01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

29. mál, fræðsla barna

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Það er fyrst viðvíkjandi hv. þm. Barð. Hann fullyrti, að skólan. á Akranesi hafi óskað eindregið eftir því, að núv. skólastjóri við unglingaskólann, gagnfræðaskólann, verði „dreginn burtu“; látinn fara. Mér er ekki kunnugt um það. Mér er ekki kunnugt um, að nein tilmæli hafi komið frá skólan. um, að núv. skólastjóri verði látinn fara. Það getur vel verið, að hv. þm. hafi fengið slík tilmæli, en það er ekki von, að þau séu tekin til greina, meðan þau koma ekki til ráðuneytisins. (GJ: Er hæstv. ráðh. ekki kunnugt um samkomulagið, sem gert var í fyrra?) Það var fullt samkomulag milli skólan. og ráðuneytisins um það, sem gert var í fyrra.

Þá spurði hv. 6. þm. Reykv. að því, hvort það hefði verið samkv. till. fræðslumálastjóra, að Ingimar Jónsson, Lárus Sigurbjörnsson og Sigurbjörn Einarsson hafi verið flæmdir burt sem formenn skólanefnda. Mér þykir þetta skrýtið orðalag, að tala um, að þessir menn séu flæmdir burtu sem formenn skólanefnda. Það er ekki nýtt, að það séu skipaðir nýir menn að loknu kjörtímabili, það hefur viðgengizt undanfarið, m. a. varð mikil breyt. á síðasta kjörtímabili. En það hefur aldrei verið talað um það á þann hátt, að menn væru flæmdir burtu. Ég tel mér ekki heldur skylt að fara að tíunda, það fyrir hv. þm., hvort þessi eða þessi maður hafi verið skipaður samkv. till. mínum eða fræðslumálastjóra, mér dettur það ekki í hug og ber engin skylda til þess, enda man ég ekki í öllum tilfellum, hvað eru mínar till. og hvað till. fræðslumálastjóra. En hvað skipun þessara manna snertir ætti hv. þm. að vera nægilegt að vita það, að ég tek á mig alla ábyrgð á henni. Hvað Ingimar Jónssyni viðvíkur, þá held ég, að hann hafi ekki óskað sérstaklega eftir því að gegna þessu starfi áfram, um hina veit ég ekki. En við höfum þarna bara ólíkar skoðanir á ákveðnum mönnum, ég og hv. þm. Ef hv. þm. hefði haft aðstöðu til að skipa þessa menn, hefði hann vafalaust skipað aðra en ég hef gert, en það mál tel ég ekki ástæðu til að ræða frekar við hann, tel það óviðeigandi. — Þá spurði hv. þm. um það, hvort ekki mundi vera ástæða til þess, að barnakennarar fengju ákveðin frí á svipaðan hátt og kennarar við æðri skóla, sem ætlazt er til, að fái frí frá störfum tíunda hvert ár. Frv. kom þannig, eins og hv. þm. veit, frá mþn. í skólamálum. Ég býst við, að við séum sammála um þau rök, sem til þess liggja, að kennarar í æðri skólum fái einstaka sinnum frí frá störfum. Það er mikil nauðsyn, að þessir kennarar geti farið utan og kynnt sér nýjungar í grein sinni. Venjulega eru það ákveðnar greinar, sem þessir kennarar hafa numið, sem þeir kenna og eru sérfræðingar í. Í sumum þessum greinum verða tíðar og örar breyt. og ör þróun, sem nauðsynlegt er að gefa þessum kennurum tækifæri til að fylgjast með. Ég held, að það sé þess vegna mjög í þágu skólamálanna, að þeim sé gefinn kostur á því að fara utan á nokkurra ára fresti til þess að rifja upp sérgreinar sínar og kynna sér þær nýjungar, sem orðið hafa í þeim frá því þeir hættu námi. Það má að vísu segja að nokkru leyti hið sama um barnakennara, þó að vísu sé þar ekki um alveg sambærilega hluti að ræða, vegna þess að barnakennarar stunda — a. m. k. eins og nú standa sakir — ekki á sama hátt sérgreinar og kennarar við æðri skóla. En hins vegar er ég hv. þm. alveg sammála um það, að það væri mjög æskilegt, að kennarar við barnaskóla gætu á einhverju árabili fengið frí frá störfum. Ég mundi fagna því, að till. kæmi fram um það, að þeir fengju einhver sambærileg hlunnindi. En ég geri ráð fyrir, að m. a. sé sú orsök fyrir því, að slík hlunnindi hafa ekki verið tekin upp í frv., að því fylgi kostnaður. Við höfum heyrt hljóðið í þm. um kostnaðinn við þetta nýja fræðslukerfi, m. a. í ræðu hv. þm. Barð., þannig að mér þykir ekki ótrúlegt, að n. hafi haft í huga við samningu frv., að ef til vill væri ekki álitlegt að bjóða Alþ. upp á þann kostnaðarauka, sem það mundi hafa í för með sér, og meira að því er snertir barnakennara en aðra kennara, vegna þess hvað fjöldi þeirra er meiri. Mér væri þó ljúft, ef hv. þm. vildi taka höndum saman við mig og aðra áhugamenn í þessum málum um það, að barnakennarar gætu notið slíkra hlunninda. Þá heldur hv. þm. því fram, að erindisbréf skólan. og skólastjóra, að því er snertir umráð yfir skólunum og rétt til að ráða starfsfólk, eigi ekki stoð í lögum. En hv. þm. færði engin rök fyrir þessu, og mér dettur ekki í hug að taka þessi ummæli hans gild sem nokkurn hæstarétt í þessu efni, og meðan ekki er fenginn annar úrskurður í þessu máli, hef ég það fyrir satt, að samkv. núgildandi ákvæðum sé þetta vald í höndum skólan. og skólastjóra, hvað sem líður framkvæmdum hér í Reykjavík.