21.03.1946
Neðri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Ég skal fara hér nokkuð gegnum brtt. þær, sem komið hafa fram við till. landbn. Viðvíkjandi ræðu hv. 1. landsk. skal ég ekki vera langorður eða ræða þann ágreining, sem varð í n. Hv. 1. landsk. er á annarri skoðun en við hinir varðandi samfærslu byggðarinnar. Í frv. er þetta látið mjög frjálst. Það er lagt á vald nýbýlastjórnar, hve dreift þetta fé er veitt. — Þá vildi hv. 1. landsk. breyta um skipun nýbýlastjórnar og taldi, að hún mundi verða íhaldssöm. Ég held, að ekki sé ástæða til að ætla þetta. En nú skal vikið beint að till. hv. þm.

1. brtt. er um, að eignarnám skuli fara fram skilyrðislaust, ef svo ber undir. Á þetta vildi n. ekki fallast. Við vildum ekki jafna saman í þessu tilfelli sjálfseignarjörð og opinberri jarðeign. Samkvæmt okkar till. er gert ráð fyrir, að eignarnám nái aðeins til jarða, sem ekki eru í sjálfsábúð.

Varðandi 2. brtt., sem hv. 1. landsk. flytur, er þess að geta, að í henni felst ekki mikil breyting frá því, sem er í frv., að öðru leyti en því, að takmarkið um 75% er fellt niður.

Viðvíkjandi ræðu og brtt. hv. þm. Mýr. skal ég í fyrsta lagi taka það fram, að mér þykir engin ástæða vera til þess hér, þar sem við afgreiðslu þessa máls ríður mest á, að um það fáist samkomulag, að fara að þræta um, hverjum það sé að þakka, að málið er komið í þetta horf. En hv. þm. vildi í ræðu sinni draga það fram, að þetta væri honum og hans flokksmönnum að þakka. Aðalatriðið fyrir okkur er það, að þetta mál verði samþ., því að frv. felur í sér mikla réttarbót fyrir alla aðila, sem hlut eiga að máli. — Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Mýr. vil ég segja það, að 3. brtt., þar sem farið er fram á aukin lán eða breyt. á fyrirkomulagi, kemur mér á óvart, því að hv. þm. orðaði þetta atriði ekki neitt í n. Varðandi þá till. vildi ég, að hv. þm. tæki hana aftur til 3. umr. Snertandi 2. brtt. hans, þá er það ákvæði, sem hafði fallið niður af vangá hjá n. Við vorum búnir að ræða þetta og ætluðumst til, að þetta ákvæði kæmi í 2. gr. Gert var ráð fyrir, að um þetta gæti orðið fullt samkomulag í n. En það getur orkað tvímælis, hvort það skuli fært í 9. gr. eða í kaflann um nýbýli, eins og ætlazt var til, þegar þetta var rætt í n. Ég vil því mælast til, að hv. þm. Mýr. taki þessa brtt. aftur til 3. umr., því að ég vona, að um þetta verði gott samkomulag í landbn. — Varðandi till. um kosningu nýbýlastjórnar gegnir öðru máli. Hún var af hv. þm. boðuð í n., og um það atriði varð ekki samkomulag. En sannleikurinn er sá, að því, sem hv. þm. virðist vilja ná með þessari brtt., nær hann ekki með því að hafa nýbýlastjórnina skipaða aðeins 3 mönnum eins og nú er. Mér virðist það vaka fyrir hv. þm., að fram komi í stjórninni sjónarmið allra flokka, sem hlut eiga að máli. Og það virðist hv. þm. telja betur tryggt, ef nýbýlastjórnin er kosin í sameinuðu Alþ. en ef 2 eru kosnir af landbn. þingsins og einn skipaður af ráðh. Ef breyta á til á annað borð, þá ætti að færa tölu nm. upp í 5 og kjósa alla í sameinuðu Alþ. Ég skal ekkert um það segja, hvort réttara sé, að brtt. komi nú undir atkv. eða ekki. En ef unnt er að ná samkomulagi, færi betur á því, að hv. þm. tæki hana aftur til 3. umr.

Næst sný ég mér að aths. hv. þm. V.-Húnv. og skal segja nokkuð um álit mitt og hv. n. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að samkv. því, sem frv. liggur fyrir, þá er gert ráð fyrir því, að III. kafli l. falli niður. En það er af vangá þeirra, sem sömdu frv. Það er ekki því til að dreifa, að landbn. hafi gert á frv. neinar breyt. aðra en þá, sem til var ætlazt að fælist í þessu að áliti þeirra, sem frv. sömdu. Við höfum reiknað það út, að undir öllum venjulegum kringumstæðum er það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, lágir vextir og lán til langs tíma, hagstæðara fyrir þá, sem byggja hús, heldur en hitt fyrirkomulagið, sem nú er. Því að þær fjárhæðir, sem veittar eru til þessara mála, nægja ekki til að fullnægja þessu ákvæði, sem gert er ráð fyrir samkv. II. kafla l. Við höfum komið okkur saman um það í landbn., að áður en frv. fer út úr hv. d., verði að setja einhver nánari ákvæði um, hvenær skiptin komi til framkvæmda, og var gert ráð fyrir að taka það til athugunar milli 2. og 3. umr. Það getur orkað tvímælis, hve lengi eigi að gilda ákvæðin um endurbyggingarstyrk og hvenær hitt á að taka við. Það gæti orðið nokkur árekstur í þessu.

Varðandi 2. aths., um 6. gr., sem hv. þm. V.-Húnv. bar hér fram, þá vil ég svara því til, að um það þarf ekki að orðlengja meira. Um aths. varðandi 14. gr. þá vil ég geta þess, að ég tók það fram í minni framsöguræðu, að þarna þyrfti að gera breytingu. Því að það getur komið fyrir, ef engin lán hvíla á jörðinni, sem byrjað er að taka byggingarlán út á, að þá sé hægt að fá út á hana hærra lán en til er ætlazt eða 75%. Þess vegna skal ég lýsa því yfir og biðja hæstv. forseta að taka það til athugunar, að við tökum aftur til 3. umr. b-lið 13. brtt.

Varðandi aths. hv. þm. V.-Húnv. um 22. gr. þá er ekki hægt að sjá, að það rekist neitt á, þótt það sé sagt, að bankastjóri Búnaðarbankans ákveði lánin og taka verði til greina till. nýbýlastjórnar þegar um nýbýli er að ræða. Það kann að vera að megi orða þetta betur, en það er þó vissa fyrir því, að samkv. brtt. n. þá er þetta. miklu skýrar orðað en það er í gr. frv.

Hv. þm. V.-Húnv. gerði aths. við 28. gr. Vill hv. þm. halda áfram því, sem er í l., að það sé tryggt fyrir fram, að það sé fyrir hendi viss hópur manna, sem vilji gerast ábúendur á þeim býlum, sem verið er að stofna í samvinnubyggingum eða byggðarhverfum. Það kann að vera, að þetta verði öllu ljósara, ef þetta verður áfram, en ég geri ráð fyrir því, að það muni engin nýbýlastjórn leyfa, að sett sé upp byggðarhverfi án þess að hafa fyrir fram tryggt, að menn væru til, sem vildu setjast þar að. Það ætti því ekki að vera um neina hættu að ræða, þótt þetta ákvæði sé óbreytt frá því, sem nú er. Og það ætti alltaf að geta orðið samkomulag um það, að menn, sem hlut eiga að máli, fái vinnu við þessar framkvæmdir, ef það er líklegt, að menn vilji vinna þarna sjálfir við byggingar og ræktun og kæra sig ekki um, að hið opinbera láti undirbúa landið á þann hátt, sem til er tekið í greininni. Það þarf ekki að setja nein ákvæði inn í l. um þetta atriði. Þessi ákvæði um, að nýbýlastjórn og landnámsstjóri skuli láta rækta og byggja og annast undirbúning á landinu, eru sett inn í frv. af þeim, sem að því standa, til þess að tryggja, að framkvæmdir komist á og verði vel og haganlega gerðar.

Þá er síðasta aths. hv. þm. V. Húnv. Hún er varðandi 30. gr., er snýr að því, að Byggingarsjóði er gefinn forkaupsréttur að þessum býlum. Hv. þm. var með glósur um það, að hér væri verið að taka upp sömu ákvæði, sem voru felld úr gildi á síðasta þingi. Þetta eru ekki sömu ákvæði. Þetta eru skyld ákvæði, en ekki þau sömu. Í þeim ákvæðum, sem felld voru niður, var ekki um að ræða neinn forkaupsrétt fyrir Byggingarsjóð eða stofnun, sem hér átti hlut að máli. Hér er breytt til frá því, sem verið hefur samkv. II. kafla þessa frv., og sú breyt. felur það í sér, sem getur orkað tvímælis og má ræða um. Þessi kafli felur í sér, að ekki er gert ráð fyrir, að þeir menn sem verða bændur í þessum hverfum, verði landeigendur. Það er ætlazt til, að ríkið eigi landið, en þó sé tekið fram, þegar um kaup er að ræða, að þá eigi hlutaðeigandi menn mannvirki, sem þarna eru gerð, bæði ræktun og hús (BÁ: Ræktun, sem þeir sjálfir framkvæma). Þetta er nýtt hjá okkur. En það eru engin sömu ákvæði og voru afnumin hér í vetur, þótt þau séu skyld. Að hinu leytinu er það rangt hjá hv. þm. V.-Húnv., að þau ákvæði, sem voru felld úr gildi í þessum l., séu sömu ákvæðin og voru í 17. gr. jarðræktarl. Annars er það mál, sem liggur opið fyrir að gera breyt. um, hvort menn vilja eitthvað þrengja frekar en landbn hefur gert forkaupsrétt Byggingarsjóðs Landbn. hefur þrengt hann. Hún leggur til, að viðkomandi sveitarfélag eigi heimtingu á að ganga inn í forkaupsréttinn, ef sveitarstjórn óskar. Nú er það svo samkv. eldri l., að þegar jörð er seld, sem er í leiguábúð, hefur sveitarfélagið forgangsrétt. Hér er um nýtt ákvæði að ræða, þar sem Byggingarsjóður fær forkaupsrétt. Það er gert til þess að tryggja það, að nýbýlastjórn, sem hefur völdin, geti komið því á sem hagkvæmastan hátt, að hér yrðu ekki árekstrar milli þeirra manna, sem eru bundnir inn í félagsskapinn, þegar um hverfi er að ræða. Í öðru lagi verði ekki farið að nota þau góðu kjör, sem boðin eru fram til bygginga og framkvæmda, til að hækka verð jarða að ástæðulausu fyrir þá, sem síðar koma. (PZ: Heyr fyrir þessum þm.). Ég tek það ekki nærri mér, þótt hv. 2. þm. N.-M. segi heyr fyrir þessu. Ég hef frá upphafi verið sammála ýmsu því, sem hann hefur sagt um það atriði. Það er ekki æskilegt, að ákvæði framkvæmdanna séu notuð til að hækka verð jarða, en hitt er ógeðfelldara, eins og hér var ætlazt til með 17. gr. jarðræktarl., að gera ítak í þann styrk, sem ríkið lagði fram.

Ég vil nú mega vænta þess, þótt hér kunni að vera ágreiningur milli einstakra manna um einstök atriði frv., að hann sé ekki svo verulegur, að það þurfi að standa í vegi fyrir því, að þetta frv. nái afgreiðslu og það með sæmilegu samkomulagi.