09.04.1946
Efri deild: 102. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

29. mál, fræðsla barna

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Viðvíkjandi síðasta atriði í ræðu hv. seinasta ræðumanns, þá viðurkenni ég, að færa megi rök fyrir því, að skólanefndir eigi að vera kosnar að öllu leyti heima í héraði, og ég viðurkenni, að þær eiga að vera fulltrúi héraðanna. Það, sem ég sagði, var, að mér fyndist ekki óeðlilegt, að ráðh. ætti einn fulltrúa í skólanefndum. Hann er þó æðsti maður í skólamálum, og með því væri betur séð fyrir sambandi við hann.

Nú er svo fyrir mælt, að í hverju skólahverfi skuli skólanefndir skipaðar af nýkjörnum sveitar- og bæjarstjórnum. Ég held því tvímælalaust, að ekki komi til greina breytingar á skólanefndum nema eftir bæjar- og sveitarstjórnarkosningar. Ég hef talað við lögfræðinga og fleiri kunnáttumenn, og eru þeir mér allir sammála um þetta. — Hv. þm. spurði um gildistöku laganna varðandi skólabyggingar. Hann spurði, hvort hinar auknu greiðslur úr ríkissjóði ættu að ná til þeirra skóla, sem eru í smíðum. Það mun vera ætlunin með þessum lögum, að þessar greiðslur nái til þeirra skóla, sem eru í smíðum, a. m. k. frá árinu 1946 og jafnvel frá 1945, en enn hafa þó engar fullnaðarákvarðanir verið teknar.

Hv. þm. spurði, hvaða afleiðingar það hefði á kostnaðinn, ef brtt. fyrri þm. Eyf. yrði samþ. Kennarar eru nú um 400, og af þeim munu um 40 fá orlof árlega. Af þessu yrði töluverður kostnaður. En eins og gengið er frá till. á þskj. 694, er hér ekki um neitt frí að ræða, heldur er ætlazt til, að kennarar vinni að störfum í sinni grein og að gera sig hæfari til starfsins, — gætu komið til greina ýmis vísindastörf. Þetta orlof verður ekki heldur veitt, nema greinargerð fylgi umsókn kennarans um, hvernig hann hyggist að verja orlofinu. Það er ekki vafi á því, að þetta getur orðið til þess, að við fengjum hæfari kennarastétt en ella. Hér er um stóra réttarbót að ræða. Hins vegar get ég fallizt á það, sem hv. þm. sagði um, að hér yrði bætt inn í ákvæði þess efnis, að sveitarfélögin tækju einhvern þátt í kostnaðinum af þessum orlofum.