13.02.1946
Neðri deild: 66. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

29. mál, fræðsla barna

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki getað athugað þetta frv. sem skyldi, en það eru svo margir og stórir bálkar, sem berast nú að, að erfitt er að komast yfir að kynna sér til hlítar öll þau stórmál, sem hér eru á ferðinni.

Ég verð að segja það, að hvað snertir störf hv. menntmn., sem hefur haft þetta mál með höndum, virðist mér þau vera til bóta. Þær brtt., sem n. hefur gert, ganga í þá átt, sem ég hefði kosið, en á frv. virðist mér vera ýmsir gallar. Fyrst og fremst finnst mér frv. of mikið mótað af því sjónarmiði, að of mikið eru dregnir fram hagsmunir kennarastéttarinnar og þeirra, sem í höfuðstaðnum búa, en ekki nægilega mikið tillit tekið til þeirra manna, sem búa í sveitunum. Það er áberandi, hvað hér er alls staðar leitazt við að koma þeim mönnum út úr afskiptum af þessum málum, sem í sveitunum hafa hingað til starfað að þeim. Skólan. og fræðslun. í sveitum eru þurrkaðar út sem nokkurt áhrifavald samkv. frv., og er ætlazt til, að í stað þeirra verði skipaðar nokkurs konar fræðslun. fyrir heilar sýslur. Ég skil vel, að þetta er gert í ákveðnum tilgangi. Ástæðan er sú, að skólan. margar hverjar hafa verið mjög tregar á að taka undir þann söng, sem látlaust hefur verið sunginn um það, að börnunum, sem alast upp í sveitunum, sé stöðugt að fækka og þannig hljóti það ávallt að verða í framtíðinni, og væri því eðlilegt að stefna að því að færa þessi mál saman. Andstaða skólan, víðs vegar úti um land stafar af tvennu. Fyrst og fremst af því, að menn hafa ekki allir jafnsterka trú á því, að börnum verði í framtíðinni hrúgað saman á einum eða tveim stöðum í heilli sýslu, og í öðru lagi af því, að menn líta á skólamálin sem einn þáttinn í menningarstarfi hverrar sveitar og hann ekki svo ómerkilegan. Skólahúsin í sveitunum, þar sem þeim hefur verið komið upp, hafa á ýmsum stöðum orðið nokkurs konar miðdepill fyrir sveitina og skapað henni aðstöðu til þess að halda uppi félagslífi og skilyrði til aukinnar félagslegrar þróunar. Þetta hafa margir ekki viljað líta á, og það er þess vegna mjög verið að keppa að því að þrengja að þeim sveitarfélögum, sem reynt hafa að halda þessa götu, og þrengja þeim inn á aðrar leiðir. Ein af þeim sem stefnt er að með þessu frv. — er sú að taka ráðin úr höndum skólan. og leggja þau í hendur nokkurra manna, þ. e. fjögurra, sem sýslufélagið kýs, og eins manns, sem fræðslumálastj. skipar. Það er bersýnilega gert ráð fyrir því, að þessir menn, sem þannig verða kosnir, verði þægari en skólan. í heild. Ég held, að allt þetta umstang þessara vissu manna, sem alltaf eru að reyna að þrengja að sveitunum á þessu sviði, sé sprottið af trú þeirra á því, að það ástand hljóti alltaf að haldast í sveitunum, sem því miður ríkir nú, að fólkið standi í stað hvað fólksfjölda snertir og að vonlaust sé, að byggðin í sveitunum haldi áfram. En ef menn hefðu þá trú, sem ég hef og eflaust margir aðrir, að fólkinu í sveitunum eigi eftir að fjölga og byggðin að þéttast, þá leiðir það af sjálfu sér, að það, sem virðist mjög sterkur tilgangur þessa frv., er bláber heimska, sem sé að keppa að því að draga þessi mál saman, því að þá rekur að því síðar meir að fara að endurreisa skólahús, sem nú er ætlazt til, að verði lögð niður.

Ég vil því eindregið biðja hv. menntmn. að taka til athugunar, að kostur manna verði ekki þannig þrengdur, að þeir verði ofurseldir geðþótta fræðslumálastj. eða annarra tveggja eða þriggja manna um skólamál sín, heldur að þeim verði veitt réttindi til þess að hafa íhlutun í þessum efnum.

Ég hef þegar tekið það fram, að ég felli mig vel við þær breyt., sem hv. n. hefur gert, og þær ganga frekar í þá átt að sporna við því, að fræðslumálastj. verði einráð í þessum efnum og geti sagt mönnum fyrir verkum, eins og mér skilst, að hafi verið tilgangurinn með frv. Ég tel aðeins, að n. hafi ekki gengið nógu langt. — Skal ég svo ekki fara lengra út í þetta mál, en vildi aðeins vekja athygli á þessu, sem ég hef nú drepið á, úr því að enginn annar hafði gert það.