09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

29. mál, fræðsla barna

Frsm. meiri hl. Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja nokkur orð um þær brtt., sem fram hafa komið síðan málinu var frestað; menntmn. hefur haft þær til athugunar, en ekki tekið afstöðu til þeirra enn þá.

Hv. þm. Barð. lét þau orð falla hér í gær, að það væri hroki hjá menntmn. að verða ekki við ósk hans og breyta frv. að hans vilja. Hinum óviðurkvæmilegu ummælum hv. þm. um kennarastéttina tel ég ekki vert að svara, en ég hygg, að flestir hv. þdm. hafi litið svo á, að þar væri mælt af hroka.

Ég vil þá fyrst víkja að spursmálinu um íbúð skólastjóra. Reynslan hefur verið sú undanfarið, að iðulega hefur ekki tekizt að fá kennslukrafta vegna vöntunar á húsnæði, og ég hygg, að það mundi valda almennri óánægju og erfiðleikum, ef þetta verður fellt niður.

Brtt. varðandi próf kennara tel ég óþarfa, þar sem svo er ákveðið í fræðslulögum, að stúdentar þurfi ekki að taka próf nema í 2–3 greinum, sem kenndar eru í kennaraskóla, en ekki í menntaskóla, til þess að fá kennararéttindi.

Þá er till. um, að 17. gr. falli niður. Lét hv. þm. Barð. svo um mælt, að það, sem þar greinir, mætti ákveða með reglugerð, en óþarft væri að taka það fram í lögum. Hann og hv. þm. S.-Þ. létu í það skína, að með þessu væri verið að stytta kennslutímann. Þetta er ekki rétt. Hins vegar væri það á valdi ráðh. að stytta kennslutímann, ef þetta væri ákveðið með reglugerð. Því fer fjarri, að þessi breyt. mundi hafa í för með sér minni vinnu fyrir kennara, þótt þetta fyrirkomulag sé æskilegra fyrir börnin og notadrýgra upp á kennsluna.

Þá er brtt. þess efnis, að þóknun til fræðsluráðs skuli ákveðin af ráðherra. Ég vil benda á, að fræðsluráð er skipað af fræðslumálastjórn, og má líta á það sem fasta nefnd: Ef ráðh. skipaði hins vegar þessa nefnd, væri eðlilegt, að hann ákvæði laun hennar.

Þá er það að lokum brtt. um, að ekki sé heimilt að veita manni skólastjórastöðu eða kennarastöðu gegn einróma mótmælum viðkomandi skólanefndar. Í þessu virðist mér felast nokkuð mikið traust á óskeikulleik skólanefnda, mér þykir réttara, að námsstjóri og fræðslumálastjóri ráði nokkru hér um, þótt einatt muni farið eftir tillögum skólanefnda.

Þá er hér brtt. á þskj. 694 frá hv. 1. þm. Eyf., sem ber það með sér, að hann skilur nauðsyn þess, að kennarastéttin haldi menntun sinni við. Nú má á það benda, að kennarar hér munu hafa tiltölulega betri aðstöðu til að halda við menntun sinni en annars staðar gerist. Enn fremur kann vera, að þetta verði að svo stöddu of dýrt fyrir ríkið. En eins og ég gat um, lýsir þessi till. góðum skilningi þessa hv. þm. á þessu máli.

Þá eru hér nokkrar brtt. frá hv. þm. S.-Þ. Í fyrsta lagi að fræðsluráði skuli skylt að veita undanþágu frá skólaskyldu börnum undir tíu ára aldri, sé þess óskað. Þetta gæti haft þær afleiðingar, að þær skólanefndir, sem hugsa fyrst og fremst um hreppssjóðina, fengju þessu ráðið. — 2. brtt. er um, að samþykki skólanefndar þurfi að koma til við skiptingu í skólahverfi. Ég vil benda á, að með þessu fyrirkomulagi gæti hlutaðeigandi skólanefnd hindrað, að skipting færi fram á þann hátt, sem allir aðilar telja æskilegt. — 3. brtt. er við 13. gr., um sumardvöl barna. Hér er um atriði að ræða, sem ég tel, að ekki eigi heima í þessu frv.

Brtt. við 16. gr. hef ég svarað áður að nokkru, þar eð hún er shlj. brtt. frá þm. Barð., en þessi brtt. fjallar um að lengja einnig reynslutímann, áður en skipa má kennara og skólastjóra við heimavistarskóla. Ég hygg, að sá maður, sem búinn er að vera kennari í 2 ár og reynzt hæfur til starfsins, sanni hæfni sína ekkert betur á fjórum árum, auk þess sem góðir kennarar mundu ekki telja sér fært að bíða í 4 ár eftir slíkri stöðu. Brtt. við 29. gr. hef ég áður svarað, en varðandi a-, b- og c-liði, um að fella niður kennslu í átthagafræði hjá yngri börnum og ákveða kennslu mannkynssögu og ensku í barnaskólum, vil ég segja eftirfarandi. Ég tel, að ekki sé rétt að fella niður ákvæðið um kennslu í átthagafræði, og þótt kennsla í mannkynssögu sé vafalaust góð, er ástæða til að ætla, að unglingaskólarnir annist hana nægilega, og því ástæðulaust að setja hana við hlið Íslandssögu. Varðandi það atriði að ákveða, að enska skuli kennd, þá verð ég að segja það, að mér virðist mjög hæpið að setja ákvæði um þetta í lögin. Í flestum tilfellum mundi tungumálakennsla ekki hefjast fyrr en í unglingaskólunum, og ef byrjað er fyrr, hygg ég, að réttara sé að byrja á auðveldara máli en ensku.

Brtt. við 36. gr. á ekki heima í þessum lögum, hvorki að því er snertir göngu barnanna í skólann né setu þeirra á skólabekk. Hvort tveggja þetta eru reglugerðarákvæði.

9. brtt. er við 37. gr. frv. og fjallar um stærð skólanna og starfstíma. Það er rétt, að stærstu barnaskólarnir hér munu vera of stórir, þótt ég telji hins vegar ekki fært að binda töluna við 300, eins og lagt er til. Í kaupstöðum háttar víða svo til, að barnafjöldinn er litið yfir 300, og tél ég ekki fært að gera kaupstað að skyldu að hafa tvo skóla, þótt barnafjöldinn nálgist 4–5 hundruð. Erlendis munu tíðkast víða skólar með 5–6 hundruð börnum. Að þessu athuguðu hygg ég, að einsætt sé að binda þetta ekki í lögunum.

10. brtt. er um að binda lengsta kennslutíma í heimavistarskólum við 3½ mánuð. Það er kunnugt, að námstíminn notast betur í heimavistarskólum, en þó tel ég fjarri öllu lagi að takmarka námstímann á þennan hátt, ef til vill gegn vilja bæði barna og foreldra.

Ég mun láta þessi orð nægja að sinni, þótt ýmislegt í þessum brtt. hefði gefið ástæðu til frekari umræðna.