17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Það varð ekki samkomulag í fjhn. um afgreiðslu þessa frv., og hef ég þess vegna skilað hér sérstöku nál. og brtt. við frv. á þskj. 346, en aðrir hv. nm. hafa skilað meirihlutaáliti og leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Með þessu frv. hæstv. ríkisstj. er lagt til, að framlengdur verði sá tekjustofn ríkisins, sem nefndur er tekjuskattsviðauki og var á lagður á þessu ári, sem nú er að líða. Það er lagt til í frv., að hann verði framlengdur fyrir næsta ár, innheimtur einnig þá. En tekjuskattsviðauki er lagður á skattskyldar tekjur fyrirtækja til viðbótar tekjuskatti og stríðsgróðaskatti samkv. eldri lögum. Ég get á það fallizt, að ríkissjóði muni ekki veita af að innheimta þennan tekjuskattsviðauka einnig á þessu næsta ári. En í sambandi við framlengingu þessa skatts, ef um hana verður að ræða, þá tel ég það óhjákvæmilegt, að Alþ. ákveði, að veltuskattinn, sem á var lagður með 1. árið, sem nú er að líða út, verði leyft að draga frá tekjum gjaldenda áður en skattur verði á þær lagður næsta ár. Ég tel miklu meiri þörf á því að gera veltuskattinn þannig frádráttarbæran einmitt ef þessi tekjuskattsviðauki verður framlengdur. Það er út af fyrir sig ekki athugavert svo mjög, þó lagðir séu nokkuð háir skattar á tekjuafgang fyrirtækja, þegar ríkissjóð skortir fé. En hitt tel ég með öllu ófært, að taka upp þann háttinn að leggja þunga skatta á útgjöld manna. En það verður gert, ef ekki verður leyft að draga veltuskattinn frá áður en skattur er lagður á tekjur. Og ég vil benda á, að í sumum tilfellum geta það orðið geysiháar greiðslur samtals, sem lagðar verða á þann útgjaldalið hjá fyrirtækjum. Það er kunnugt, að samanlagður skattur, tekjuskattur, tekjuskattsviðauki og stríðsgróðaskattur, kemst upp í 90% af tekjum fyrirtækjanna. Og komið getur fyrir, að einstöku fyrirtæki verði að borga 90% af veltuskattinum í skatt aftur á næsta ári. Og ekki nóg með það, því að samkv. gildandi l. er ekki leyft að draga tekjuskatt og stríðsgróðaskatt frá tekjum næsta árs á eftir frekar en áður, og verður því að greiða á næstu árum þar á eftir áframhaldandi skatt af þessum veltuskatti, en vitanlega fer halli hans mjókkandi eftir því sem tímar líða fram.

Ég hef bent á, að þessi veltuskattur er í raun og veru tollur. Hann er ekki miðaður að neinu leyti við tekjur manna, heldur er hann lagður á eftir sömu leiðum og tollar, sem lagðir eru á vörur manna. Þessi skattur er lagður á umsetningu, en er að því leyti ósanngjarnari en aðrir tollar, að hann leggst jafnt á nauðsynjar og miður þarfan varning. Og ég tel, að þessi skattur eigi að vera frádráttarbær ekki síður en aðrir tollar. En Alþ. gengur þannig frá þessum málum, að mönnum verði skylt að greiða tekjuskatt, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt af veltuskattinum, þá er alveg eins hægt fyrir Alþ. að ákveða, að þessa skatta sé hægt að greiða af verðtolli, sem innheimtur verður á þessu ári. Á því er enginn eðlismunur. En ég á bágt með að trúa því, að það sé þetta, sem vakir fyrir hæstv. fjmrh. Mér dettur heldur í hug, að þetta mál hafi ekki verið athugað sem skyldi. Því að það er ljóst, að ef inn á þá braut er á annað borð farið að leggja tekjuskatt, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt á útgjöld manna, er ekki hægt að sjá, hvar á að stöðva sig á þeirri braut. Sumir benda á það, að ekki sé leyfilegt að draga greiddan tekjuskatt og stríðsgróðaskatt frá tekjum áður en skattur er lagður á þær. En um það er allt öðru máli að gegna en um það atriði að draga veltuskattinn frá tekjum áður en skattur er á þær lagður, því að í fyrrtalda tilfellinu eru skattarnir lagðir á tekjur manna, því að tekjuskatt með viðauka og stríðsgróðaskatt hafa skattgreiðendur ekki þurft að borga nema um hreinar tekjur hjá þeim hafi verið að ræða. En hér er farið inn á þá braut að heimta skatt af útgjöldum manna, alveg án tillits til þess, hvernig rekstrarafkoman er.

Ég hef nú hér sýnt fram á í nál. mínu með einu dæmi, að í sumum tilfellum getur þetta orðið þannig og verður áreiðanlega þannig, að fyrirtæki þurfa að borga miklu meiri skatt á næsta ári en sem nemur hreinum tekjum þeirra árið 1945, ef ekki verður leyft að draga veltiskattinn frá tekjunum áður en skattur er á þær lagður, og verður þá ekki um skatt að ræða, heldur eignarnám. Ég hef samkv. þessu lagt til, að það ákvæði verði sett í þetta frv., að veltuskattinn megi draga frá tekjum ársins 1945 áður en skattur verði á þær lagður á næsta ári, en þó því aðeins, að búið sé að greiða veltuskattinn áður en skattarnir eru á lagðir. Hv. 2. þm. Rang., frsm. meiri hl, fjhn., var í þessu sambandi að tala um hátekjumenn og að ekki væri ástæða til að hlífa þeim og að mér skildist þá væri ekki ástæða til þess að samþ. þessa brtt. mína. Það er vafalaust, að þetta snertir að nokkru þá, sem má kalla hátekjumenn. En þessi skattur hefur snert og snertir mikinn fjölda landsmanna, sem ég get ekki talið til hátekjumanna, hvað sem hv. 2. þm. Rang. gerir. Það getur vel verið, að bændur í hans kjördæmi séu allir hátekjumenn og þurfi þess vegna að ná veltuskatti af þeim. En þar, sem ég þekki til, eru bændur yfirleitt ekki hátekjumenn.

Ég sé að svo stöddu ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð og vænti þess, að hv. þdm. sé ljóst, hvað hér er á ferð, og vænti þess vegna, að þeir geti fallizt á brtt. mína á þskj. 346.