08.04.1946
Efri deild: 101. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

29. mál, fræðsla barna

Jónas Jónsson. Herra forseti. Ég hef borið fram hér fáeinar brtt. við frv. og vildi minnast lauslega á þær. Annars vil ég taka það fram fyrst, að hinar mörgu brtt. frá hinum ýmsu hv. þm., sem fram háfa komið hér við frv., stefna, að ég hygg, allar til betri vegar. Sýnir það raunverulega það, sem mátti búast við, að þetta frv. er ekki nógu vel undirbúið. Því að það mátti nærri geta, þegar hv. þdm., án þess að vera í n., geta komið fyrirvaralítið með gagngerðar brtt., sem miða til bóta á frv., þá er það af því, að þjóðin hefur fengið of lítið tækifæri til að sinna þessu máli áður en það er borið fram:

Og þó að ég sé ánægður með þessar brtt., þá finnst mér þær þrátt fyrir það sanna, að þetta frv. ætti ekki að fara út úr þinginu að þessu sinni, heldur vera stofn að nýju frv., þegar þjóðin hefur tíma til að átta sig á þessum málum.

Ég vil þá minnast á það, sem gert er ráð fyrir í frv. viðkomandi fræðsluskyldunni í sveitum, að það megi skella henni á um börn 8, 9 og 10 ára. Ég vil breyta þessu þannig, að fólkið skuli ráða sjálft, hvort það kemur börnum sínum fyrir til náms. Ef fólkið vill koma börnum sínum fyrir þannig, þá getur það það. En ef það vill kenna þeim sjálft heima, þá vil ég, að það geti haft þau heima og látið þau læra þar. Ég held, að nægilegt aðhald í þessu efni sé till. námsstjóra. Mínar brtt. miða að því að gera ekki skólagönguna allt of langa, af því að það lítur út fyrir, að það sé verið að lama þrótt hinnar ungu kynslóðar með of miklum innisetum og bóknámi.

Þá er brtt. við 9. gr. frv. En í þeirri gr. eru ákvæði, sem geta farið mjög á móti vilja þeirra, sem hlut eiga að málum. T. d. í Suður-Þingeyjarsýslu er yfirleitt í sveitum heimakennsla og farkennsla, og ekki nema á fáum stöðum, þar sem fólkið hugsar til þess að byggja heimavistarskóla, og enn síður að byggja þá með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, fyrir margar sveitir sama skólann. Ég tek til dæmis, að Bárðardalur og Mývatnssveit og Reykjadalur, allar þessar sveitir mundu gera verkfall, kennsluverkfall, ef ætti að taka börnin og senda þau til fjarlægra staða frá heimilinu, af því að þessar sveitir og margar aðrar hafa getað annað því. Þess vegna hef ég lagt til, að niðurlag greinarinnar orðist svo : „enda samþykki hlutaðeigandi fræðsluráð og skólanefndir skiptinguna.“ Þá er ekki hægt að bræða saman sveitir á þann hátt, sem ráðgert er í frv.

Þá er aftan við 13. gr. fellt inn nokkurt nýmæli, sem skýrir sig raunar sjálft. Börnin eru svo mikinn hluta ársins í þessum skólum, en samt er í stærri bæjum og kaupstöðum mikill sægur af börnum, sem verða að hírast heima allt sumarið, á götunni, því að foreldrarnir hafa ekki getað komið þeim í sveit. Og þó að komið yrði upp sumarheimilum, eins og komið hefur verið upp með, þá er það mjög óheppilegt, þó að koma megi börnunum fyrir í sveit, að þar er ekkert starf fyrir þau, engir bátar, engar skepnur, og því kem ég með nýmæli á þá leið, að ríkið greiði hálfan stofnkostnað sumarheimila fyrir börn í bæjum, á þann hátt, að tekið sé tillit til þessa stóra atriðis, að börnin hafi eitthvað til þess að una við, búpening, báta o. s. frv., og að reynt verði að koma þessu þannig fyrir, að það verði sem líkast því, sem barnið á að venjast að heiman, og börnin fái þannig tækifæri til að neyta starfsorku sinnar eftir því, sem þau hafa áhuga og þrótt til. Sumarheimili, sem rekin væru af bæ eða ríki gætu haft geysimikla þýðingu, ef þetta atriði kæmi til. Það þyrftu ekki endilega að vera stórbú, heldur væri það aðalatriði, að þarna væru allar tegundir íslenzkra húsdýra, og þarf ég ekki að segja hv. þm., hve nauðsynlegt það er fyrir börnin að vera með húsdýrum, því að það er oft þeirra hálfa líf.

Þá hef ég lagt til, að í viðbót við kennarapróf, þá sé guðfræðipróf látið gilda, og er ég einnig samþykkur till. hv. þm. Barð. um, að það sé nokkuð víðara, og álít, að þetta sé allt að stefna í rétta átt hjá .okkur. Mér þykir reynslutími skólastjóra og kennara helzt til stuttur og álít, að ekki fáist öruggur mælikvarði á hæfni þeirra á jafnskömmum tíma. Þess vegna hef ég lagt til, að þessi reynslutími sé 4 ár.

Þá kem ég að kennslustundunum, en þar er allt að komast í mestu óreiðu hjá okkur. Það er nú orðið þannig hjá okkur, að kennslustundirnar, sem að jafnaði hefur verið álitið að ættu að vera 50 mínútur og 10 mínútna hlé, eru farnar að styttast og komnar niður í 40 mínútur, og sumir tala um 30 mínútur. Ég held það sé rétt að láta slag standa með það, hvort menn vilja halda áfram með að stytta kennslustundirnar, kannske niður í sama sem ekki neitt, eða hvort menn vilja hafa þá reglu, sem lengi hefur verið í gildi og gefizt hefur vel, að hafa 50 mín. í kennslustund. Hér í bænum er þessi ruglingur óþægilegur fyrir tímakennara, sem ganga úr einum skóla í annan og reka sig á þessi mismunandi kerfi.

Við 30. gr. er gerð sú breyt., að ef meiri hluti skólanefndar og fræðsluráðs mælir með umsækjanda, veitir fræðslumálastjórn honum stöðuna. Svo hefur komið till. frá hv. þm. Str., sem gengur nokkuð lengra, og tel ég hana vera til bóta.

Við 36. gr. hef ég gert þá breyt., að urðið „átthagafræði“ falli burt, sem er alveg gagnslaust, og enn fremur, að á eftir orðinu „Íslandssögu“ í 2. mgr. komi mannkynssögu. Ég hef oft furðað mig stórkostlega á því, að ekki skuli vera kennd mannkynssaga í barnaskólum. Að hugsa sér það, að börnin skuli kúldast í barnaskólunum í mörg ár og læra mjög lítið í raun og veru. Aðalhættan í þessum skólum er sú, að krakkarnir þreytist á því, að alltaf er verið að japla á þessu saman. Og ég sé ekki, hvaða vit er í því, að börnin eigi ekki að geta lært mannkynssögu alveg eins og t. d. Íslandssögu. Og það er sannarlega ekki lítils um vert, þegar hver einasti maður á okkar landi fær í gegnum útvarp fréttir frá öllum löndum heims, þar sem stöðugt verður að byggja á sögulegri þekkingu. Ég held því, að það sé forheimskandi í meira lagi að gera ekki ráð fyrir, að börnin læri neitt nema sína eigin sögu. — Varðandi námsgreinarnar þótti mér réttara, í staðinn fyrir „eitt erlent mál,“ að setja „ensku“. Það hefur komið í ljós, hvað fólk hér á auðvelt með að læra ensku. Það er t. d. ánægjulegt að heyra, þegar maður kemur í búðir í Reykjavík, hve vel afgreiðslufólkið talar ensku, og sýnist þá ekki vera ástæða til að taka upp mál einhverrar lítillar þjóðar, sem aðeins gæti fleytt manni í því eina landi.

Þá vildi ég mæla með brtt. minni við 37. gr. Í henni felst vernd, sem ég álít, að veita þurfi börnum móti þeirri misbeitingu, sem viðgengst um allt land. Börn eru rifin upp í skammdeginu eldsnemma og beinlínis þrælkuð. Ég ætla að tilfæra hér eitt dæmi frá ágætri heimild. Góðvinur minn gisti á sveitabæ, þar var 10 ára drengur, sem fór hér í barnaskóla. Hann varð að vakna klukkan 7 á morgnana, paufast í fötin sín, fá sér einhverja hressingu og fara svo út í myrkrið áleiðis í skólann. Það er varla hægt að hugsa sér meiri heimsku og skeytingarleysi. Þess vegna hef ég lagt til, að börn innan 12 ára megi ekki senda í skóla í skammdeginu fyrr en ratljóst er orðið.

Þá er brtt. við 38. gr., og legg ég þar til, að skólar í kaupstöðum, sem reistir verða með styrk úr ríkissjóði samkv. l. þessum, skuli vera gerðir fyrir 300 börn í mesta lagi. Sjá allir, hvað það er mikil fjarstæða að taka þessa litlu vesalinga og hrúga þeim saman í of litlum vistarverum, því að börn eru viðkvæmar verur. Það er því ábyrgðarhluti að kakka þeim saman í svona stórum skólum, og getur haft hinar verstu afleiðingar fyrir heilsu barnanna. — Þá kem ég að annarri breyt., sem ég legg til, að gerð verði við þessa sömu gr., og vil fara um hana nokkrum orðum. Hér í Rvík höfum við innan skamms 4 stór kvikmyndahús og þjóðleikhús í viðbót, þ. e. 5 slíkar stofnanir, sem standa meira eða minna auðar allan daginn. Ég álít, að í þessum húsum í Reykjavík eigi að reyna að kenna marga hluti mörgum stórum hópum af börnum. Og sannleikurinn er sá, að sú kennsla hér í Rvík, sem mótar börnin, fer fram í kvikmyndahúsunum miklu frekar en í skólunum. Og ef menn athuga, hvað mikið börn í bænum vita um kvikmyndaleikara og allt, er lýtur að kvikmyndum, sem þau hafa lært af kvikmyndum eða lesið um í leikarablöðum, er auðséð, að einmitt væri heppilegt til þess að auka áhuga þeirra að láta kennslu að miklu leyti fara fram á kvikmyndasviðinu. Ég teldi það einmitt mjög heppilegt, að kennsla í ýmsum bóklegum greinum, svo sem landafræði, náttúrufræði og sögu, færi fram í kvikmyndahúsum, með skuggamyndum, kvikmyndum og leiksýningum, eftir því sem aðstaða leyfir. Og ég álít, að þessu megi vel við koma. Ég skal nefna eitt dæmi, sem er til skýringar þessu. Ég hef sjálfur reynt að semja kennslubók í Íslandssögu, sem þótti betri en bók sú; sem áður var notuð, og ég hélt, að hún væri mjög gagnleg. En samt sem áður finnst mér hún ekki hafa borið eins mikinn árangur og vera þyrfti. Ég tek t. d. atburð eins og siðaskiptin. Það er sama, hvernig einhver maður skrifar um þau og lýsir mönnum eins og t. d. Ögmundi biskupi og Jóni Arasyni. Það mundi aldrei verða eins eftirminnilegt fyrir börn eins og ef siðabótinni væri breytt í leikrit, sem börnin sæju sjálf. Hver sæmilegur kennari ætti að geta breytt sögu í leikrit, þannig að saga landsins og kannske vissir þættir úr mannkynssögu líka væru kenndir með slíkum hætti. Börnin mundu hafa ákaflega gaman að slíkum skýringum. Og að t. d. leikhús komi hér með 300 sætum, — hvort ekki er nýsköpun í því, ef kenna mætti slíka stóra hluti þar. — Þá hef ég lagt til í þessari sömu grein, að ekkert barn megi stunda nám í barnaskóla meira en 7 mánuði ár hvert. Því að ég sé ekki minnstu ástæðu til þess að halda börnum lengur við nám. Má á það minna, að aðalhættan fyrir börnin er einmitt fólgin í námsþreytu, og Íslendingar hafa löngum unað því illa að hanga í skólum fram á vor. Af sömu ástæðum hef ég lagt til þá breyt. við 39. gr., að skipta skuli námstímanum í heimavistar- og heimangönguskólum á þann veg, að ekkert barn sé lengur en 3½ mánuð í skóla. Ef foreldrar geta ekki kennt börnum sínum að lesa, er einmitt heppilegt að hafa skóla á vorin fyrir slík börn. En ég álít, að börn eigi aldrei að vera meira en 7 mánuði í skóla.

Þá hef ég að síðustu lagt til ákvæði til bráðabirgða og lagt á það áherzlu, að fengnir séu prestar til að taka að sér kennslu og kennslueftirlit barna í sveitum, þar sem því verður við komið. Ég vil benda á í þessu sambandi, að með þeim launum, sem nú er farið að borga prestum og kennurum, eru engar líkur til, að undir þessu verði staðið til lengdar; að hafa t. d. prest, sem sjaldan messar og lítið hefur að gera, en fólkið vill þó hafa, eða kennara, sem hefur kannske tiltölulega fá börn. Ég fer nú ekki ýtarlega út í það hér, heldur vil ég aðeins tryggja þennan möguleika, en sýnist, að þó að það verði ekki gert strax, þá muni að því koma, áður en langt um líður, að ráða verði fram úr þessu öðruvísi, og þá muni koma hér að þessu sama, að semja verði við prestana um að vera kennarar líka. Ég er því ekki fylgjandi, að það verði gert að beinni lagaskyldu, heldur verði samið við prestana.

Ég hef hér svo eina skrifl. brtt., sem ég ber fram við 36. gr., þar sem talið er upp, hvað börn í eldri deild skuli læra. Við 2. málsgr. gr. bætist : „Enn fremur skal kenna börnum rétt rím í sambandi við helztu íslenzka bragarhætti.“ Með þessu er ekki meiningin að gera öll börn að skáldum. En það lítur helzt út fyrir, að ljóðagáfan sé að þorna upp í landinu, og er það rakið til ofþreytu og leiðinda, sem börn fá á skólabókunum. Nú held ég, að það sé ekki verulegur vandi fyrir greindan kennara að kenna að ríma. Það er ekki neinn skáldskapur. Og ég vil taka til dæmis mann, sem nýlega er dáinn og var frægur fyrir tvennt: annað það, að hann var einhver mesti bókmenntafræðingur okkar, en svo var hann líka manna bezt að sér í skáldskap. Þessi maður var Guðmundur Finnbogason. En þessi maður, sem var miklum hæfileikum gæddur, var ekki skáld og reyndi ekki að yrkja nema að gamni sínu. Þegar hann var miðaldra, tók hann fyrir að læra að yrkja sléttubönd og gerði það svona eins og gengur og gerist, án þess auðvitað að nokkurn tíma yrði úr því neinn skáldskapur. Nú hugsa ég mér þetta þannig, að kennarar við þessa skóla reyni að kenna börnunum að þekkja í sundur aðalatriðin og svo að geta sett saman vísur, þó að það sé ekki neinn skáldskapur, þannig að rétts ríms og rétts forms sé gætt. Og þessu til stuðnings vil ég benda á, að í gamla daga var það gamall og góður siður að þreyta ljóðakeppni og kveðast á, þó að ekki séu dæmi til, að það hafi verið neinn skáldskapur. En það var talin mikil íþrótt og hjálpaði mönnum, sem urðu góð alþýðuskáld, að skólast, því að þarna fengu þeir ágæta æfingu í að fást við rím og ýmsar bragþrautir.