17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði, að verzlunarfyrirtæki hefðu ekki fremur þolað að verðlækka sínar vörur en að greiða veltuskattinn. En þar kemur þá annað til greina, sem hefði gert að verkum, að það hefði komið öðruvísi út. Ég geri ráð fyrir, að þeim hefði ekki verið gert að skyldu í því tilfelli að greiða tekjuskatt og stríðsgróðaskatt af þeirri verðlækkun, — ekki er það eftir lögum, — eins og þeim er þó gert að greiða þessa skatta af veltuskattinum, ef brtt. mín verður ekki samþ. Hins vegar hef ég ekki haldið því fram, að sum fyrirtæki, sem verzlað hafa, geti ekki greitt veltuskatt. En það breytir ekki því, að veltuskatturinn kemur ómaklega niður á miklum fjölda landsmanna, sem ekkert hefur af stríðsgróða að segja. — Hæstv. fjmrh. sagði, að kaupfélögin mundu vera svipað sett í þessu tilliti og önnur verzlunarfyrirtæki, því að vöruverðið væri svipað hjá báðum. Án þess að fara að gera verðsamanburð hjá samvinnufélögum annars vegar og kaupmönnum hins vegar, þá vil ég benda á það, að þarna er samt um ólíkar starfsaðferðir að ræða. Ef um tekjuafgang er að ræða umfram það, sem lögum samkvæmt er lagt í sjóði, úthluta kaupfélögin honum í árslok til sinna félagsmanna í hlutfalli við verzlunarveltu þeirra hvers um sig. Þeir fá þá afslátt á verði þeirrar vöru, sem þeir hafa keypt á árinu. En þessu mun yfirleitt ekki vera þannig háttað hjá kaupmönnum, þó að það sé sjálfsagt rétt, sem hæstv. ráðh. gat um, að sumir kaupmenn hafa gefið viðskiptamönnum sínum einhvern afslátt í árslok. En ég vil benda á það, að það hvílir vitanlega engin skylda á kaupmönnum að gera þetta, og mér þykir ekki ólíklegt, að þeir í því efni kippi að sér hendinni eftir að þessi veltuskattur er á lagður, því að eftir það hafa þeir minni möguleika til þess að borga þennan afslátt. Hitt er ljóst, enda viðurkennt af hæstv. fjmrh., að þessi veltuskattur leiðir til þess hjá kaupfélögunum, að tekjuafgangur hjá þeim hlýtur að lækka verulega og í sumum tilfellum að hverfa. Því að það er ekki þannig, að á þeim lendi aðeins sá veltuskattur, sem þau þurfa að greiða, heldur lendir sá veltuskattur á þeim líka, sem innkaupafyrirtæki þeirra, S.Í.S., verður að greiða. Skatturinn verður til þess, að S.Í.S. hefur minna fé til þess að endurgreiða sínum félögum sem verðafslátt, og allt lendir þetta á viðskiptamönnum kaupfélaganna. Hæstv. fjmrh. telur, að þessir viðskiptamenn hafi hagnað af verzlun og geti borgað þetta þess vegna. En ég get ekki viðurkennt, að menn hafi hagnað af verzlun, þó að menn reyni að fá vörur til heimila sinna með sem hagkvæmustu verði. Það er vitanlega ekki hagnaður sambærilegur við það, sem verður hjá kaupmönnum.

Ef ekki verður leyft að draga veltuskattinn frá tekjum áður en skattur er á þær lagður, þá er hann raunverulega framlengdur næstu ár að töluverðu leyti. Í sumum tilfellum verður 90% af honum á lagt á næsta ári, eins og ég gat um, og í öðrum tilfellum lægra. Og það er ómótmælanlegt, að hann er með þessu fyrirkomulagi, að ekki má draga hann frá tekjum áður en skattur er á þær lagður, framlengdur að verulegu leyti. Þetta var nú svo ákveðið í fyrra, að hann skyldi ekki vera frádráttarbær. En það er hægt að leiðrétta það nú, af því að það er fyrst við skattálagningu á næsta ári, sem það ætti að koma til framkvæmda. Svo að það er alveg nægur tími til þess að laga þetta nú.

Hæstv. fjmrh. hefur alveg gengið fram hjá því atriði, að með þessu, sem stefnt er að, ef mín brtt. verður ekki samþ., er tekin upp sú aðferð að leggja tekjuskatt, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt á útgjöld manna. Það er alveg ný aðferð til fjáröflunar fyrir ríkissjóð og aðferð, sem ég tel ekki sæmilegt að beita.