01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

29. mál, fræðsla barna

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi svara fyrirspurnum hv. 6. þm. Reykv. Þær voru tvær. Í fyrsta lagi um efni 6. gr. frv., þar sem svo er ákveðið, að þeim börnum, sem um getur í c-, d- og e-liðum 5. gr., skuli séð fyrir vist í skóla eða stofnun, sem veitir þeim uppeldi og fræðslu við þeirra hæfi. Þessi börn eru börn, sem að dómi hlutaðeigandi kennara, skólastjóra og skólalæknis skortir hæfileika til þess að stunda nám í almennum barnaskóla, í öðru lagi börn, sem að dómi sömu aðila spilla góðri reglu í skólanum, og í þriðja lagi börn, sem að dómi skólalæknis hafa ekki heilsu eða önnur líkamleg skilyrði til að stunda venjulegt barnaskólanám.

Það er vitaskuld ætlazt til þess, að fyrir þessu námi sé séð nákvæmlega á sama hátt og öðru skólahaldi í barnaskólum yfirleitt og að kostnaður við slíkt skólahald skiptist þá eftir sömu hlutföllum og gildir um aðra barnaskóla.

Þá er það önnur fyrirspurnin, sem hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín, um það, hvaða venja gilti um skipun formanna skólanefnda, hvort það væri venjulegt, að fræðslumálastjóri gerði till. um skipun þeirra. Ég hygg, að það hafi verið venja, að fræðslumálastjóri hafi gert till. eða a. m. k. haft samráð við ráðh. um skipun formanna skólanefndanna. Og þá spurði hv. 6. þm. Reykv., hvort eftir þeim till. hafi verið farið. — Það mun hafa verið upp og niður, en ég hef ekki skýrslur um þetta efni viðkomandi þessu í hvert sinn undanfarið. En ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að það hafi verið upp og niður. Ég hygg, að þetta hafi verið misjafnt, eftir því, hvaða maður hefur með völdin farið sem ráðh. Ég hafði samráð við fræðslumálastjóra um skipun í þessar stöður. Ég fór ekki alltaf eftir till. hans. En hann fylgdist með þessari skipun. Og við ræddum sameiginlega um þessar stöður allar, sem búið er að skipa. Hins vegar er eftir að skipa í margar þessar stöður, og það verður gert í vor, þegar fram fara kosningar í sveitum. - Þetta voru þær fyrirspurnir, sem hv. 6. þm. Reykv. bar fram.

Um brtt. hv. 6. þm. Reykv. vil ég segja það, að ég tel þær allar yfirleitt til hins verra, miða til þess að spilla frv. Það má að vísu segja, að sumar þeirra skipti ekki miklu máli, að þær breyti ekki kjarna málsins. En yfirleitt tel ég þær vera til hins verra. Það er hér um að ræða tvö eða kannske þrjú aðalatriði í þessum brtt. hv. þm. Í fyrsta lagi umráðin yfir skólahúsnæðinu, að þau skuli vera í höndum bæjarstjórna og sveitarstjórna. Í öðru lagi, að sveitarstjórnir skuli annast ráðningu starfsfólks annars en kennara. Og í þriðja lagi, að það skuli vera sveitarstjórnir, sem skipi yfirkennara. Þetta held ég, að séu aðalatriðin í þessum brtt. hv. 6. þm. Reykv. — Hvað viðvíkur brtt. um, að umráðin yfir skólahúsnæði og vald til þess að ráða starfsfólk, annað en kennara, skuli vera í höndum sveitarstjórna, þá er því til að svara, að hér fer hv. þm. fram á breyt. frá því, sem nú hefur verið. Eins og frv. er, þá er engin breyt. í þessum efnum á valdsviði sveitarstjórnanna annars vegar og skólanefnda og skólastjóra hins vegar, því að í þeim erindisbréfum, sem nú gilda fyrir skólanefndir og skólastjórn, er skýrt ákveðið, að þetta skuli vera á þann veg, sem til er tekið í frv. (BBen: Þau ákvæði eru ekki í samræmi við lög.) Ég hygg, að þessi ákvæði standist. (BBen: Nei, nei.) Ja, þá kemur nýtt atriði til, ef hv. þm. sem lögfræðingur heldur því fram, að erindisbréf þessi, sem gefin hafa verið út, standist ekki lög. En það er ég ekki kominn til með að viðurkenna með honum. Og þá er hér tvímælalaust um breyt. að ræða frá því, sem nú er, í brtt. hv. 6. þm. Reykv., á valdsviði þessara aðila. Í erindisbréfunum er skýrt fram tekið, að skólanefndir hafi umráð yfir skólahúsum og kennslutækjum skólanna. Og í erindisbréfum til skólastjóranna er ákveðið, að dyraverði og starfsfólk skólanna, annað en kennara, ráði skólanefnd að fengnum till. skólastjóra. Valdið er því hér ekki í höndum sveitarstjórnanna. Till. er því um breyt. á þessu valdsviði í brtt. hv. 6. þm. Reykv. Og ég held, að allir þeir, sem við skólamál hafa fengizt, bæði fræðslumálastjóri og aðrir, sem unnið hafa í fræðslumálaskrifstofunni, skólastjórar og kennarar, séu á einu máli um það, að reynslan hafi sýnt, að fyrir skólamálum landsins sé heppilegar séð með því að hafa völdin til þessara hluta í höndum skólanefnda og skólastjóra. — Ég skal ekki fara nánar inn á þessi atriði, en vísa aðeins til röksemda um þetta, sem hv. frsm. hefur borið fram í framsöguræðu sinni.

Þá er það um yfirkennarana. Þar gegnir nokkuð öðru máli. Hér er í raun og veru um nýmæli að ræða í lögum, þó að þetta hafi komið til framkvæmda hér í Reykjavík. En það er um nokkuð mismunandi skilning að ræða á verksviði yfirkennaranna hjá hv. 6. þm. Reykv. annars vegar og hv. frsm. menntmn. og yfirleitt þeim, sem staðið hafa að samningu þessa frv., hins vegar. Mér skildist, að hv. 6. þm. Reykv. liti svo á, að yfirkennarar ættu að vera eins konar fulltrúar bæjarstjórnar og þá m. a. og ekki sízt — og það var aðallega það, sem hann ræddi um, — til þess að hafa eftirlit með fjármálum viðkomandi skóla. Þetta er áreiðanlega ekki skilningur þeirra, sem að þessu frv. standa, um hlutverk yfirkennara, heldur hitt, að hann skuli vera aðstoðarmaður skólastjóra við skólahaldið. Og þá virðist mér það liggja í hlutarins eðli, að maður hljóti að líta þannig á, að það sé yfirleitt nokkuð harkalegt gagnvart skólastjórunum að ætla að fara að neyða upp á þá aðstoðarmenn, sem skipaðir eru af sveitarstjórn og hann hefur engan tillögurétt um. Hygg ég, að það mundi sýna sig í framkvæmd, að það fyrirkomulag yrði ekki til þrifnaðar fyrir skólana.