01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

29. mál, fræðsla barna

Frsm. meiri hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil hér ræða nokkuð um brtt., sem fram hafa komið við frv. það, sem hér liggur fyrir. En þær eru í 11 liðum. Sumar þeirra hafa áhrif á veigamikil atriði, og get ég ekki fellt mig við það og mun því standa á móti þeim. Vil ég nú víkja nánar að hinum einstöku brtt.

1. brtt. er við 11. gr. og mælir svo fyrir, að gr. falli niður. Gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eigi er heimilt að leyfa notkun skólahúsnæðis, nema samþykki skólanefndar og skólastjóra komi til.“

Ég sé ekki, til hvers á að banna þessum aðilum að taka afstöðu um þetta. Ástæðan er þó sú, að efni gr. komi inn í 15. gr. Hv. 6. þm. Reykv. leggur til, að umráð skólahúsa séu í höndum sveitarstjórna. Ég vil benda ár það, að þó að þetta ákvæði væri framkvæmanlegt á sumum stöðum, þá er það óframkvæmanlegt annars staðar. Hér í frv. er að því stefnt, að fleiri hreppar sameinist um eitt skólahús, og gætu þá t. d. umráð yfir því lent í höndum 4 sveitarstjórna, en hver maður sér, að slíkt yrði algerlega ótækt. Aftur á móti væri mjög heppilegt, að umráðin yrðu í höndum skólanefndar, sem í þessu tilfelli yrði kjörin af 4 sveitarstjórnum.

Þá er næst brtt. við 21. gr. frv. og fjallar um það, að 3. málsgr. falli niður, en hún hljóðarsvo, með leyfi hæstv. forseta: „Skólastjóri hefur umráðarétt yfir húsnæði skólans og munum í þágu skólastarfsins. Að öðru leyti hefur skólanefnd í samráði við skólastjóra umráðaréttinn, en verði ágreiningur þeirra á milli, sker fræðslumálastjórn úr.“

Hér er um að ræða að fella niður ákvæði um, að skólastjóri hafi einhvern umráðarétt yfir húsnæði, ásamt skólanefnd, en fari til sveitarstjórnar. Enn fremur er svo þessi brtt. um, að úr síðustu mgr. falli niður orðin „og starfsfólk.“ Þá á skólastjóri ekkert að hafa með að gera ráðningu starfsfólks.

Þá er brtt. um, að sveitarstjórn skuli geta ráðið yfirkennara. Þetta hefur verið hefð við stærstu skóla, að þar séu yfirkennarar. En hér á að rifta þessari hefð. Mér finnst það skrýtið að leggja það í vald sveitarstjórnar, hvort yfirkennari skuli vera við barnaskóla. Enn fremur virðist mér í þessu gæta nokkuð misskilnings á hlutverki yfirkennara. Hann á að vera aðstoðarmaður skólastjóra, en ekki einhvers konar fulltrúi sveitarstjórnar. Starf yfirkennara er nánast hliðstætt starfi skólastjóra, og er þá aðeins stigsmunur á því, að sveitarstjórn fari að skipa skólastjóra. Hins vegar er ekki hægt að ætlast til þess, að sveitarstjórn eigi sérstakan fulltrúa innan skólastjórnar.

Því næst er brtt. við 25. gr. frv., þar sem lagt er til, að bæjar- eða borgarstjóri skuli eiga sæti í fræðsluráði í kaupstöðum, en utan þeirra oddviti sýslunefnda, og séu þeir formenn ráðsins.

Í núgildandi l. um fræðslu barna er svo ákveðið, að fræðsluráð skuli skipað. Er í þeim l. ákvæði um fræðslusjóði og skólabyggingarsjóði, og skal sá síðarnefndi stofnaður með tillagi frá sýslusjóði, en fræðslusjóður greiðir sameiginlegan kostnað við fræðsluna. Það er því ekki óeðlilegt, að sýslumenn eða bæjarstjórar eigi sæti í fræðsluráði. En þetta hlutverk er nú breytt og því ekki lengur ástæða til þess, að þessir menn séu formenn fræðsluráða. Víða úti á landi mundu þá sýslumenn geta orðið formenn margra fræðsluráða. Sýslumaður gæti auðvitað skipað formenn fræðsluráða, en ekki virðist meiri ástæða til þess að hann geri það en fræðslumálastjórnin. Það virðist því mjög eðlilegt, að fræðslumálastjórnin skipi formenn skólanefnda. (BBen: Það er alls ekki viðurkennt af öllum.)

Þá er brtt. við 31. gr. frv. og hljóðar um, að upphaf gr. orðist svo: „Skólanefnd skal líta eftir“ o. s. frv. Ég sé ekki, hvaða ástæða er fyrir þessari brtt., því að í öllum eða flestum tilfellum mundi það lenda á skólanefndum að annast um þetta, kannske eitthvað í sambandi við sveitarstjórnir. Er skólanefnd alltaf kunnugust því, hvaða útbúnaður er nauðsynlegur.

Hér kemur svo brtt. við 32. gr. um það, að 2. málsl. falli niður. Mér er ekki ljóst, hvað hv. þm. meinar með því að fella þetta burt, því að ef ágreiningur verður milli skólanefndar og sveitarstjórnar, verður einhver aðili að vera til þess að skera úr þeim ágreiningi, svo að skólahald stöðvist ekki.

Þá er brtt. við 34. gr., er hún orðuð alveg um og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef fræðslumálastjórn og bæjarstjórn Reykjavíkur verða ásátt um það, skal í Reykjavík skipa fræðslufulltrúa, sem skal hafa með höndum þau störf, er þessir aðilar semja um að fela honum, þ. á m. framkvæmd á ákvörðunum skólanefnda, eftir því sem við getur átt. Kostnaður af starfi fræðslufulltrúa greiðist að hálfu af hvorum, ríkissjóði og bæjarsjóði.“

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að þetta starf er þegar orðið staðreynd. Þegar fyrir 2 árum var þetta embætti stofnað, og virðist þetta starf svo nauðsynlegt, að ekki sé hægt að leggja það niður. Það er a. m. k. í hæsta máta óviðfelldið að setja þetta ákvæði. Starf fræðslufulltrúa yrði nokkuð hliðstætt og skólanefnda í sveitum, og er því eðlilegt, að bæjarsjóður greiði skrifstofukostnað hans. En að svo miklu leyti sem hann telst fulltrúi fræðslumálastj. hér, sem nokkurs konar námsstjóri, virðist eðlilegt, að ríkissjóður greiði laun hans, enda er fram tekið í frv., að þau skuli ákveðin í launal.

Þessu næst er brtt. við 55. gr. frv. um það, að 2. og 3. málsl. falli niður. Þessi gr. fjallar um heilbrigðiseftirlit í skólum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lækniseftirliti með heilbrigði skólabarna og kennara og hollustuháttum skólanna skal haga eftir reglum, er heilbrigðismálastjórn setur í samráði við fræðslumálastjórn. Skal ráðinn sérfróður læknir, skólayfirlæknir landsins, er skipuleggur og hefur yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti í skólum svo og íþróttastarfsemi. Heimilt er skólayfirlækni að fela heilsuverndarstöðvum, þar sem þær eru starfandi, eftirlit þetta.“

Ég vil geta þess núna, að landlæknir hefur um mörg ár barizt fyrir því, að þessi háttur yrði upp tekinn, enda hefur hann tíðkazt í nágrannalöndunum og bendir til framfara. Skoðun hv. 6. þm. Reykv. er sú, að nægilegt sé eins og nú er, að héraðslæknar hafi þetta starf með höndum. En það er nú svo, að enda þótt börn hafi sloppið í gegnum læknisrannsókn, þá hefur það komið fyrir, að þau hafa verið með berkla, þegar þau hafa komið á heilbrigðisstöð hér í Reykjavík. Þetta mundi hafa minnkandi kostnað í för með sér.

Þó að ég sé yfirleitt andvígur brtt. hv. þm., þá hef ég samt borið fram í n. brtt. til miðlunar. Vil ég leyfa mér að lesa upp till. og afhenda forseta síðan skriflega, því að tími hefur enn ekki unnizt til þess. að prenta þær.

Við 22. gr. ber ég fram svo hljóðandi brtt.: „Í staðinn fyrir síðasta málsl. (laun yfirkennara .... í launalögum) komi: Yfirkennarar skulu vera einum launaflokki lægri en skólastjórar hlutaðeigandi skóla.“ — Ég vil benda á, að þegar frv. þetta var upphaflega samið af mþn., þá höfðu launalögin ekki verið samþ. og því ekki ákveðið, í hvaða launaflokki yfirkennarar væru, en nú munu þeir vera einum lægra en skólastjórar.

Við 34. gr. frv. er ég með svo hljóðandi brtt.: „Síðasti málsl. orðist þannig: Laun hans skulu greidd úr ríkissjóði skv. 6. launaflokki, en bæjarsjóður greiðir skrifstofukostnað hans.“ Með þessu er fræðslufulltrúi settur í sama launaflokk og skólastjórar stærri skóla.

Ég vil þá loks í fáum orðum snúa mér að aths. hv. þm. Barð., er hann gerði síðast við frv. Fyrsta atriðið er það, að í stað 7–13 ára skólaskyldu komi 7–14 ára, og vill hann þar með koma í veg fyrir lengingu skólaskyldualdursins. Enn fremur er hér verið að brengla öllum grundvelli skólakerfisins. Þetta mundi sérstaklega koma hart niður á börnum í sveitunum.

Ef þetta væri lögfest, gildir það það, að allmikill hluti af börnum í sveit yrði útundan þeirri aukningu á fræðslu, sem ákveðin er í frv., vegna þess að það mundi miklu frekar verða látið sitja við það, að þau fengju þessa lögskipuðu fræðslu til 14 ára aldurs. Hitt er nokkurn veginn öruggt, að í kaupstöðum yrði þessu ákvæði um lengingu skólaskyldualdursins nokkurn veginn fylgt, jafnvel þó það væri ekki lögfest.

Þá er það annað atriði, að hv. þm. taldi ekki ástæðu til þess að láta íbúð fylgja skólahúsnæði. Það er þegar í l. um heimavistarskóla, að það skuli fylgja skólahúsnæðinu íbúð fyrir skólastjóra, og það hefur reynzt ómögulegt annað en að hafa það svo. Nú gildir þetta einmitt um þessa skólastjóra og kennara heimavistarskólanna, að þeir eru ekki skipaðir fyrr en eftir tveggja ára reynslutíma. Og þess vegna er ómögulegt að ætlast til þess, að þeir geti farið að byggja hús yfir sig, þar sem þeir eru settir án þess að hafa nokkra vissu fyrir því, að þeir fái starfið áfram. Í öðru lagi vildi ég benda á það, að með því, að vel sé búið að þeim mönnum, sem taka við þessu starfi, er miklu fremur hægt að tryggja það að fá hæfa menn til þessara starfa en annars.

Hv. þm. Barð. var að tala um það hér og mæltist til þess við menntmn., að hún bæri fram brtt. um það, að sér fyndist rétt, að í 17. gr. frv. í fyrri málsgr., á eftir orðunum „nema hann hafi lokið viðurkenndu kennaraprófi“, komi: eða öðru samsvarandi prófi. En í 17. gr. er tekið fram, að engan megi setja eða skipa kennara við barnaskóla, nema hann hafi lokið viðurkenndu kennaraprófi, o. s. frv. Þessi hv. þm. sagði, að prestar hefðu kannske sumir ekki það mikið að gera, að þeir gætu vel tekið þetta starf að sér. Má vera, að svo sé sums staðar. En ég hef bent á., að um lengri tíma hefur það ákvæði gilt viðkomandi menntun kennara, að til þess að hafa kennararéttindi, verða þeir menn að hafa lokið sérstöku prófi í uppeldisfræði og kennslufræði við Kennaraskólann. Nú hafa margir stúdentar einmitt lesið þessar námsgreinar við Kennaraskólann og þar með tekið þetta próf. Og þetta stendur opið fyrir þeim stúdentum, sem vilja taka að sér barnakennslu, að taka þetta próf við Kennaraskólann. Þetta er tiltölulega stutt nám til viðbótar við stúdentspróf. Og þegar stúdentar hafa lokið því, geta þeir tekið að sér að vera skólastjórar við hvaða barnaskóla sem er á landinu.

Þá vill hv. þm. Barð., að 18. gr. frv. falli niður, af því að ákvæði hennar eigi að vera reglugerðarákvæði. Þessi gr. er um fjölda og lengd kennslustunda í barnaskólum. Lengst af hefur það verið fastákveðin regla, að kennslustundir hafa verið ákveðnar fyrir hvern kennara 5 stundir á dag og 50 mínútur hver klukkustund. Nú hefur sá háttur verið tekinn upp að stytta kennslustundirnar, og þykir það gefast vel. En jafnframt hlýtur kennslustundum, sem hver kennari þarf að hafa á hendi að kenna, að fjölga. Það munar að vísu 10 mínútum, hvort kennari kennir 5 50 mínútna stundir á dag eða 6 40 mínútna stundir. En vegna þess að heppilegra hefur þótt að hafa kennslustundirnar fleiri og styttri, hefur þótt ástæða til að setja ákvæði um þetta í frv. Og þetta er praktiserað þannig t. d. við háskólann, að lengd hverrar kennslustundar er ekki nema 40 mínútur. Og ástæða sýnis,t ekki síður vera til þess við barnaskólana að takmarka tíma hverrar kennslustundar við 40 mínútur.

Þá minntist hv. þm. Barð. á það, hver ætti að greiða kostnað við fræðsluráð. Samkv. frv. eiga fræðsluráð að vera kosin af bæjarstjórnum og sýslunefndum. Og þess vegna eiga þau að vera kostuð af sýslusjóðum utan kaupstaðanna, en í kaupstöðum af bæjarsjóðum. Þannig mun þetta hafa verið, þar sem þau hafa starfað hingað til.

Hv. þm. Barð. taldi of langt gengið á rétt skólanefnda með því að þær hefðu ekki meiri íhlutun um val kennara en að mæla með ákveðnum mönnum úr hópi umsækjenda, og kom hann með dæmi um það, að troðið hefði verið inn á skólanefndir mönnum í kennarastöður, sem skólanefndarmenn vildu ekki. Ég vil leyfa mér að draga það mjög í efa, að þetta sé svo á rökum byggt, að það sé ástæða til þess að koma með brtt. við frv. um þetta atriði, vegna þess að ég álit, að yfirleitt sé það alls ekki gert að troða mönnum þannig inn á skólanefndirnar.