04.03.1946
Neðri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 463, er, eins og fram er tekið í grg., flutt fyrir tilmæli landbrh. Frv. er undirbúið af nýbyggingarráði, og hefur það skrifað þá grg., sem frv. fylgir.

Í 2. gr. þessa frv. og að nokkru leyti einnig samkv. 3. gr. þess er ákveðið, að skipaður skuli sérstakur embættismaður, landnámsstjóri, er hafi yfirstjórn á því, hvernig undirbúið er landnám, hvort það er í stærri eða minni stíl. Sú stóra breyt., sem á þessu er gerð frá því, sem áður var, ef þessi gr. nær samþ., er sú, að yfirstjórn þessara mála verður ekki lengur í höndum nýbýlastjórnar ríkisins, eins og hún hefur verið hingað til. Ég skal ekkert á þessu stigi málsins í það fara, hvort þessi breyt. er heppileg eða heppileg ekki, en ég geri þó ráð fyrir, að ég, sem á sæti í nýbýlastjórn, verði fremur andvígur þessari breyt., þótt ég telji nauðsynlegt, að nýbýlastjórn geti haft á valdi sínu, ef svo mikil verkefni verða tekin fyrir eins og gert er ráð fyrir samkv. þessum l., að hafa framkvæmdastjórn.

Samkv. II. kafla frv., sem er að miklu leyti tekinn upp úr l. um landnám ríkisins, er gerð talsverð breyt. og sérstaklega varðandi fjárframlög til þessa máls. Samkv. þeirri breyt., sem hér var gerð á dögunum um landnám ríkisins, var ákveðið, að ríkissjóður legði fram ½ millj. til þessara mála á ári fyrst um sinn, en samkv. þessu frv. á hann að leggja fram 2½ millj. kr. á ári á næstu 10 árum, í fyrsta sinn 1947, til þessara framkvæmda.

Varðandi þau ákvæði, sem hér eru að öðru leyti, í 5., 6. og 7. gr., um undirbúning þann, sem ætlazt er til samkv. þessu frv., að gerður sé, þar sem nýtt land er tekið til að hefja landnám, skal ég ekki fara út í að ræða, því að í aðalatriðum eru þessar gr. í sambandi við það, sem nú er í l. um landnám ríkisins. Samkv. 8. gr. er gert ráð fyrir því, að áður en landnám sé hafið, þá sé það ákveðið, að sveitarstjórn þar, sem það á að fara fram, sé gefinn kostur á að gera grein fyrir sinni skoðun á því, hver áhrif fyrirhugað landnám hafi á afkomu og öryggi þess sveitarfélags, sem um þetta á að fjalla, og á landnámsstjóri að vinna í samráði við sveitarstjórn eða bæjarstjórn, ef um kaupstað er að ræða, að framkvæmdum á þessu sviði. Verði ágreiningur, sker Búnaðarfélag Íslands og nýbyggingarráð úr þeim ágreiningi. Samkv. 9. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að þegar lokið er undirbúningi landsins til ræktunar og byggðar, þá skuli það leigt með erfðaleigu einstaklingum eða byggðarfélögum með skilmálum, sem nánar verða teknir fram í reglugerð, sem ætlazt er til, að verði sett samkv. þessum l. Þá er ákveðið í þessari gr., að landnámsstjóra sé skylt að gera samning við bæjar- eða sveitarstjórnir um það að taka að sér frumræktun lands fyrir hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélög. — Þá er samkv. 10. gr. gert ráð fyrir því, að það megi leigja út einstök býli úr hinu sameiginlega landnámi, sem undirbúið er samkv. þessum kafla, til einstakra manna til nýbýla.

Þetta eru nú helztu atriðin úr II. kafla, sem til greina koma, einkum að því er snertir breyt. frá því, sem er í gildandi l. um landnám ríkisins. En þessi kafli er þó þannig, að það er gert ráð fyrir miklu meira og víðtækara valdi, sem landnámsstjóri hefur yfir þessum málum, heldur en nýbýlastjórn ríkisins hefur nú.

III. kaflinn í þessu frv. er um breyt. á byggingarsjóði. Skal hann kallast Byggingarsjóður íslenzkra sveita, en samkv. núgildandi l. heitir hann Byggingarsjóður og áður Byggingar- og landnámssjóður. Helztu breyt. samkv. þessum III. kafla er stórkostlega hækkað fjárframlag til Byggingarsjóðs og að öðru leyti lækkaðir vextir. Það er gert ráð fyrir því, að sjóðnum sé samkv. 12. gr. útvegað vaxtalaust lán, þannig að stofnféð og það fjármagn, sem sjóðurinn hefur, sé a. m. k. 10 millj. kr. 1. júlí 1947, en síðan leggist árlegur tekjuafgangur sjóðsins við stofnféð. Þar að auki er svo talað um í næstu gr., hverjar séu tekjur sjóðsins. Þar er, eins og hv. alþm. geta séð, gert ráð fyrir því, að árlegt framlag úr ríkissjóði nemi 2,5 millj. kr. næstu 10 ár, í fyrsta skipti, eins og í hinu tilfellinu, árið 1947. Samkv. 14. gr. þessa frv. er það ákveðið, að sjóðurinn veiti lán gegn 1. veðrétti í jörðum, lóðum, íbúðarhúsum og peningshúsum, og svo er tekið fram, að lánin megi vera allt að 75% af kostnaðarverði. Það er um þetta að segja, að þó að það sé æskilegt þegar um svona sjóð er að ræða, að hann þurfi ekki að veita lán nema gegn 1. veðrétti, þá hygg ég, að það geti ekki orðið árekstralaust, vegna þess að á mörgum jörðum hvíla lán vegna jarðakaupa og Byggingar- og landnámssjóður hefur hagað því þannig, að það megi veita lán út á seinni veðrétti. En takmörkunin getur eigi að síður haldizt, að viðkomandi jörð fái lán, sem sé 75% af kostnaðarverði bygginga. — Samkvæmt 15. gr. er gert ráð fyrir, að það megi, eins og er í ræktunarsjóðsfrv., veita bráðabirgðalán meðan á framkvæmdum stendur og ekki er komið í fast horf með hið vanalega lán, og verða þá greiddir háir vextir af því bráðabirgðaláni. Annars eru ákvæðin um vaxtakjörin, sem er annað aðalatriðið í þessu frv., í 17. gr. og eru þannig, að vextirnir skuli vera 2%, en lánstíminn má vera allt að 42 ár. En það er ekki breyt. frá því, sem er, því að það hefur verið svo í Byggingar- og landnámssjóðsl. hingað til. Samkv. 18. gr. eru ákvæðin um það þau sömu og í ræktunarsjóðsfrv. Er þar kveðið á um það, hvenær Byggingarsjóðslánin komi í gjalddaga. Þar er eitt ákvæði, sem ég held að reki sig á í þessu frv. eins og í hinu, en ég tók það fram þegar ég mælti fyrir hinu frv., að heimilt væri að telja lánið komið í gjalddaga án uppsagnar við eigendaskipti á jörðinni. En þetta ákvæði getur naumast staðizt, enda óþarft.

Þetta eru nú aðalbreyt. á Byggingarsjóðsl. frá því, sem þau eru nú. En svo koma hér allmiklar breyt. samkv. IV. kafla l. um endurbyggingar íbúðarhúsa á sveitabýlum, því að þar er gert ráð fyrir því að nema úr gildi þau lagaákvæði, sem nú gilda um styrk úr ríkissjóði til endurbygginga sveitabýla, og í stað þess sé látið nægja að auka lánsupphæðina mjög mikið frá því, sem nú er, og lækka vaxtakjörin. Þetta er mjög mikil breyt. og ekki ólíklegt, að um það verði nokkuð skiptar skoðanir, hvort þetta sé rétt stefna. En að þessu sinni skal ég ekki út í það fara að rekja það, hvað mæli með og hvað á móti, því að það kemur til athugunar þegar þessi frv. verða hér til 2. umr.

Þá eru strangari ákvæði en verið hafa varðandi aðstoð til bygginga sveitabýla að öðru leyti, og það er ekki ætlazt til samkv. 24. gr., að það sé lánað nema til nýrra bygginga eða þannig viðgerðra, að húsin eða húsið megi teljast að fullu nýuppbyggt.

Þá eru V.-VI. kafli um samvinnubyggingar eða byggðahverfi og nýbýli, og skal ég ekki á þessu stigi málsins fara mjög langt út í að lýsa ákvæðum frv. að því er þessi atriði snertir. Samkv. 27. gr. er sú mikla breyt. gerð frá því, sem er í núgildandi l. um samvinnubyggingar, að það má ekki telja byggðahverfi minna en þar, sem eru 10 býli saman og land handa hverju býli 12 ha., en samkvæmt núgildandi l. um samvinnubyggingar ef um 5 býli saman er að ræða, og ég fyrir mitt leyti tel svona við fljóta athugun, að það mundi geta verið mjög varhugavert að setja svo ströng ákvæði um þetta eins og eru í frv., að því aðeins komi til greina að styrkja þetta, að um svo stórar byggingar sé að ræða, að það séu 10 býli saman.

Þá er samkv. 28. gr. ákveðið, hvernig skuli haga undirbúningi þar, sem um byggðahverfi er að ræða, og að landnámsstjóri skuli láta undirbúa og rækta 5 ha. tún og reisa íbúðarhús og nauðsynlegustu peningshús, hlöður og verkfæraskemmur á þeim býlum, sem þar um ræðir, áður en þau séu boðin út til leigu handa þeim mönnum, sem um er að ræða. Samkv. 29 gr. er ákveðið, sem sjálfsagt er, að þeir menn sitji fyrir leigu í byggðahverfum, sem hafa áður átt landið á þessu svæði, eða aðrir þeir í nágrannasveit eða innan sveitar, sem talið er, að helzt þurfi á því að halda. Að öðru leyti eru byggðahverfin ekki mikið breytt frá því, sem áður var og er í núgildandi l., heldur en þetta, sem ég hef hér vikið að og snertir nýbýli. Þá er breyt. sú, að það er snúið inn á þá leið, eins og með byggðahverfin, að ætlazt er til þess, að aðallega verði stuðzt við nýrra og fullkomnara skipulag að öðru leytinu, en lánsfé að hinu leytinu, en ekki eins mikið stuðzt við styrktarfé og nú er um að ræða, og hefur þó frekar þótt of lítið en of mikið það styrktarfé, sem til nýbýlamyndunar hefur verið veitt.

Þá er VII. kafli frv. um viðhaldsskyldu o. fl., og skal ég ekki langt út í það fara að lýsa þeim ákvæðum, sem þar er aðallega um að ræða. En einna róttækasta breyt. í þessum kafla er í 43. gr. og er um það, að þegar ábúenda- eða eigendaskipti verða við sölu á fasteign, sem veðbundin er Byggingarsjóði, og eins er það varðandi nýbýli, að þá hafi Byggingarsjóður forkaupsrétt að eigninni í stað þess að nú er það ábúandi einn, sem hefur hann, og þar næst sveitarfélagið. Þetta er atriði, sem kemur mjög til athugunar. Þetta gildir þó ekki samkv. þessari gr., ef um erfðaskipti er að ræða.

Sem sagt er það svo, að samkv. þessu frv. eru teknir til breyt. allir kaflar, sem nú gilda í l. um Byggingar- og landnámssjóð og landnám ríkisins að undanteknum kaflanum um Teiknistofu landbúnaðarins. Hann er óbreyttur frá því, sem nú er.

Í grg. fyrir þessu frv. eru nákvæmir útreikningar, sem nýbyggingarráð hefur látið gera um áhrif þeirra ákvæða á þessa stofnanir, ef frv. verður samþ., og er mjög æskilegt, að alþm. kynni sér þá útreikninga, og sé ég ekki ástæðu til að fara að ræða þá hér nú við 1. umr. Hér er um mjög merkilegt mál að ræða og mál, sem ég hygg, að sé mjög mikil nauðsyn að fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég geri ekki ráð fyrir, að það verði samkomulag um að afgr. frv. óbreytt, og fer ég fram á, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til landbn., enda þótt hún flytji það, og vænti ég, að hv. þm. geti á það fallizt að láta málið ganga áfram svo fljótt, að það geti fengið afgreiðslu áður en þessu þ. er lokið.

Ég skal svo láta þetta nægja við þessa 1. umr., ef ekki gefst tilefni til frekari aths. frá öðrum hv. alþm.