugsað um það eitt að byggja góðar og ódýrar íbúðir fyrir verkamenn, en þessar byggingar ná ekki því marki.

Þetta félag mundi leggja kraft til byggingarframkvæmda í þessa átt, og loks vil ég segja það, að ég trúi ekki, að meðlimir Byggingarfélags alþýðu verði látnir sæta þrælatökum út af pólitík. Félagið hefur ávallt haldið reikninga og fylgt settum reglum, og ég trúi því ekki, þótt félag þetta hafi orðið fyrir pólitísku aðkasti, að hv. þdm. muni ekki veita þessu byggingarfélagi það lið, sem réttmætt má telja.