28.03.1946
Efri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Ég afhenti hér í morgun brtt. við þetta frv. til skrifstofunnar, en þeim hefur ekki verið útbýtt. Ég hef þær þó hér í afriti, og gæti ég talað fyrir þeim, ef hæstv. forseti vildi leyfa það.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að ræða um þær brtt., sem ég hef flutt og eru fluttar í samráði við hv. flokksbræður mína, sem eiga sæti í n.

Brtt. eru að mestu leyti um það, að sá háttur haldist um yfirráð yfir skólum og eignum skóla og ráðningu starfsfólks til skóla, svo sem skólastjóra, kennara og ráðskonu, sem hefur verið, a. m. k. þar sem ég þekki til, í höndum sveitarstjórnar. En samkv. því frv., sem fyrir liggur, er ætlazt til þess, að þetta vald sé fengið í hendur annaðhvort beint til skólastjóra eða sumpart til skólan. og sumpart skólastjóra og skólan. Nú mætti að vísu segja, að þetta skipti ekki miklu máli, ef skólastjórar og skólan. væru ætíð í samræmi við vilja sveitarstj. á hverjum stað, en svo sem menn vita, þá er skipunarvaldið á skólastjórum algerlega í höndum fræðslumálastj., og fræðslumálastj. hefur líka svo ríka þátttöku í skipun skólan., að vera kann, að það sé annar meiri hl., sem ræður í skólan. en í sveitarstj., og meðan sá háttur er hafður á, þá sýnist mér það vera óeðlilegt að taka þetta vald úr höndum sveitarstj. og ekki sízt þar sem til þess er ætlazt, að meginhluti kostnaðar við starfrækslu skólans, annar en sá, sem stafar af föstum launum kennara, sé borinn upp af sveitarfélaginu, og það þess vegna eðlilegt, að sveitarstj. hafi endanlegt úrskurðarvald í þessum efnum.

Fyrsta brtt. mín er við 11. gr., að hún falli niður, vegna þess að að efni hennar verður vikið í öðrum ákvæðum.

Brtt. við 15. gr. er um það, að aftan við gr. bætist: „Umráð skólahúsnæðis eru í höndum sveitarstjórna, en eigi er heimilt að leyfa notkun skólahúsnæðis, nema samþykki skólan. komi til. Umráð húsgagna og annarra muna í þágu skólastarfsins eru í höndum skólastjóra, en eigi má hann ráðstafa þeim til notkunar utan skólans, nema samþykki skólan. og sveitarstj. komi til.“

Eins og menn sjá, þá er þarna gert ráð fyrir, að samþykki þessara aðila þurfi til þess að ráðstafa þessum eignum umfram venjulega meðferð til kennslustarfa, þannig að það þurfi ekki að óttast í þessu, að sveitarstj. muni misbeita því valdi, sem henni er fengið, vegna þess að það er tekið fram, að hún má ekki ráðstafa skólahúsnæðinu nema með samþykki skólan.

Þá legg ég til, að 3. málsgr. 21. gr. falli niður, og eins að orðið „starfsfólk“ í 5. málsgr. sömu gr. falli niður, þannig að skólastjóri eða skólastj. eigi ekki að hafa með höndum ráðningu annars starfsfólks en þess, sem kostað er af hálfu hins opinbera, því að hitt er að langmestu leyti kostað af sveitarstj. og því eðlilegt, að þær hafi þær ráðningar með höndum.

Þá er brtt. við 22. gr., um það að gr. orðist svo: „Ef sveitarstjórn óskar, getur hún skipað einn af kennurum skóla sem yfirkennara. Skal hann vera skólastjóra til aðstoðar í starfi hans. Allan kostnað við, skipun yfirkennara skal greiða úr sveitarsjóði.“ Þetta er í samræmi við þá venju, sem hefur á komizt þar, sem yfirkennarar hafa verið skipaðir við barnaskóla, a. m. k. hér í Reykjavík, þá hefur þetta verið gert upp á kostnað sveitarsjóðs, og hann hefur ekki mælzt undan því að bera þennan kostnað. En þá er líka ætlazt til þess, að það sé sveitarstjórnin, sem ræður því, hver maðurinn er. Nú kunna einhverjir að segja, að það sé óeðlilegt, að sveitarstj. færu þannig að skipa beinlínis yfirkennara við skóla, en það er ekki, þegar litið er á, að þetta mundi ekki verða gert nema í hinum stærstu skólum, og þess enn fremur gætt, hversu þarna er varið miklum fjármunum frá sveitarsjóði, þá væri það óeðlilegt, að sveitarstj. fengi ekki neinu þar að ráða, en kostnaðurinn eigi eftir sem áður að greiðast úr sveitarsjóði. Sveitarsjóður leggur mikið fram af stofnkostnaði í fyrstu og ber ábyrgð á viðhaldi skólahússins og skólamuna. Allt þetta heyrir undir skólastjóra, og það er ekki nema eðlilegt, að sveitarstj. vilji hafa sérstakan trúnaðarmann í samstarfi við skólastjóra til þess að gæta þessara hagsmuna. Það verður hún að kosta. Hitt er svo alveg ljóst, að yfirstjórnin er, að svo miklu leyti, sem l. taka ekki til hennar, í höndum skólastjórnar og fræðslumálastjórnar. Það er aðeins þetta, að sveitarstjórn, sem er sá aðili, sem tekur verulegan þátt í kostnaðinum, er gefinn kostur á því að setja þar inn trúnaðarmann frá sér, til þess að fylgjast með og gæta sinna hagsmuna sérstaklega. Þetta hefur verið gert hér í Reykjavík, og ég held, að segja megi, að það hafi gefizt ákaflega vel.

Ég vil þá minnast á þá menn, sem þessu starfi hafa gegnt, eins og t. d. Jón Sigurðsson sem nú er skólastjóri í Laugarnesi. Hann hófst fyrst til slíkrar stöðu sem yfirkennari Austurbæjarskólans. Þá má minna á núv. yfirkennara Austurbæjarskólans, Gísla Jónasson, sem var valinn af bæjarstj. sem yfirkennari þess skóla, og þá Elías Bjarnason, sem í mörg ár hefur verið yfirkennari Miðbæjarbarnaskólans. Þá má og minna á einn enn, Pálma Jósefsson, sem hefur gegnt því starfi síðan Elías lét af störfum. Í einu tilfelli varð ágreiningur þannig, að skólastjóri og skólan. vildu ráða þessu. Það féll í mál og skólastjóri og skólan. töpuðu því fyrir hæstarétti, vegna þess að hæstiréttur taldi rétt, að bæjarstj. hefði það vald.

Nú er ætlunin að ganga inn á þessa braut og svipta sveitarstj. þeim rétti, sem hæstiréttur taldi, meðan l. voru ekki sett um það, eðlilegt að væri hjá sveitarstj. Sveitarstjórnir hafa ekki mælzt undan því að bera kostnaðinn við þetta, og þykir mér eðlilegast, að sá háttur verði látinn haldast.

Þá er brtt. við 25 gr. frv., um það, að 4. málsl. orðist svo : „Í kaupstöðum á borgarstjóri eða bæjarstjóri sæti í fræðsluráði og er formaður þess. Utan kaupstaða er oddviti sýslun. formaður fræðsluráðs.“

Þetta er að efni til alveg staðfesting á því, sem nú er í 1., en ætlunin er að breyta frá því, sem verið hefur, og ég sé satt að segja enga ástæðu til þess. Ég held, að hinu væri nær að breyta, skipun skólan., í þá átt, að sveitarstj. kysu þær allar, heldur en að fara að minnka rétt sveitarstj. svo mikið sem gert er ráð fyrir. Menn verða að gæta að því, að þótt ríkið beri meginhluta kostnaðarins af fræðsluskyldunni, þá er í raun og veru líka valdið í höndum þess til þessara mála, þar sem er fræðslumálastj., ráðh. og fræðslumálastjóri, sem hafa í raun og veru úrskurðarvaldið í öllum þessum efnum. Skólan. hafa aftur á móti ekki nema tillögurétt varðandi skipun kennara og skólastjóra. Og það væri miklu eðlilegra, að meirihlutavilji kæmi fram á hverjum stað í skipun skólan., en svo gæti fræðslumálastjórnin virt þann vilja að vettugi, ef hún vildi. Ég hef ekki farið svo langt, a. m. k. á þessu stigi málsins, að flytja brtt. um skipun skólan., þó að það geti komið til greina, en læt nægja að halda þessu í því horfi, sem það hefur verið, þannig að ekki sé lengra gengið á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga en fram að þessu hefur átt sér stað.

Þá er hér brtt. við 31. gr. um það, að upphaf gr. orðist svo: „Skólanefnd skal líta eftir, að“ o. s. frv., með því að ég álít, að skólastj. hafi fengið fjárveitingarvald úr sveitarsjóði, sem ekki getur átt sér stað eðli málsins samkvæmt. Skólan. á að vera eins konar keyri á sveitarstj. í þessum efnum og fylgjast með því, að hún fullnægi skyldu sinni, en ekki að taka sér framkvæmdavald í þessum efnum. Í samræmi við breyt. á orðalagi 31. gr. hef ég lagt til að fella niður 2. málsl. 32. gr., sem að vísu er endurtekning á því, sem nú stendur í l., en samkvæmt því, á ágreiningur milli skólan. og sveitarstj. um greiðslur úr sveitarsjóði að úrskurðast af fræðslumálastjóra, þannig að þá getur fræðslumálastj. í raun og veru ákveðið greiðslur úr sveitarsjóði án þess að frekari lagaheimild komi til. Þetta álit ég ekki að geti staðizt. Það er auðvitað sveitarstj., sem hefur hverju sinni ákvörðunarréttinn til að greiða úr sveitarsjóði. Ef sveitarstj. hins vegar svíkst um að fullnægja skyldu sinni samkv. fræðslul., verður að athuga það með öðrum hætti, takist ekki með sættum að fá hana til þess, verður í síðasta tilfelli annaðhvort að höfða refsimál gegn henni vegna vanrækslu eða beita þvingunarvaldi samkvæmt sérstökum l., sem sett væru. En að hafa það svo, að það væri ekki lögbrot, þó að skólan. ákvæði greiðslu úr sveitarsjóði, þá væri gengið á rétt sveitarsjóðs meira en góðu hófi gegndi. Það má segja, að svipað ákvæði hafi verið í l. og ekki komið að sök, en úr því að verið er að gera það ákveðnara með því að breyta því, virðist mér rétt að spyrna við fótum og taka upp eðlilegan hátt í þessum efnum.

Þá er það viðvíkjandi 34. gr., ég legg til, að hún orðist svo: „Ef fræðslumálastjórn og bæjarstjórn Reykjavíkur verða ásáttar um það, skal í Reykjavík skipa fræðslufulltrúa, sem skal hafa með höndum þau störf, sem þessir aðilar semja um að fela honum, þ. á m. framkvæmd á ákvörðunum skólanefnda, eftir því sem við getur átt. Kostnaður af starfi fræðslufulltrúa greiðist að hálfu af hvorum, ríkissjóði og bæjarsjóði.“

Það er eftirtektarvert og lýsir í raun og veru dálítið andanum í þessu frv., að þetta starf fræðslufulltrúa í Reykjavík er nokkurra ára og var þá stofnað með samþykki bæjarstj. annars vegar og fræðslumálastj. hins vegar, og þessir aðilar hafa komið sér saman um að greiða hvorir um sig helming af þessu starfi, og mér er ekki kunnugt um neinn ágreining í þessu sambandi. Það þótti nauðsynlegt vegna þeirra miklu fjármuna, sem bæjarsjóður leggur fram í þessum efnum, að bæjarstj. hefði trúnaðarmann, sem hún gæti leitað til um yfirsýn yfir þessa hluti. En með þessu frv. er ætlazt til að taka manninn alveg af bænum, en láta bæinn borga mikinn hluta kostnaðarins. Ríkið á að vísu að launa manninn, en bærinn á að borga allt skrifstofuhaldið. Hann þarf því að vera skipaður eftir vilja bæjarstj. og fræðslumálastj., og þess vegna vilji beggja að koma til, eins og verið hefur fram að þessu og ég vil að haldist. Ég held, að það sé engum til góðs að viðhafa slíkar aðferðir eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Þá legg ég til, að aftan við 51. gr. bætist: „Sveitarstjórn ræður annað starfsfólk en kennara og ráðskonu heimavistarskóla, að fengnum till. skólan. og skólastjóra.“

Það er eðlilegt, að fastir kennarar og ráðskona heimavistarskóla, sem kostaðir eru af ríkinu, séu ráðnir af fræðslumálastj., enda á það að annast uppeldisstarfið. Annað starfsfólk, sem annast viðhald eignanna, en sá kostnaður er lagður á sveitarstj.. sé ráðið af sveitarstj., eins og verið hefur. Og sama má segja um annað starfsfólk, sem er í kringum þetta. Sem sagt, það af starfsfólkinu, sem sveitarsjóður á að kosta að mestu leyti, er ekki nema rétt, að hún ráði sjálf, en ekki skólastjóri, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Þá er það viðvíkjandi 54. gr., er snertir smábarnaskóla. Það er ráðgert í frv., að sveitarstj. sé heimilt að setja sjálfar slíkan skóla á stofn fyrir börn 6–8 ára gömul, og ef sveitarstj. setja sjálfar slíkan skóla á stofn, eigi að borga laun kennara úr ríkissjóði. Ég sé enga ástæðu til þess, að styrkur ríkisins sé bundinn við skóla sveitarfélaga, þar sem hér er ekki um skólaskyldu að ræða og einmitt reynsla fengin fyrir því, að starfsemi áhugamanna í þessum efnum er oft eins notadrjúg eða notadrýgri en þó að almenningsvaldið tæki að sér slíkar framkvæmdir. Auk þess, sem ég get nú skýrt frá því, að hér í Reykjavík hefur verið til undirbúnings þess háttar framkvæmd og sá maður, sem mest allra hérlendra manna hefur fengizt við smábarnafræðslu, hefur nú í hyggju að koma upp smábarnaskóla í samráði við foreldra þeirra barna, sem í skólanum eru, og með atbeina bæjarstjórnar. Mér sýnist rétt að takmarka styrk ríkisins við það, að bærinn geri þetta einn út af fyrir sig, þar sem vitað er, að ef bærinn á að fullnægja skyldum sínum samkv. fræðslul., þarf að byggja á næstu árum marga skóla, og þar sem svo stendur á, þykir mér ósæmilegt að slá á framrétta hönd bæjarins sjálfs til þess að láta af hendi fé til smábarnaskóla. Ég veit ekki, hvort sú skoðun verður ofan á í bæjarstj., en mér þykir rétt að hafa þann möguleika opinn og einskorða þetta ekki svo sem í frv. er gert.

Þá er það brtt. við 55. gr. um, að 2. og 3. málsl. falli niður, að ráða skuli sérstakan embættismann til þess að annast lækniseftirlit með heilbrigði skólabarna. Mér sýnist, að þetta starf sé ekki annað en það, sem landlæknir og landlæknisskrifstofan á að inna af höndum, og verð ég að segja, að þó að menn þykist hafa fullar hendur fjár, verður að fara varlega í það að stofna æ ofan í æ ný embætti. Ég held, að slíkt eftirlit með heilbrigðismálum skólanna sé bezt komið hjá landlækni, sem menn bera fullt traust til, og ástæðulaust að sýna honum slíkt vantraust, með því að setja annan hálaunaðan mann til þess að gegna því starfi, sem landlæknir á nú að gera og ég vona, að hann hafi gert á óaðfinnanlegan hátt: Má segja, að þessi brtt. sé annars eðlis en hin brtt., sem lýtur að því að vernda rétt sveitarfélaganna, en þessi lýtur að því að reyna að gæta varúðar í sambandi við fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Og þó að segja megi, að ekki muni um einn blóðmörskepp í sláturtíðinni, þó að eitt embætti sé stofnað enn, þá má fara varlegar í það en hér er gert, og ætti í öllu falli að sjá til, hvort landlæknisskrifstofan getur ekki gegnt þessu skylduverki eins og öðrum. Vona ég, að þessar brtt. berist svo snemma, að þær geti orðið teknar fyrir við umr. málsins, og vil ég þakka hæstv. forseta, að hann leyfði mér að mæla fyrir þeim, áður en þær eru fram komnar, og verð ég að segja, að ég er undrandi yfir því, hve seint þær berast.