15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég er sammála hv. 8. þm. Reykv. Ég get þó líka tekið undir, að ýmislegt hefði verið hægt að gera betur. Ég hefði kosið ýmsa kafla öðruvísi, og ég vildi, að í frv. hefði verið ákvæði um að afla fjár til bygginganna. Hitt er annað mál, að ýmsar þær till., sem fram hafa komið, hefðu getað orðið frv. að falli. Ég vil því mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt.

Það hefur verið fundið að því, að mikill munur væri gerður á þeim, sem byggja verkamannabústaði, og þeim, sem lifa í samvinnubústöðum. Er það ekki algengt, að gerður er munur á þeim, sem einhvers mega sín, og þeim, sem einskis mega sín?

Maður hefur séð í blöðum stjórnarandstöðunnar, að ekkert gengju störfin á Alþingi. En nú þegar búið er að afgreiða stærstu málin, þá er fundið að því, að málunum sé hraðað um of. Hv. 2. þm. N.-M. veit það vel, að algengt er, að stórmál, sem afgreiða þarf, bíði til seinustu stundar. Þessi mál hafa líka verið rædd mjög mikið. Ég hef áður sagt, að ég hefði kosið, að þetta frv. hefði verið víðtækara en það er. Ég sagði líka, að ýmsar brtt. hefðu getað orðið frv. skaðlegar, og get ég því ekki mælt með þeim.

Það ber nauðsyn til að koma upp ódýrari húsum og bæta mönnum ýmislegt við byggingu húsa. Það má benda á það hér, að iðnaðarmenn eru að koma upp byggingarráðstefnu, og munu þar koma fram ýmsar nýjungar. Byggingarfélögunum er, í lófa lagið að koma upp samtökum um kaup á efni o. s. frv. Ég tel samþykkt á þessu frv. vera miklar framfarir. Ég vænti þess svo, að hv. þm. Snæf. taki sínar brtt. aftur til 3. umr.