28.03.1946
Efri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði viðvíkjandi íbúðum skólastjóra, a. m. k. að því er tekur til hinna stærri kaupstaða. Ég sé enga ástæðu til að hafa þetta ákvæði í l. um þessa embættismenn frekar en marga aðra, t. d. héraðsdómara. Og að því er snertir Reykjavík hefur reynslan orðið sú, að þar, sem þessu var í upphafi þannig fyrir komið, að skólastjórarnir höfðu íbúðir í sjálfum skólunum, hafa þeir nú allir flutt úr þeim íbúðum, þannig að enginn skólastjóri býr nú í skólunum, þar eð þeir hafa talið óheppilegt að hafa slíkar fjölskylduíbúðir í sjálfum skólunum. Ég vil benda á, að í hinum nýju skólum, Laugarnesskólanum og Melaskólanum, sem mjög mikið hefur verið lagt í, eru engar skólastjóraíbúðir, og er það — í beinu samráði við skólastjórana sjálfa, sem hafa talið það óheppilegt að hafa slíkar íbúðir í skólunum. Ég sé nú ekki, hvaða ástæða er að skylda fremur sveitarsjóði til að leggja þessum mönnum til íbúðir. Raunar kann að vera annað viðhorf úti um land, en ég vil taka undir með hv. þm. Barð., að n. ætti að athuga þetta betur í ljósi þeirrar reynslu, sem fengin er.