02.04.1946
Efri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

29. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Ég mun að mestu leiða hjá mér að ræða þetta mál, þangað til við næstu umr. Þó er eitt atriði, sem ég vil drepa á nú þegar. Því var haldið fram hér í gær af hæstv. ráðh. og nú í dag af hv. frsm., að ég færi með rangt mál, þegar ég sagði, að kennslumálaráðh. hefði gengið á vald skólanefnda: Ég vil nú svara þessu með því að lesa hér upp tvö bréf, sem mér hafa borizt og eru útdráttur úr gerðabók gagnfræðaskólans á Akranesi og hljóða svo: „Mánud. 9. júlí 1945 hélt skólanefnd Gagnfræðaskóla Akraness fund á skrifstofu bæjarstjóra .... Verkefni fundarins var að taka ákvörðun um meðmæli með skólastjóra við gagnfræðaskólann, er auglýst hefur verið af fræðslumálastjóra laus til umsóknar. . . . .

Samþykkt var svo hljóðandi ályktun: Að vandlega athuguðu máli mælir skólanefndin einróma með því, að Magnúsi Jónssyni, settum skólastjóra, verði veitt skólastjórastaðan við Gagnfræðaskóla Akraness. Meðmæli þessi byggjast á þeim persónulegu kynnum, sem skólanefnd hefur haft af Magnúsi og starfi hans frá því hann kom að skólanum, og sérstaklega á þeirri reynslu, sem hún hefur haft af honum sem skólastjóra s. l. vetur. Bendir nefndin sér í lagi á umsögn séra Sigurjóns Guðjónssonar um hann, en umsögn þessa telur nefndin að öllu leyti mjög réttmæta.“

Undir þetta skrifa Arnljótur Guðmundsson, Guðmundur Björnsson, Hálfdán Sveinsson, Jón Sigmundsson og Egill Sigurðsson. — Áframhaldið af þessu hljóðar svo þannig: „Þriðjudaginn 31. júlí 1945 hélt skólanefnd Gagnfræðaskóla Akraness fund á skrifstofu bæjarstjóra. Form. skólanefndar, Arnljótur Guðmundsson. las upp bréf frá menntamálaráðuneytinu, þar sem tilkynnt er, að ráðuneytið hafi sett Helga Þorláksson skólastjóra frá 1. sept. þ. á. að telja. Samþykkt var í því tilefni svo hljóðandi ályktun: Skólanefndin mótmælir mjög eindregið því gerræði, sem fræðslumálastjórnin hefur sýnt við setningu í skólastjórastöðu gagnfræðaskólans. Þess munu ekki dæmi á Norðurlöndum, að veitingarvaldið hafi að engu einróma vilja og álit skólanefnda um veitingu eða setningu í slíka stöðu, og getur skólanefndin ekki sætt sig við þau vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð. Með skírskotun til framanritaðs, ákveður skólanefndin að biðjast lausnar og fer þess á leit við bæjarstjórn, að hún kjósi nýja skólanefnd.“

Undirritaðir eru: Arnljótur Guðmundsson, Guðmundur Björnsson, Hálfdán Sveinsson, Jón Sigmundsson, Egill Sigurðsson.

Ég mun láta þetta nægja til að sanna, að ég hafi farið með rétt mál, en hæstv. ráðh. með ósatt. Að öðru leyti mun ég geyma að ræða þetta mál, þangað til við næstu umr.