01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég óskaði eftir við hæstv. forseta, að hæstv. menntmrh. virti hv. þd. þess að vera viðstaddur á fundi meðan á þessum umr. stendur, þar sem þetta mál heyrir undir hann. Hann gekk út, síðast þegar það var rætt, sem ég held, að hafi verið s. l. fimmtudag. En nú er hæstv. menntmrh. kominn hér, og mun ég beina fyrirspurnum til hans.

Í 6. gr. þessa frv. segir, að þeim börnum, sem um getur í c-, d- og e-liðum 5. gr., skuli séð fyrir vist í skóla eða stofnun, sem veitir þeim uppeldi og fræðslu við þeirra hæfi. — Ég vildi spyrja hæstv. ráðh., hver það er, sem á að sjá fyrir þessari stofnun. Er það ríkissjóður eða hlutaðeigandi sveitarsjóður?

Í öðru lagi vildi ég af tilefni fullyrðinga hv. frsm. menntmn., sem talaði um mjög náið samstarf milli formanna skólanefnda og fræðslumálastjórnar, og að vegna þess nána samstarfs væri heppilegt, að fræðslumálastjórnin skipaði formanninn, spyrjast fyrir um það, hvort sú venja gildi, að fræðslumálastjóri sé spurður um skipun formanna skólanefnda, hvort till. hans sé leitað um það efni. Og ef svo er — og það hlýtur að vera gert, samkv. fullyrðingum hv. frsm., — þá vil ég spyrja, hvort eftir þeim till. hafi verið farið. Ef hæstv. ráðh. er ekki studdur fyrri venjum um þetta, getur hann þó upplýst, hver háttur hefur verið hafður á þessu síðast, hvort skipun formanna skólanefnda hefur verið borin undir fræðslumálastjóra, og að hve miklu leyti eftir till. hans hefur þá verið farið. En undir þessu er algerlega kominn mikill hluti af réttmæti röksemdaleiðslu hv. frsm. menntmn. hér áðan. Þess vegna er erfitt að tala um hans röksemdafærslu í alvöru, nema fyrir liggi skýrslur frá hæstv. menntmrh. um þetta efni. En ég hef nokkra vissu fyrir því, að grundvöllurinn er ekki eins fastur undir röksemdafærslu hv. frsm. og æskilegt hefði verið. Annars skal ég ekki fara að rekja ræðu hans mikið. Hann talaði rækilega á móti öllum brtt. mínum og þóttist færa nokkur rök á móti þeim. Kom hann svo loks með brtt., sem hann sagði, að væru til samkomulags, en voru alveg út í hött í sambandi við mínar brtt. Aðalatriðið fyrir mér með brtt. var að bæta úr vanköntum á þessu frv., sem ég hafði tekið eftir. Ég vænti þess, að hv. menntmn. geri þetta vegna þess, að það er talað um í frv., að laun fræðslufulltrúa og yfirkennara skuli ákveðin með launalögum. Þetta er alls ekki samkv. launal., eins og þau eru nú, og þess vegna yrði að bera fram frv. um breyt. á launal., ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, á að samþ. eins og það er. En það var gagnvart þessu, sem brtt. hv. frsm. stefndi, en varðaði alls ekki efni það, sem ég ræddi um, sem fyrst og fremst varðar samband sveitarfélaganna og ríkisvaldsins í þessum efnum og á að tryggja, að sveitarfélög hafi nokkur umráð yfir þessum málum, vegna þeirra miklu útgjalda, sem þau verða að hafa af þeim. Fram hjá þessu gekk hv. frsm. algerlega. Segja mætti að vísu, að vegna þess að útgjöldin í þessum efnum eru minni utan kaupstaðanna fyrir sveitarfélögin, a. m. k. um suma liði laganna, þá gæti það e. t. v. staðizt, að sveitarstjórnir þar hefðu minni ráð, eins og hv. frsm. vildi nú koma fram með sínum brtt. En ekki að síður er það svo, að sveitarsjóðir, einnig í sveitarhéruðum, verða að standa undir verulegum hluta þessa kostnaðar. Og ég tel, þegar af þeirri ástæðu, að stjórnir þeirra sjóða eigi að hafa sams konar vald og í kaupstöðunum. Í þeim tilfellum, þar sem margar sveitir eru um einn skóla, er hægt að semja um þetta um leið og sveitarstjórnirnar koma sér saman um, að skólinn skuli vera fyrir fleiri en einn hrepp, svo að úr því þurfa ekki að verða nein vandræði. En ég vek athygli á því, að viðbúið er, að úti um sveitir landsins verði skipaðir formenn skólanefnda þvert ofan í vilja og óskir sveitarstjórnanna á hverjum stað, ef frv. verður í þessu atriði samþ. óbreytt. Og þar sem þessi háttur kann að verða upp tekinn þar, ekki síður en í kaupstöðunum, sýnist mér rétt og eðlilegt, að tryggja eigi sveitarstjórnum nokkurn frekari rétt í þessu en gert er samkv. þessu frv., eins og það er, svipaðan rétt og þær hafa áður haft, en nú er ætlunin að taka af þeim. Það má ekki rugla því saman við það, sem hér er stefnt að, þó að ekki hafi ágreiningur orðið út af þessu hingað til víðast um sveitir landsins, vegna þess að formenn skólanefndanna hafa verið að meira og minna leyti svipaðs sinnis og meiri hluti sveitarstjórnar. Og þess vegna hefur ekki ágreiningur orðið á milli þessara aðila. En nú er viðbúið, að þetta breytist og myndist allt önnur hlutföll í þessu. Og það er reyndar vitað, að þetta breytist, og þá er eðlilegra, að sveitarstjórnum sé tryggður í þessu efni hæfilegur réttur. Og það er varðandi það atriði, að sveitarstjórnir hafi vissa möguleika, aðallega til að fylgjast með í vissum efnum, sem brtt. mínar stefna að, þar sem frv. hins vegar miðar að því að einoka þetta að sem langsamlega mestu leyti í höndum fræðslumálastj. hér í Reykjavík og þá einnig í höndum ráðh., sem er misjafnlega kunnugur og misjafnlega fullur góðvildar, eins og við þekkjum, og ekki alltaf við að eiga jafnágætan og trausts verðan menntmrh. eins og við höfum nú.

Að öðru leyti kom fram mjög verulegur misskilningur í ummælum hv. frsm. menntmn. Hann talaði t. d. um það, að samkv. brtt. mínum ætti að fara að gera einhverja breyt. á stöðu yfirkennara frá því, sem verið hefur, þar sem þeir eru. Ég nefndi þá þann stað, þar sem yfirkennarar eru, Reykjavík. Mér er nú ekki kunnugt um, hvort yfirkennarar eru við barnaskóla utan Reykjavíkur eða ekki, eða með hverjum hætti þeir eru þá skipaðir. En í Reykjavík eru þeir. Og það er ætlunin með ákvæðum frv. að breyta réttarstöðu þeirra frá því, sem verið hefur. En mín ætlun og tilgangur er að halda stöðu þeirra óbreyttri. Sannleikurinn er sá, að yfirkennarastöður hafa verið stofnaðar hér í Reykjavík með samkomulagi fræðslumálastj. og bæjarstjórnar. Og bæjarstj. hefur beinlínis fengið dóm hæstaréttar fyrir því, að hún hefði úrslitavald um skipun yfirkennaranna, enda greiði hún laun þeirra. En það er nú ætlunin að breyta þessari dómhelguðu venju með ákvæðum frv., eins og það liggur nú fyrir, á þann veg, sem ég tel mjög ástæðulaust að gera og sízt vera til góðs. Og eins og ég færði rækilega rök að í ræðu minni hér á dögunum, þá er það þannig, að sveitarstjórnirnar hafa ákaflega mikilla hagsmuna að gæta varðandi rekstur skólanna, ekki sízt hinna stærri skóla, eins og eru hér í Reykjavík, þannig að það velta á hundruðum þúsunda kr. þeir fjárhagsmunir, sem sveitarsjóðir hafa af því, hvort skólarnir eru skaplega reknir eða ekki. Það er þess vegna fullkomin ástæða til þess að láta sveitarstjórnirnar hafa nokkra möguleika til þess að fylgjast með þessu. Og ég get ekki séð, að það sé hægt að finna mildara form fyrir þessu eftirliti og afskiptum sveitarstjórnanna en með því að veita þeim heimild til þess að skipa yfirkennara, sem skólastjóri hefur þá í hendi sér, að hve miklu leyti hann vill hafa samvinnu við. Þannig er það ljóst, að skipun yfirkennara þvert ofan í óskir skólastjóra verður gagnslaus. Og slíkt mundi engin sveitarstjórn gera, vegna þess að starf mannsins er að vinna með skólastjóranum. Hitt get ég fullyrt af eigin reynslu og fyrirrennara minna um áratugi í því starfi, sem ég gegni, að það hefur beinlínis orðið til þess að létta stórlega samvinnu skólanna við bæjaryfirvöldin, að þessir yfirkennarar hafa starfað. Og bærinn hefur þannig talið, að hann hefði aðgang að sérstökum trúnaðarmönnum innan skólanna. Í þessum efnum er reynt að hafa góða samvinnu, og sem betur fer hefur það oftast tekizt. Og miklu meiri líkur eru til þess, að slíkt takist, ef báðir aðilar, sem hlut eiga að máli, hafa nokkurn veginn jafnan rétt til afskipta um þetta, en ekki allt valdið snúið af öðrum aðilanum, eins og þó er gert ráð fyrir með ákvæðum þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Svipaður misskilningur kom fram hjá hv. frsm. n. viðvíkjandi 34. gr, frv. Hann sagði, að vegna þess að reynslan hefði sýnt, að það þyrfti að hafa sérstakan fræðslufulltrúa, væri sjálfsagt að setja lagafyrirmæli um það. Ég hef ekki á móti lagafyrirmælum um þetta. En reynslan hefur sýnt, að það getur verið hagkvæmt, að samstarf geti verið í þessu efni milli bæjarstjórnar og fræðslumálastjóra. En hér í þessu frv. er ætlunin að taka allt vald í sambandi við val þessa fulltrúa úr höndum bæjarstjórnar, en starf hans á þó að miklu leyti að vera kostað af bæjarsjóði. Samt á þessi maður, samkv. umsögn hv. frsm., að vera trúnaðarmaður bæjarstj., þó að hún eigi ekkert vald að hafa um val hans. Fræðslufulltrúi og skólanefndir eiga, eðli málsins samkvæmt, að vera trúnaðarmenn sveitarfélaganna, þó að þetta fari út um þúfur, þegar meiri hluti skólanefndar er andvígur meiri hl. í sveitarstjórn, eins og stundum hefur við borið, og allt of víða hefur þannig tekizt til. — Ég legg einmitt áherzlu á, að sami háttur verði hafður á starfi fræðslufulltrúa í framtíðinni og verið hefur og að kostnaðinum við starf hans sé skipt jafnt á milli ríkissjóðs og bæjarsjóðs, og að samþykki beggja, bæjarstjórnar og fræðslumálastjórnar, þurfi fyrir tilvist stöðunnar og skipun manns í hana hverju sinni. Og þar sem þetta á að vera trúnaðarmaður beggja og starf hans kemur alls ekki að gagni nema svo sé, þá er þetta einmitt meginatriði, til þess að staðan geti haft þýðingu. Ef á að skipa þessu máli eins og hér í frv. er ráð fyrir gert, þá er eins gott, að það sé einhver skrifstofumaður í skrifstofu fræðslumálastjóra, sem hefur þetta starf með höndum. Og ef þetta væri haft þannig, þá væri vissulega ástæðulaust að leggja sérstaka greiðsluskyldu á bæjarsjóð Reykjavíkur vegna þessa. — Ég hef þá sýnt fram á, að brtt. hv. frsm. og umr. hans um þetta fóru að langmestu leyti á snið við aðalefni málsins og þau höfuðatriði þess, sem ég hef hér vakið athygli á.

Varðandi ákvæði frv. um heilbrigðiseftirlitið, þá er sannleikurinn sá, að það eru engar líkur til þess, að heilbrigðiseftirlitið í barnaskólum úti um landið verði betra, þótt sérstakur skólayfirlæknir verði skipaður með búsetu í Reykjavík. Það er skylda landlæknisskrifstofunnar að sjá um, að heilbrigðiseftirlitið í þessum skólum sé nægilegt. Og þó að t. d. einhver héraðslæknir úti á landi hafi ekki fundið berkla í barni, sem þó hafa fundizt í berklavarnastöðinni í Reykjavík, þá mundi líklega lítið breytast í því tilliti, þó að þetta ákvæði frv. verði samþ. Samþykkt frv. út af fyrir sig mundi ekki skapa neinar heilsuverndarstöðvar úti á landi, þar sem fullkomin berklaskoðun gæti farið fram. Slíkt mundi ekki verða, þótt sett séu lagafyrirmæli um, að ný toppfígúra skuli taka við nokkrum hluta starfsemi landlæknisskrifstofunnar hér í Reykjavík. Ég er hissa á því, að hv. frsm. skyldi taka slíkt dæmi til þess að ætla að sanna, að slíkrar toppfígúru þyrfti með, dæmi, sem ekkert sannar. Það verður einhvers staðar að spyrna við fótum, þegar till. koma fram um að stofna embætti ofan á embætti, þó að engar líkur séu færðar fyrir nauðsyn þeirra.