08.04.1946
Efri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

29. mál, fræðsla barna

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég flyt hér eina brtt. á þskj. 694 um að bæta nýrri gr. inn í frv., þess efnis að heimila fræðslumálastj. að veita barnakennurum, er starfað hafa í 10 ár við kennslu, frí frá störfum í eitt ár á fullum launum til frekara náms, og eru nánari skilyrði greind í brtt. Þannig eiga kennarar að gera nákvæma grein fyrir, hvernig þeir hyggjast að verja árinu, og svo að gefa skýrslu eftir á um notkun tímans. Ef sú skýrsla þykir ófullnægjandi, getur það varðað þá launamissi í eitt ár.

Það stendur til að veita kennurum við æðri skóla lausn frá störfum 10. hvert ár, og á þetta að vera skýlaus réttur, sem þeir eiga að fá. Hæstv. kennslumrh. rökstuddi það um daginn, hvers vegna ætti að gera þetta, með því að segja, að alltaf væru breytingarnar í ýmsum kennslugreinum svo miklar, að kennurum væri nauðsyn á að fara til útlanda til að kynna sér þær. Ég er honum alveg sammála um þetta. En ég álít, að hins vegar sé barnakennurum eins mikil nauðsyn á þessu. Þótt þeir kenni ekki sérgreinir og þurfi því eigi svo mjög vísindanáms með, þá er uppeldisstarfið þeim vandasamt, og miklar breytingar gerast í uppeldisfræði, svo og er ævinlega um einhverjar nýjungar að ræða á þeim sviðum, sem barnakennurum er eigi síður nauðsynlegt að kynna sér en kennurum við æðri skóla ýmislegt nýtt á sínum sviðum. Þessi þörf verður æ meiri, þar eð störf barnakennaranna verða vandasamari með degi hverjum, því að heimilin verða æ ófærari til að annast uppeldi barnanna. Því hefur það starf færzt meir og meir yfir á herðar skólanna, og hvílir þá mikið á kennurunum.

Þótt ég segi þetta, þá hef ég ekki talið rétt að gera till. um, að barnakennarar eigi kröfu á fríinu 10. hvert ár, þar eð stéttin er fjölmenn. Yrði e. t. v. óbærilegur kostnaður fyrir ríkissjóð, ef horfið væri að því ráði. Ég sé mér því eigi fært að fara fram á meira en að fræðslumálastj. verði veitt heimild til að veita kennurunum þessi fríðindi. Nokkrir efnilegir kennarar fengju þau aðeins, og hófs yrði gætt. Mér finnst, að ekki megi minna vera, sbr. hina æðri skóla, en barnakennarar fái þennan rétt, sem till. fjallar um. Verð ég að segja, að ég tel till. minni mjög í hóf stillt. — Sagt var hér á dögunum í þessari hv. d., að kennarar vildu hafa full laun fyrir að gera ekki neitt. Þetta er auðvitað ekki rétt. Ætlunin er, a. m. k. með minni till. o. fl., að kennarar vinni og vinni erfiða vinnu, þótt þeir fáist eigi beinlínis við kennslustörf. Þessi vinna er í því fólgin að fullkomna sig í ýmsu varðandi uppeldi æskulýðsins. Er það fyrst og fremst gert fyrir þjóðina, en ekki kennarana sjálfa, að þeir geri sig færari um að ala upp æskulýðinn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta. Eins og ég sagði, hef ég reynt að stilla brtt. minni í hóf með því að hafa heimildina. Væri ekki sanngjarnt að hafa á móti þessari till., en þó samþykkja frí til annarra kennara.