20.03.1946
Neðri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Það hefur nú um skeið verið rík nauðsyn að endurskoða og rýmka löggjöf um lánastarfsemi til landbúnaðarins. Þótt þessi löggjöf sé ekki gömul, hafa á síðustu árum orðið svo miklar breytingar á kostnaðarverði bygginga, að takmarkanir þær, sem settar voru, eru nú allt of þröngar. Þeir, sem standa að þessu frv., hafa gert tilraun til að rýmka lánskjörin. Raunar voru flutt af Framsfl. tvö frv. í þessu skyni, annað um breyt. á l. um ræktunarsjóð og hitt um breyt. á l. um landnámssjóð. Eftir að það frv. kom fyrir landbn., gerði ég tilraun til að fá það afgr., en form. n. lagðist á móti því og sagði, að von væri á víðtækum lagabálki um sama efni frá ríkisstj.

Ég taldi rétt að bíða. Nú er þetta komið og virðist mér ekki mikill munur á þessu og því, sem áður var komið. Ég get vel sætt mig við höfuðatriði þessa frv., en mun þó bera fram brtt. við einstök atriði.

Ég þarf ekki að lýsa frv. Það hefur form. n. gert. Þó vil ég gera aths. við orð, sem féllu hjá hv. frsm. Hann fann brtt. mínum það til foráttu, að þær toguðu frv. yfir á þá braut að vera meira til styrktar einstökum býlum, en hins vegar væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að byggðin þéttist og meiri samvinna skapaðist. Ég er honum sammála um þetta, að byggðin þurfi að þéttast og bændur að eiga stærri tæki, en ég tel, að því marki verði ekki fyrr náð með því að miða eingöngu við byggðarhverfi, heldur einnig með því að koma upp nýjum býlum í hinni dreifðu byggð. Ég tel það æskilegra að bæta við það, sem fyrir er, en fella allt að grunni og byrja að nýju. Hins vegar hef ég litla trú á því, að samyrkjubúskapur henti okkur Íslendingum, þótt svo kunni að vera annars staðar. Það má vera, að það sé galli á okkur, en ég ætla, að þannig sé það, að við viljum hafa garð á milli okkar, þótt samkomulag sé gott. Nú er í undirbúningi byggðarhverfi hér í Mosfellssveitinni og bárust margar umsóknir, en þegar umsækjendurnir voru spurðir, hvort þeir vildu hafa sameiginlegan rekstur eða hvort þeir vildu vera sem mest sér, þá kváðust þeir allir mundu taka aftur umsókn sína, ef um samyrkjubú væri að ræða. Ég er hræddur um, að þessi saga mundi víðar gerast. Hins vegar er sú leið opin samkv. frv., en ég hygg, að hún fái ekki mikinn byr.

Eitt aðalatriðið í frv. og brtt. er það, að horfið er frá nýbýlastyrkjunum, en í þess stað komið á betri lánskjörum en áður var, þannig að styrkur til nýbýla í sveitum fæst nú gegnum betri lánskjör. Ég játa, að þetta kann að vera gott, en ég er ekki viss um, að það verði alltaf til bóta. Ég get hugsað mér, að margir hefðu heldur kosið að fá ákveðinn styrk til að byrja með og þá heldur styttri lán og lægri, og ég held jafnvel, að einatt hefði það fyrirkomulag orðið betra. Það má vera, að ég beri fram brtt. fyrir 3. umr. um það að hafa opinn þennan möguleika. Vitanlega er hér um styrk að ræða, þótt hann sé í öðru formi.

Þá vil ég lýsa þeim brtt., sem ég legg fram á þessu stigi málsins. Það er þá fyrst brtt. við 2. brtt. n. á þskj. 565. Sú brtt. er um nýbýlastjórn. Ég legg til, að hún sé skipuð 3 mönnum kosnum með hlutfallskosningu af sameinuðu Alþingi til fjögurra ára, en landbúnaðarráðherra skipar einn þeirra formann. Ég hreyfði því í n., að hyggilegast væri að hafa fleiri en 3 menn í nýbýlastjórn, þannig að tryggt væri, að öll sjónarmið kæmu fram, en það er ekki nema mennirnir séu 4, en það fékk ekki fylgi. Þetta kann að hljóma sem mótsögn við brtt. mína, þar sem einungis er lagt til, að 3 menn skipi stjórnina. En ég tók það ráð að flytja einungis brtt. um kosningu stjórnarinnar, þótt ég hefði einnig heldur kosið, að hún væri skipuð 4 mönnum.

Þá ber ég fram brtt. við 9. brtt. n. Ég skal játa, að það fór fram hjá mér, þegar n. gekk frá þessu, að niður hefði fallið ákvæði um, að einstaklingar nytu hliðstæðs stuðnings og þeir, sem byggja í byggðarhverfunum. Eftir því, sem ég hef komizt næst, er ekkert ákvæði í l., sem tryggir þetta. Þess vegna tek ég þetta ákvæði upp og legg jafnframt til, að nýbýlastjórn ákveði þá upphæð, sem veita skal til þessa, svo að menn viti, að hverju þeir ganga.

Þá eru enn fremur 2 brtt., sem ég flyt við frv. sjálft, 12. og 13. gr., en þessar gr. fjalla um það fjármagn, sem ríkissjóður skal útvega í Byggingarsjóð íslenzkra sveita. Í 12. gr. segir m. a., að stofnfé sjóðsins sé : Lán, er ríkissjóður veitir eða útvegar vaxtalaust, þannig að stofnféð nemi alls 10 millj. kr. 1. júlí 1947, en síðan leggist árlegur tekjuafgangur sjóðsins við stofnféð.“ Í 13. gr. segir m. a., að tekjur sjóðsins séu : „árlegt framlag úr ríkissjóði, er nemur 2,5 millj. kr. næstu 10 ár, í fyrsta skipti árið 1947.“ Ég vil leyfa mér að leggja fram brtt. við 12. gr. þess efnis, að í staðinn fyrir 10 millj. kr.“ í b-lið greinarinnar komi : 15 millj. kr., og í staðinn fyrir „2,5 millj. kr.“ í 2. tölul. 13. gr. komi: 2 millj. kr. Það eru 5 millj., sem ég færi þarna á milli með till. mínum. Ég geri þetta ekki af því, að ég álíti þetta betra að öðru leyti en því, að ég tel öruggara, að þessar millj. séu komnar í sjóðinn fyrir 1947 en þeirra verði beðið í 10 ár.

Ég held, að ég láti nú máli mínu lokið að sinni, en mun athuga frv. nánar fyrir 3. umr.