17.04.1946
Neðri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

105. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvaða ástæður ég hefði fyrir því, sem ég lét orð um falla við 2. umr. þessa máls, að ég teldi, að þessu frv. gæti verið stefnt í hættu, ef inn í það væru sett ákvæði, sem skylda Landsbankann til þess að leggja fram 20 millj. kr. til húsbygginga. Ég hef átt tal um þetta mál við fjmrh., og hann lét svo um mælt, að hann væri andvígur. því, að þetta ákvæði yrði sett inn í frv., og vildi ekki láta lögfesta það. Hins vegar hefur hann líka látið þess getið, að hann mundi aðstoða mig við að selja skuldabréf fyrir byggingarsjóðinn, þegar til þess kemur, að þess sé þörf, sem ég held, að sé nú þegar orðin, því að vitað er, að mjög margir landsmenn bíða nú eftir samþykkt þessa frv. til þess að hefjast handa um byggingar. Að öðru leyti er kunnugt, að Alþ. er því mjög andvígt að skylda Landsbankann til þess að veita fé til eins eða annars, og kom það fram í umr. um stofnlánasjóðsfrv. Ég ætla, að þessi till. eigi ekki þann byr hér, á Alþ., að samþykkt hennar, ef svo ólíklega færi, að samþ. yrði, gæti ekki haft annað í för með sér en að velkja frv. á milli deilda. Og þó að fjmrh. sé fullur af velvilja í þessu máli, tel ég ekki, að það mundi bæta fyrir, að fé fengist til þessa byggingarsjóðs.

Út af brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. á þskj. 872 vil ég aðeins láta þess getið, að ég tel ekki, að 3. tölul. hennar, um innflutning byggingarefnis, mundi koma að haldi, því að vitanlegt er, að byggingarfélögin verða mörg og smá og eðlilegt, að þau myndi með frjálsum samtökum sambönd sin á milli og hafi samvinnusamtök um innkaup á byggingarefni. En ég tel ekki, að sú till. að fara að veita hverju smáfélagi innflutningsleyfi fyrir byggingarefni mundi ná tilgangi sínum, þó að samþ. yrði, og mun því ekki mæla með henni.

Varðandi till. frá hv. 2. þm. N: M. og hv. þm. V.-Húnv. um eftirlit með byggingunum, er það vitað mál, að byggingarframkvæmdirnar verða væntanlega það miklar samkv. þessum l., að kák eitt væri að setja 4 menn þar til eftirlits. Eftirlitið verður að vera í höndum byggingarfélaganna sjálfra að mestu leyti. Ég get þess vegna ekki mælt með þessari brtt.

Viðvíkjandi brtt. hv. 11. landsk. á þskj. 856 með viðaukatill. frá hv. 2. þm. N.-M. vil ég ítreka það, sem hv. 4. landsk, sagði hér um þetta mál, að fjmrh. hefði lýst því yfir, að hann mundi taka til athugunar að leita heimildar um eftirgjöf á tollum af íbúðarhúsum, sem flutt kynnu að verða inn, ef það sýndi sig, að slíkur innflutningur væri hagkvæmur og hús fáanleg. Eins og sakir standa er þetta hvort tveggja á huldu, ekki möguleikar til að fá slík hús flutt inn í landið og líka óvíst, að hve miklu leyti slíkur innflutningur væri heppilegur. Ég hef fyrir löngu skipað n. til þess að athuga þetta mál og býst við því, að niðurstöðurnar af þeim athugunum muni liggja fyrir innan skamms. Auk þeirra sænsku timburhúsa, sem talað er um að flytja inn, hefur síðustu dagana verið rætt um möguleika á því að setja hér upp hús úr aluminium. Ég skal ekkert um það segja, hvort athuganir, sem gerðar verða á slíkum húsbyggingum, leiða í ljós, að slík hús muni hentug fyrir okkar veðurfar hér. En nýlega fékk ég tilmæli um það frá kaupsýslumanni íslenzkum í London að greiða fyrir komu brezks byggingarmeistara, sem ætti að athuga, hvaða breytingar þyrfti að gera á húsunum, sem verið er að byggja fyrir brezku stjórnina, til þess að þau hentuðu fyrir þær kröfur, sem gerðar eru um húsbyggingar hér á landi. Ætlunin er svo, að eitt af slíkum húsum verði sett hér upp á byggingarráðstefnunni, sem haldin verður. En því miður er tíminn svo naumur, að ekki verður unnt að gera þær breytingar á þessari tegund húsa, sem byggingarmeistarinn taldi, að þyrfti að gera fyrir Íslendinga, áður en ráðstefnan byrjar. Þess vegna verða húsin, sem í ráði er að setja upp, af þeirri tegund, sem notuð er í Bretlandi. Ef það sýnir sig, að hentugt verður að fá innflutning á húsum, til þess að gera byggingar ódýrari, þá verður jafnframt að sjá fyrir því, að fullnægt sé þeim kröfum, sem menn gera hér um húsbyggingar, og hef ég í því stuðning fjmrh., að leitað verði heimildar um að gefa eftir innflutningsgjald af húsum. En á meðan þessar athuganir hafa ekki farið fram, tel ég ákvæði um þetta næsta þýðingarlítil. Jafnhliða því, að athuganir verða gerðar um verð þessara húsa af n., sem skipuð hefur verið eftir fyrirmælum Alþ., og þá húsa úr öðru efni, sem væntanlega fara fram á byggingarráðstefnunni, þá hef ég gert ráðstafanir til þess, að húsaleigulögin verði endurskoðuð, og mun setja í það nefnd allra næstu daga. Ég hef hugsað mér að haga því þannig, að bæði leigjendur og húseigendur eigi fulltrúa í n., þannig að sjónarmið sem allra flestra gætu komið fram við þá athugun.

Út af till. frá hv. 2. þm. Rang. og fleirum viðvíkjandi skilgreiningu á því, hvað kauptún séu, tel ég fyrir mitt leyti, að kauptún séu þar, sem löggiltar hafnir eru og verzlanir, og enn fremur staðir, þar sem menn safnast saman án þess að þessi skilyrði þurfi endilega öll að vera fyrir hendi, t. d. Hveragerði og Selfoss. Talan, sem ákveðin er um meðlimafjölda þeirra, sem eru í byggingarfélögum, segir nokkuð til um, hve stór byggðin þarf að vera til þess að hægt sé að stofna byggingarsamvinnufélag. Nú liggur fyrir till. frá hv. þm. Snæf. um að færa þessa tölu nokkuð niður frá því, sem er í frv., og get ég eftir atvikum fallizt á hana og tel, að eftir það sé þessi till. um skilgreiningu eiginlega óþörf, og vildi mælast til þess, að flm. tækju hana aftur, þar sem ég tel víst, að þessi l. verði framkvæmd á þann hátt, sem felst í till. Ég álít bezt, að ekki séu um það önnur fyrirmæli en nú felast í l.

Viðvíkjandi brtt. hv. 11. landsk. á þskj. 866, sem hann flytur ásamt hv. þm. Snæf., tel ég, að um hana hafi þegar gengið atkvgr. hér í d. Hv. 4. þm. Reykv. hefur rætt mjög ýtarlega um þessa brtt., sem hér liggur fyrir, og sé ég því ekki ástæðu til að lengja mál mitt öllu meir, en vænti þess, að hv. d. afgreiði þetta mál frá sér skjótlega, þar sem um það hafa farið fram allmiklar umr. bæði á hæstv. Alþ. og utan Alþingis.