10.04.1946
Efri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Það er út af atriði því, að orlof skuli veitt barnakennurum 10. hvert ár. Ég vil ítreka það, sem ég sagði áður, að ég tel þessar reglur um það ganga lengra en framkvæmanlegt er eða góðu hófi gegnir gagnvart öðrum stéttum þjóðfélagsins. Ég mun því ekki treysta mér til að mæla með þessari brtt., eins og hún liggur fyrir. Ég tel auk þess, að málið hafi naumast fengið þann undirbúning sem skyldi. Sú mþn., sem hafði þetta mál til athugunar, hafði ekki borið fram till. um þetta. Kennarar almennt hafa mælt með framgangi málsins, en þó ekki svo róttækum ákvæðum sem þessum. Ég vil leggja áherzlu á það, að það er annað, hvort heimild er til þessa í einstöku tilfelli eða hvort um víðtæka heimild er að ræða. Ég mælist til þess, að annaðhvort taki hæstv. menntmrh. þetta atriði til nánari íhugunar og fresti frv., þangað til hann gæti borið fram brtt., sem gerði þetta atriði þannig, að framkvæmanlegt mætti telja, eða hæstv. ráðh. gæfi þá yfirlýsingu, að hann muni leggja fram sérstakt frv. á næsta hausti, þar sem þetta mál væri þá undirbúið á víðtækari hátt. Gæti ég þá ef til vill sætzt á að láta þessa brtt. ná fram að ganga á einn eða annan veg. Ég mundi telja þetta fullnægjandi afgreiðslu málsins. En svo stórt mál sem þetta er tel ég óverjandi að afgr. á svo flausturslegan hátt sem hér er gert ráð fyrir.