08.04.1946
Efri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

29. mál, fræðsla barna

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 690. Ég vil vekja athygli á því strax. að það er misprentun í þessum brtt. Fyrri brtt. er við 24. gr., en ekki 25. gr. frv., og síðari brtt. er við 25. gr., en ekki 26. gr. frv., sem er auðsætt, þegar brtt. eru bornar saman við frv. — Þessar brtt., sem ég ber hér fram, eru ákaflega óbrotnar. Það er í brtt. mínum gert ráð fyrir því, að vikið verði frá þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í 24. gr. frv. um skipun fræðsluráðs í fræðsluhéruðum. Og sú eina breyt., sem lagt er hér til, að gerð verði frá því, sem nú er, er sú, að fræðsluráðið sé allt kosið af sömu aðilum og nú er gert ráð fyrir í frv., að kjósi alla þeirra nema einn, þ. e. formann, en í frv. er gert ráð fyrir, að borgarstjóri, bæjarstjóri eða oddviti sýslunefndar sé sjálfkjörinn formaður ráðsins. En í minni brtt. er gert ráð fyrir, að fræðslumálastjórnin skipi einn mann úr hópi þessara manna, sem kosnir séu allir samkv. brtt. minni. Þessa breyt. tel ég verulega til bóta. Fyrst og fremst er breyt. sú, sem ég fer hér fram á, mjög í lýðræðisátt, að kjósa allt fræðsluráðið, og þó tel ég það sérstaklega til bóta í þessari brtt. minni frá því, sem nú er í frv., að með því að kjósa mennina alla, þar með form., en hafa hann ekki sjálfkjörinn eins og í frv. er gert ráð fyrir í 24. gr., þá eru a. m. k. miklar líkur til þess, að ég ekki segi vissa fyrir því, að með því fáist í formannssætið menn, sem áhuga hafa á skólamálum og kunnáttu í þeim. En með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í 24. gr. frv., er ekki nein vissa fyrir því, að svo verði, því að það er vitanlega ekki sjálfgefið, að borgarstjóri eða bæjarstjóri né oddviti sýslunefndar, sýslumaður, sé sérfróður um skólamál eða hafi á þeim sérstakan áhuga, þó að svo kunni oft að vera. Þess vegna hygg ég, að brtt. mín sé mjög til bóta um þetta. Og ég vænti þess, að hún sé svo sjálfsögð og svo samkvæm skoðunum hv. þm. þessarar hv. d., að hún verði samþ.

Seinni brtt. fer eiginlega í sömu átt. Það er gert ráð fyrir því í frv., eins og það er nú, að aðeins tveir menn af þremur í skólanefnd skuli kosnir af sveitarstjórn, eða fjórir þar, sem skólanefndirnar eru skipaðar fimm mönnum, en formaður sé síðan skipaður af fræðslumálastjórninni. Ég legg til, að þessir menn séu allir, þrír eða fimm, eftir því hve margir þeir eiga að vera í skólanefnd alls á hverjum stað, kosnir af viðkomandi aðilum, sem í frv. er til tekið, að eigi að kjósa tvo eða fjóra þeirra, en að fræðslumálastjórn skipi svo einn úr hópi þessara þriggja eða fimm manna, þegar búið er að kjósa þá, sem formann n. Það gilda um þetta þau sömu rök eins og fyrri brtt. mína að því leyti, að þetta er að mínu áliti eðlilegra og lýðræðislegra fyrirkomulag en það, sem gert er ráð fyrir samkv. ákvæðum 25. gr. frv., eins og það nú er. Það er langeðlilegast, að hlutaðeigandi stjórnarvöld heima fyrir ráði í þessum atriðum að verulegu leyti og fræðslumálastjórnin hafi það vald, sem gert er ráð fyrir í brtt. mínum, að velja úr þessum 3 eða 5 mönnum þann mann sem formann, sem hún treystir bezt til að hafa forsæti í n. — Ég geri ráð fyrir, að einnig þessi síðari brtt. mín sé þannig, að hv. þdm. geti á hana fallizt, þó að rökin fyrir henni séu kannske ekki alveg eins sjálfsögð og sterk og fyrir fyrri brtt. minni. Þær eiga þó báðar sameiginlegt þetta, sem ég benti á, að þetta fyrirkomulag er að mínu áliti eðlilegra, vegna þess að það er auðsætt, að stjórnarvöldin heima í héruðum og í skólahverfunum eiga fyrst og fremst að ráða þessum málum að þessu leyti. Og valdskipting milli fræðslumálastj. og þessara stjórnarvalda heima fyrir finnst mér eðlileg með þessum hætti.

— Sé ég ekki ástæðu til að fara um þessar brtt. fleiri orðum.