15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hv. frsm. sagði, að samið hefði verið um þetta mál á milli stjórnmálafl. í hv. Ed. og væri því erfitt að breyta hér miklu um. Ég hefði samt kosið að gera hér nokkrar breytingar, og vil ég nefna hér nokkur dæmi.

Í fyrsta lagi er, að þótt frumv. feli í sér mörg hlunnindi, þá er þó of skammt gengið í II. kafla frumv., og er of mikill munur á I. kafla þess og II. kafla. Hins vegar er ekkert að finna um útvegun lána né um vaxtakjör, og má því ætla, að lánskjörin væru 4–4½% í 30–40 ár. Er mikill munur á þessu og í öðrum félögum.

Ég hef leyft mér að bera hér fram 3 brtt. — Í upphafl. frv. er sagt, að það mætti stofna eitt byggingarsamvinnufélag í hverjum kaupstað. Frá þessu hefur hv. Ed. fallið. Hér í Reykjavík er það mjög tíðkað orðið, að starfsfólk ýmissa stofnana myndi með sér byggingarfélag, og er það þá venjulegast um 25–30 manns, sem taka sig þannig saman. Með breyt. Ed. geta þessir hópar ekki myndað félag. Þess vegna legg ég til, að í stað 30 komi 20 og í stað 50 komi 25. Hér er sem sé lækkuð lágmarkstala sú, sem krafizt er, að sé uppfyllt, er fólk vill mynda byggingarsamvinnufélag. Um þetta ætti enginn ágreiningur að vera.

2. brtt. mín er við 15. gr. frumv. og er um ríkisábyrgðina. Nú er það svo, að nokkur byggingarsamvinnufélög hafa ekki fengið ríkisábyrgð, og er hér því lagt til, að greinin verki aftur fyrir sig, þannig að á eftir 2. málsl. komi nýr málsl.: Þetta ákvæði nær einnig til þeirra samvinnubústaða, sem lokið er við að byggja eftir 1. jan. 1943.

3. brtt. mín er við 18. gr. frumv. Hámarksstærð samvinnubústaða hefur verið 500 teningsmetrar, og getur það verið afar erfitt að mega ekki fara fram úr þessu, og það hafa heyrzt raddir um að hækka húsin sem svarar góðu risi, en það mun ekki vera hægt samkv. þessu frumv. Ég legg því til, að hér komi 600 teningsmetrar í stað 500 teningsmetra. Reynslan bendir til, að þetta sé nauðsynlegt, og stórar fjölskyldur gera kröfur til stærra húsnæðis. Ég legg þá fram þessar skrifi. brtt. mínar, en þær eru óprentaðar enn þá. Mér er kunnugt, að hv. Ed. muni ekki setja sig í mót þessum breytingum á frumv., og mun hún ekki tefja málið.