15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég vildi fyrst segja það út af brtt. 856, hvort flm. vildi ekki taka hana aftur til 3. umr.

Ég þarf raunar litlu að svara ræðum minna fyrrv. flokksmanna. Hv. 1. landsk. sagði, að till. hv. 11. landsk. hefði orðið til þess að hella olíu í eld. En ef einhverjar glæður hafa verið fyrir hendi, þá hefur hv. 8. þm. Reykv. lagt til olíuna. Hv. 1. landsk. sagði það, að félagsmenn í Byggingarfélagi alþýðu hefðu ekki viljað hlíta landslögum, og það er rétt, því að þeir höfðu verið æstir svo upp. Er fundurinn, sem hv. 1. landsk. talaði um, var haldinn, þá lágu brbl. fyrir og var samþ. þar að fara ekki eftir landslögum, og þá er sú saga búin. (SigfS: Hvers vegna voru brbl. sett?) Mér er þetta mál vel kunnugt. Þegar þjóðstjórnin var mynduð 1939, þá var það eitt af skilyrðum Alþýðuflokksins, að útvegaðir yrðu nógir peningar til þess að byggja fyrir verkamannabústaði. En þá er ég nú kominn að hv. 8. þm. Reykv. Ég tek það fyrst fram, að hann er guðfræðingur, og hann er svo biblíufróður, að þegar vitnað er til Adams gamla, þá á það að vera tákn syndarinnar. Og hann vissi ekki, hvort heldur það var rödd hins gamla Adams eða Alþýðufl. sem talaði. Já, hér má segja: Sá hefur nú fengið endurfæðinguna! Hann hefur ekki enn verið eins lengi í Sósíalistafl. og í Alþfl., og mér er nær að halda, að hann eigi ekki eftir að vera þar lengi, ekki eins lengi og hann var í Alþýðufl.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að ég skyldi nefna rangfærslu hjá sér. Rangfærsla hans var auðsæ. Hann lagði áherzlu á það, að brbl. hefðu verið sett til þess að koma Héðni Valdimarssyni úr formannssæti. En hann spyr: Hvers vegna þurfti að grípa til þessara ráðstafana? Vegna þess að þá átti að reisa byggingar víða úti um land, og þess vegna var nauðsynlegt, að stjórnin hefði menn í stjórnum félaganna. Þá stóð til að byggja hjá Byggingarfélagi alþýðu í kvos við Hringbraut og Grettisgötu, en mönnum leizt ekki á staðinn. Við Háteigsveg hafa svo verið reistir á vegum Byggingarfélags verkamanna sérlega fagrir verkamannabústaðir. Erlendir verklýðsleiðtogar, er hér voru á ferðinni fyrir 2 árum, lofuðu mjög bæði bústaðina og staðinn, sem þeim var valinn. Eitt er það sem sagt, sem vannst við brbl., að betri staður, var valinn.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að segja meira út af ummælum þessara hv. þm. En ástæðan fyrir útgáfu brbl. var réttmæt og afleiðing þeirra var sú, að fegurri og glæsilegri bústaðir voru reistir. Læt ég svo athugasemd minni lokið.