09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

29. mál, fræðsla barna

Frsm. meiri hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil svara örfáum orðum þessum tveimur hv. þm., sem hafa talað síðast. Ég vil fyrst svara aths. hv. þm. Barð.

Hann minntist á, að það hefði verið ósvífni, þegar ég sagði fyrir fáum dögum, að menntmn. hlypi ekki frá yfirlýsingum, sem hún hefði gefið. Ég verð að skýra betur, hvernig á stóð. Það var búið í n. að greiða atkv. um till. frá hv. þm. Barð. við frv. um skólakerfi og fræðsluskyldu. Sú till. fór í þá átt, að börn væru skólaskyld aðeins á aldrinum 7–14 ára. Till. var felld í n.. og með því var hún búin að gefa yfirlýsingu um, að hún vildi samþ. 15 ára skólaskyldu. Og þegar hv. þm. Barð. kom með munnleg tilmæli um, að n. tæki til athugunar að hafa skólaskyldualdurinn aðeins til 13 ára, þá gat n. ekki annað en vísað þeirri till. frá sér, af því að ef hún hefði farið að bera fram brtt. í þessa átt, þá hlaut hún að ganga á móti sínum eigin till., því að það var auðvitað ekki hægt að vera með þeim báðum, þar sem þær stríddu hvor á móti annarri.

Þá var það hv. þm. S.-Þ., sem minntist á þá brtt., sem ég hefði ekki fært nægileg rök á móti, að samkv. frv. væri hægt að taka menn nauðuga, þ. e. a. s. taka hluta úr hreppum inn í fræðsluhéruð móti vilja viðkomandi skólan. Ég vil leyfa mér að benda á, að það er búið að sameina á ýmsum stöðum og verið að undirbúa víðar og alls staðar gert þannig, að námsstjóri fer um og ræðir málið við skólan., og hans till. verður fylgt mjög mikið. Þess vegna er þetta ekkert annað en fjarstæða að halda því fram, að heil héruð verði sameinuð þvert ofan í vilja allra íbúanna. Hins vegar er úti um allt land að vakna meiri og meiri áhugi fyrir að koma skólamálunum í þetta horf. Þess vegna er þetta ekkert nema grýla, sem verið er að reyna að skapa á móti því, að skólahéruð verði sameinuð.

Þá talaði hann mikið um, að það væri óviðunandi að vilja alveg ganga fram hjá því, að reynt væri að koma börnunum í sveit á heppilegu heimili. Ég vil benda á, að þetta ákvæði er um svo geysilega víðtæka stofnun, að það á alls ekki heima í þessu frv. Það eru engin smáræðisheimili þetta, að þar skuli eiga að vera öll húsdýr landsins og þar á að vera öll vinna til sjávar og sveita. Ég sé ekki, að hægt sé að setja svona lagað inn í frv. um barnafræðslu.

Þá var hann enn þá að minnast á dæmið frá Akranesi. Viðvíkjandi því vil ég aðeins segja það, að síðan núv. menntmrh. tók við því starfi, hefur verið beitt miklu meiri sanngirni um stöðuveitingar en áður. Ég hygg, að það verði erfitt fyrir hv. þm. að færa rök fyrir þessu dæmi sínu, a. m. k. gerði hann það ekki í þessari ræðu.

Þá talaði hann um börn, sem héldu ekki heilsu og gleði í skólunum, og átti hann þar við Reykjavík sérstaklega. Er það almennt álit foreldra í Reykjavík, að skólatíminn sé of langur? Ætli það sé ekki fremur álit þeirra, að tíminn, sem þau eru á götunni, sé þeim hættulegri en skólanámið?

Í sambandi við það, sem þm. var að segja, að engin skáld og listamenn vaxi upp, þá tel ég ekki hægt að eyða tíma í að svara slíkri vitleysu.