10.04.1946
Efri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

29. mál, fræðsla barna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Mér finnst brtt. hv. 1. þm. Eyf. vera heldur til bóta, en mér finnst nú samt, að réttara væri að endurskipuleggja þetta mál, og ég hef nú alls ekki tekið afstöðu til þessa frís tíunda hvert ár. Ég teldi langbezt, að hæstv. ríkisstjórn tæki þetta mál til rækilegrar athugunar og bæri fram ákveðnar till. í þessu máli.

Þegar ég var í skóla, þótti það tíðindum sæta, er hinn ágæti kennari Jón Ófeigsson fékk frí einn vetur eftir framúrskarandi góða kennslu í 20 ár. Þetta frí þótti þá stórtíðindi, og það er víst, að hann lá ekki á liði sínu að gera skóla sínum gagn þennan tíma. Þetta var hrein undantekning á þeim árum, og ég verð að segja, að það er engin smábreyting, sem hér á að eiga sér stað í þessu frumv., að gera það að skyldu að taka frí tíunda hvert ár ofan á öll hin nýbættu kjör. Segi ég því, að hér er um ofvöxt að ræða. Þótt barnakennsla sé þreytandi starf, þá hafa barnakennarar þó frí nokkra mánuði á hverju sumri. Þess vegna veitir starf þeirra möguleika til hvíldar og náms, og gætu kennarar hæglega bætt 3 mánuðum við sumarfrí sitt, ef þeir þyrftu lengri hvíldar- og námstíma. Það færi því betur að fresta ákvörðunum um þetta og að ríkisstj. tæki þessi mál til rækilegrar athugunar. Hvað sjálfsnáminu viðvíkur, þá er það til andlegrar uppbyggingar, og það mætti vera meira en lítið andlaus kálfur, er lægi í rúminu í heilt ár. Ef menn eru annars starfi sínu vaxnir, þá bæta þeir ávallt við sig fróðleik, og gera það samt, eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði, og þá er hér um of stórt mál að ræða, að hægt sé að ákveða það í bitum, og færi því bezt að taka þetta ákvæði úr frumv. Frumv. er samið af „akademiskum“ menntuðum kennurum og er samið frá sjónarmiði þess háskóla, en þeir gleyma barnakennurunum.

Ég vil því leyfa mér að gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hann héldi ekki, að það væri betra að athuga þetta mál í einu lagi.