09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

29. mál, fræðsla barna

Jónas Jónsson:

Það hefur verið mælt með svo mörgum og góðum till., að ég kenni í brjósti um hv. frsm., að hann skuli verða að standa á móti till., sem annaðhvort verða samþ. nú eða a. m. k. haldið til streitu sem umbótatill. í málinu.

Hv. þm. sýndi sitt austræna lýðræði í því, að hann vill ekki þola, að fólkið í skólahéruðunum fái að ráða, hvort það sameinast um stóran skóla eða ekki. Það er rétt, að það, sem ber á milli, er, að stjfrv. gerir ráð fyrir, að hægt sé að taka menn með valdi og að ríkisstj. geti nauðgað kannske 3–4 hreppum í þessa bóndabeygju. Nú álít ég, að þetta sé svo vafasamt, þetta atferli, að mönnum megi ekki vera það frjálst að samþ. það sjálfum. Þessi ofbeldishugsunarháttur gegnsýrir frv., og eftir honum verður það framkvæmt, ef það verður samþ., en verði það drepið, þá sýnir það, í hvaða anda frv. er byggt.

Ég vona, að hv. frsm. meiri hl. sé svo góður í landafræði, að hann viti, þó að það sé langt frá honum, að fólk í Bárðardal, Mývatnssveit, Reykjadal og Köldukinn býr á stóru svæði. Nú er það líklegt eftir þeim kokkabókum, sem hér á að fara eftir, að þetta fólk, sem hefur skóla hvað fyrir sig, verði neytt til að hrúga öllum sínum börnum saman og kannske einhverju fleira fólki. Það geta fleiri verið bolsar en þessir 100, sem kusu hv. frsm. meiri hl. í þessu máli, þ. e. a. s. þann upprunalega hv. 7. landsk. þm., og það gæti komið fyrir, ef þetta á að verða, að foreldrarnir hlýði ekki. Og ef nokkurs staðar er réttlát uppreisn, þá er það í slíkum atvikum, þegar foreldrarnir vilja ekki láta fara þannig með börn sín, og ég ætla að gera það, sem ég get, til þess að menn rísi gegn slíku ofbeldi.

Eftir þessu frv. er gert ráð fyrir að byggja feikilega mikið af skólum og kennarabústöðum og öllu, sem þar til heyrir. Það er auðséð, að það vakir ekki fyrir þessum mönnum umhyggja fyrir börnunum, því að nú rís þessi hv. frsm. upp og mótmælir því, að nokkuð sé hugsað um börnin, sem veltast hér í sandinum á sumrin og engin fyrirsjón er gerð um. Það, sem boðið er upp á hér í Reykjavík, er að vísa börnunum inn í þennan 2 þús. manna skóla, sem hv. þm. var svo elskulegur að játa, að væri of stór, því að hann finnur, hvað vitleysan er komin langt, því að nú er verið til viðbótar að fullgera tvær fabrikkur, og þar á að dyngja börnunum saman og þar eiga þau að dúsa í 9 mánuði í leiðinlegum kennslustofum við leiðinlegar yfirheyrslur. En að þau fái þrjá mánuði á ári við sæmilegar kringumstæður miðað við það, sem þau eiga nú við að búa, það vill hann ekki heyra, því að meiningin er að gera allt, sem börnunum er verst, getur mest deyft þau, þreytt þau og gert þau sauðarlegust, kannske með það fyrir augum að gera þau sem móttækilegust fyrir þann lærdóm að austan, sem nú er svo mjög boðaður. Það er grunsamlegt, að þessi maður, sem er kennari í skikkanlegri sveit, getur ekki unnað börnunum þess að fara út af mölinni.

Ég heyrði hv. frsm. ekki mótmæla því, að guðfræðingar, sem hafa ekki kennarapróf, megi fást við kennslu, en hann hefur sjálfsagt gert það, og ég er alveg samdóma hv. þm. Barð. um að fordæma það, að kennarastéttin setji kennslustundirnar niður í næstum því ekki neitt, því að það er partur af vesalmennskunni í skólamálunum. Kennari, sem getur ekki haldið sæmilegum áhuga hjá nemendum sinum í 50 mínútur, er ekki hæfur að vera kennari, — það er þá eins gott fyrir hann að hypja sig burt.

Þá kem ég að því, sem er kjarninn í þessum brtt., en það er að tryggja, að ríkisstj. misbeiti ekki valdi sínu til að velja menn í kennarastöður. Það, sem hér er farið fram á í minni brtt., er, að þar sem skólan. og fræðslun. eru sammála, þá sé það veiting, en ef þær eru ekki sammála, þá komi til greina ráðherravald. Þetta er málamiðlun. Ég tel, að þessi breyt. hljóti að verða samþ. bráðlega, ef hún nær ekki samþykki nú, því að það er eðlilegt, að skólan. ráði mestu um val kennaranna, því að þær eiga mest í húfi.

Ég held, að það sé ekkert á móti því að minnast hér sérstaklega á hv. þm. Barð., þó að það komi honum meir við sem flokksmanni en þm. Það er nokkuð mikill ábyrgðarhluti, sem hann og hans flokkur bakar sér með því að styðja þann menntmrh., sem hann hefur nú kvartað undan með góðum og gildum rökum, og margir gera meira, þegar þessi flokkur, sem nú hefur menntamálin, fer þannig að, að þó að hann sé ekki nema lítill partur af fólkinu í Reykjavík, þá er nú komið svo fyrir einhliða ágengni um framkvæmd l., að í tveimur af hverjum þremur af skólunum í bæjunum úti á landi hefur flokkurinn beitt mjög áberandi ofbeldi, þar sem sá maður í Hafnarfirði, sem mest hafði gert fyrir Flensborgarskólann og nú er ráðherra, hann er rekinn úr skólan. fyrir ókenndum manni. Á Akranesi er það sama. Þar var duglegur maður, sem hafði komið gagnfræðaskólanum á græna grein. Hann er rekinn og ómerkilegur maður settur í staðinn. Það er þetta, sem d. verður að gera sér ljóst, að þetta á ekki að eiga sér stað, — það er fjarstæða. Þetta dæmi frá Akranesi er ákaflega merkilegt, og það væri ánægjulegt, ef hv. 7. landsk. þm., sem er sveitamaður og kennari í viðbót, reyndi að útskýra fyrir okkur, hvernig þetta austræna lýðræði er. Á Akranesi er skólan. búin að fá mann, sem hún er ánægð með, mann, sem er duglegur og fólkið og skólan. vill hafa. Svo kemur ráðh. og segir: Þessi maður skal ekki vera, heldur maður, sem ég vil hafa, þó að enginn annar vilji hafa hann. Til þess að gera þetta nægilega ljóst, þá leggur skólan. niður völd, af því að hún vill sýna, hvað mikil ósvífni er í þessu, vill benda á, hvað eigi að gera. Þess vegna á að samþ. þessa till.

Ég vil segja það við hv. þm. Barð., að mér þykja flokksbræður hans hafa brugðizt illa í þessu réttlætismáli hér í d. Þeir hefðu haft tækifæri til að þvo þennan blett af hér í d. með því að samþ. till. Ég mun með mínu eina atkv. standa með hv. þm., ekki af því að ég þekki þennan mann, heldur af hinu, að fyrst Akurnesingar vilja hafa þennan mann og segja, að hann sé góður, þá eiga þeir að hafa hann.

Hv. þm. var mjög á móti því, að reynt væri að tryggja, að börnin væru ekki send of ung í skólana. Ef hann veit það, að mjög hefur komið til orða að setja reglur um það, hvort leyfa skyldi barnavinnu, þá ætti hann ekki síður að gæta þess, að nú er svo komið undir misbeitingu lélegra kennara, að það er orðinn barnaþrældómur, hvorki meira né minna. Börnin í Reykjavíkurbæ halda ekki heilsu og gleði í skammdegismánuðunum, af því að þau eru þrælkuð. Þau eru rekin á fætur klukkan 7 og eiga að vera komin í skólann ekki langt frá klukkan 3. Hvers vegna má ekki banna, að börnunum sé misboðið þannig? Ég held, að ég megi til með að fá nafnakall um þessa till. til að sjá, hvort kennari í Austur-Skaftafellssýslu með atkv. sínu vill innsigla, að níðzt sé á börnunum. Menn vita, að þetta er svona. Menn hafa verið skeytingarlausir um þetta. Það er skömm fyrir þá, sérstaklega yfirstjórn fræðslumálanna.

En í sambandi við þennan skoðanamun, sem er milli mín og þessara atvinnukennara, sem eru aðallega að hugsa um að hafa þetta fyrir atvinnu, en ekki að gera gagn, vil ég segja, að það er umhugsunarefni og ekkert smáræði, að í barnaskólum hefur ekki vaxið upp eitt einasta skáld, enginn listamaður, enginn rithöfundur, sem nokkuð kveður að. Ég held, að ég hafi sagt það fyrr við þessar umr., það er ekki víst, að hv. þm. hafi þá verið við, að fyrir nokkrum árum féll piltur í Austur-Skaftafellssýslu í jökulsprungu og sat þar fastur á annan sólarhring. Hann skrifaði síðar frásöguna af þessum atburði, og það var mál manna, þeirra er skyn báru á, að enginn maður, sem nú er í skólunum, hefði getað skrifað eins vel og þessi piltur, sem var af afskekktasta bæ á Íslandi. Heldur hv. þm., að þetta sé meðmæli með þessu skólakerfi eins og það er? Menn, sem hafa þvælzt í gegnum þessa löngu skóla, finna það sjálfir, að menn, sem aldrei hafa í skóla komið, eru þeim færari í móðurmálinu.

Það verður ekkert gert nú, af því að nú eru úrkynjunartímar, en ég vil nota þessa umr. til að byrja sókn á móti löngu og leiðinlegu skólunum, á móti kennurum, sem vilja bara lifa af stöðu sinni, en ekki gera gagn. En þó að það verði ef til vill hægt með einhverjum leyniráðum að drepa mínar till., þá er þó ekki víst, að takist að misbjóða sjö ára börnunum, eins og gert hefur verið hingað til, eða deyfa þau og pína þau í skóla eins og gert hefur verið. Og ég endurtek það, sem ég tók fram í gær, að það er misráðið að hafa börnin í skóla lengur en 7 mánuði, því að það er komin reynsla á, að það er andleg afturför, þar sem skólarnir starfi lengst. Þar er andleysið mest, þar er afturförin mest og fyrirlitningin á bókmenntunum mest, af því að þar hafa verið settir leiðinlegir kennarar til að deyfa og þvinga vitsmuni barnanna.

Hann mótmælti ekki síðustu brtt. um að semja við prestana um kennslu í barnaskólunum. Þetta er aðeins lítilfjörleg tilraun til að benda á það úrræði, sem verður vafalaust notað meir síðar, að prestar verði látnir miklu meir grípa inn í barnafræðsluna en verið hefur. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi till. verði samþ. fremur en aðrar umbótatill. í þessu máli. En þó að allar þessar till. kunni að verða felldar nú, þá munu þær samt lifa eins og önnur umbótamál og verða á sínum tíma teknar til framkvæmda.