01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

29. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. frsm. fyrir að hafa rætt þessar aths. mínar, en mér skilst, að nefndin hafi ekki tekið þær neitt til athugunar. Hv. frsm. sagði, að n. hefði ekki tekið neina afstöðu til þessara mála. Vildi ég frétta um það, hvort hv. þm. hefur frestað að taka afstöðu til þessara atriða, en flýtt sér svo að koma þessari umr. áfram, að hann hafi ekki gefið sér tíma til að ræða við hv. n. í heild um það, hvort hún vildi ekki fallast á einhverja af þessum ábendingum og till. mínum. En ef svo er, vildi ég mælast til þess, að hv. frsm. tæki málið upp við n. og fengi n. til þess að taka einhverja afstöðu til ábendinga minna, svo að þingið vissi hvaða skoðanir n. hefði á þeim atriðum. En það kom fram hjá hv. frsm., að n. hefði ekki tekið afstöðu til þessara atriða.

Viðvíkjandi 2. gr., um skólaskylduna, þá er það rétt, að hér er um þýðingarmikið atriði að ræða. Og verði þessu aldurstakmarki breytt í öðru hvoru frv., þessu, sem hér liggur fyrir, eða hinu frv., sem er 28. mál, þá verður að breyta því í báðum. Mun ég taka þessa brtt. til baka viðkomandi þessu frv. En þessi till. er að sjálfsögðu samræming á því, ef þessi breyt. yrði samþ. viðkomandi hinu frv.

Viðkomandi 14. gr. frv. mun ég bera fram brtt., ef n. getur ekki fallizt á það. Því að það er allt annað atriði, þó að það sé í l. um heimavistarskóla, að skólastjóra skuli séð fyrir íbúð, eða hvort það er sett í l. þannig, að það gildi um alla aðra barnaskóla. Ég sé ekki, að það sé rétt að setja það í lög, að sveitarsjóðir og ríkissjóður séu skyldugir til að byggja yfir alla barnaskólastjóra á landinu, þó að það sé nauðsynlegt, að það opinbera byggi yfir skólastjóra heimavistarbarnaskóla. Ég vonast til þess, að hv. menntmn. geti fallizt á að breyta þessu og ég þurfi ekki að bera fram brtt. um þetta.

Viðkomandi 17. gr. vil ég benda hv. frsm. á það, að í frv. um gagnfræðaskóla er einmitt farið inn á þá braut, sem ég talaði um að fara inn á hér, að mönnum er heimilt að vera kennarar þar, þó að þeir hafi ekki kennarapróf, heldur sambærilega menntun. Þykir mér einkennilegt að binda þetta við þá skóla, en vilja ekki taka það upp viðkomandi þessu frv.

Ég hef lagt til, að 18. gr. yrði felld burt úr frv., en ákvæði um efni hennar sett sem reglugerðarákvæði, því að vitanlega getur einhverjum dottið í hug seinna að stytta vinnutíma kennara enn úr þessu. Það er á döfinni, að kennarar fái 10. hvert ár frítt á fullum launum. Þessir menn hugsa, að því er virðist, mest um að tryggja sín laun og lífsþægindi, hvað sem líður því, að þjóðin njóti starfskrafta þeirra.

Um kostnað af fræðsluráði á hverjum stað finnst mér rétt að setja um það ákvæði í frv., hver skuli greiða hann; úr því að það er upplýst, að það eru sýslusjóðir og bæjarsjóðir, sem eiga að greiða þennan kostnað. Það er betra að hafa skýr ákvæði um þetta í l. en að deila um það, hvaða aðilar eigi að borga þetta. Hins vegar þætti mér ekki óeðlilegt, að ríkissjóður greiddi þennan kostnað. En ef það er alveg ákveðið, að sýslusjóðir og bæjarsjóðir eigi að greiða þennan kostnað, finnst mér sjálfsagt að taka það fram í l.

Viðkomandi efni 30. gr. dró hv. frsm. í efa, að ég hefði sagt satt um það, að troðið hefði verið kennurum inn á skólanefndir gegn vilja þeirra. Nú þykir mér vænt um, að hæstv. menntmrh. er staddur hér. Til mín hafa borizt ummæli um það frá unglingaskóla á Akranesi, að einmitt undir stjórn þessa hæstv. menntmrh. hafi á síðasta ári verið mjög deilt um það, að skólanefnd á Akranesi vildi ekki taka við skólastjóra, sem þar er settur, en var þó til samkomulags tekið við honum til reynslu fyrir eitt ár. Nú hefur viðkomandi skólanefnd óskað eftir, að þessum manni yrði vísað burt frá skólanum. Nú væri ákaflega gott, að hæstv. menntmrh. vildi lýsa yfir, að þess mætti vænta, að hann færi eftir eindreginni ósk skólanefndarinnar þarna á Akranesi um þetta mál. En komi ekki slík yfirlýsing fram frá hæstv. menntmrh., vildi ég mega biðja hv. frsm. menntmn. að éta ofan í sig allar fullyrðingar sínar um þetta atriði. Hins vegar vil ég benda hv. frsm. á, að þetta hefur hvað eftir annað valdið deilum, ekki aðeins hjá núv. hæstv. menntmrh., heldur einnig áður. Ég skal í því sambandi benda á, að fyrir fleiri þingum hafa legið kröfur frá einum kennara um 10 þús. kr. skaðabætur, vegna þess að hann var flæmdur burt frá skóla af þessum ástæðum. Við meðferð fjárl. síðast lagði fjvn. til, að þetta yrði greitt honum og greiðslan tekin upp í fjárl., — bara fyrir það, að skólanefnd fékk því ekki ráðið, að hann yrði ekki flæmdur burt frá starfi sínu, — en viðkomandi ríkisstjórn lét flæma hann burt frá því. Nákvæmlega það sama kemur fyrir annan barnaskólastjóra; sem búinn er að vera 18 ár við skóla. Hann krefst einnig skaðabóta. Og ég hygg, að ríkissjóður verði að greiða honum líka skaðabætur. — Þetta hygg ég, að nægi til þess að sýna, að það er ekki heppilegt, að ráðh. eða fræðslumálastjóri hafi fullt vald til þess að skipa þessum málum gegn einróma vilja skólanefndanna.

Ég vil svo mjög taka undir það með hv. 6. þm. Reykv., að það er vitanlega engin ástæða til þess að stofna þetta nýja skólalæknisembætti, sem hér er gert ráð fyrir í frv. Ef taka ætti til greina að einhverju rök hv. frsm. í þessu efni, þá ætti helzt, skilst mér, að flytja allan barnahópinn. sem er á skólaskyldualdri, til Reykjavíkur, til þess að rannsaka þau þar, áður en þau ganga á skóla annars staðar. Og þá þarf engan sérstakan skólalækni til þess að skoða þau hér af berklayfirlækni. — Ég legg því til, að brtt. á þskj. 648, frá hv. 6. þm. Reykv., um þetta efni eins og önnur atriði frv. verði samþ.