17.12.1945
Neðri deild: 55. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

92. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Hæstv. fjmrh. hefur nú víkið af fundi, en ég ætla þó að gera aths. við tvö atriði í síðustu ræðu hans.

Hann sagði, að það væri ekki rétt hjá mér, að stefnt væri að því að framlengja veltuskattinn. Ég sagði, að skatturinn væri raunverulega framlengdur, ef mönnum væri gert að skyldu að greiða allt upp að 90% skatt af honum á næsta ári.

Þá sagði hæstv. ráðh., að skatturinn væri ekki lagður á útgjöld. Ég get ekki betur séð, og ætti ekki um það að þurfa að deila. Ef brtt. mínar verða felldar og það verður ákveðið að heimta tekjuskattsviðauka næsta ár af þeim veltuskatti, sem innheimtur var á árinu, sem er að líða, þá er þetta að taka háan skatt af útgjöldum manna.

Ég tel, að þau dæmi, sem hv. 3. þm. Reykv. (HB) færði fram í sinni ræðu um það, hvernig veltuskatturinn kemur við í ýmsum tilfellum, sýni glöggt, hve óréttlátur hann er. Skal ég t. d. nefna 2. dæmið, sem hann tók. Það er fyrirtæki, sem hafði á árinu 1944 107000 kr. skattskyldar tekjur, skatta til ríkis 36000 kr. og útsvar 22000 kr., og eru þá eftir tæpar 50000 kr. af tekjunum þegar þessir skattar eru greiddir á árinu 1945, En þetta fyrirtæki þarf að greiða á árinu, sem nú er að líða, 143000 kr. í veltuskatt. Það kemur þarna fram, að ef rekstur fyrirtækisins verður með svipuðu móti árið 1945 og 1944, þá verður rekstrarhallinn eftir árið 1945 36000 kr., ef fyrirtækið hefur 107000 kr. tekjur. Ef till. mínar verða felldar, verður þetta fyrirtæki, sem kemur út með 36 þús. kr. rekstrarhalla, að borga 80–100 þús. kr. í tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatt á næsta ári. Ég held, að þetta eina dæmi, sem hv. 3. þm. Reykv. færði hér fram, ætti að færa manni heim sanninn um það, hversu ranglátt það er að innheimta þennan skatt á næsta ári.

Vitanlega voru þau atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. tók fram í sinni ræðu, gildar röksemdir til stuðnings till. mínum, og kom það ljóslega fram hjá honum, hversu fráleitt það er að framlengja þennan skatt að verulegu leyti með því að reikna af honum skatt á næsta ári. Ég er sammála þessum hv. þm. um það, að þessi veltuskattur megi ekki undir neinum kringumstæðum festast í löggjöfinni, og ganga mínar till. ekki í þá átt, heldur þvert á móti.