21.03.1946
Neðri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Páll Zóphóníasson:

Ég vil lýsa ánægju minni yfir, að þetta mál skuli vera til umr. í deildinni. Það var lagt fram í byrjun þings annað frumvarp um sama efni, sem forseti hefur sofið á og ekki leyft umræður um, og því er sérstaklega ástæða fyrir okkur, sem að því stóðum, að fagna þessu frumvarpi nú. Ég heyri sagt, að landbn. hafi lofað að íhuga málið enn betur og í því sambandi vil ég benda á eitt atriði sérstaklega, sem ég tel vanta. Það er um það, hvernig fara eigi með þá menn, sem áður hafa fengið lán og komnir eru áleiðis með að byggja nýbýli, og einnig þá, sem loforð hafa fengið um endurbyggingarstyrk og lagt hafa í framkvæmdir eftir því loforði, en ekki enn lokið byggingunni né fengið styrkinn. Þegar þessi l. koma til framkvæmda, hafa þessir menn lagt af stað með öðrum forsendum en verða fyrir hendi, er þessi lög hafa verið samþykkt, en hin numin úr gildi. Spurningin er því, hvort þeir geti komizt undir þessi nýju lög. Ég tel vanta ákvæði varðandi þessa menn, sem mundi gilda næstu 2 eða 3 ár, ef til vill upp í 5 ár.

Ég vil biðja n. að athuga þetta vel, svo að þessir menn, sem hér um ræðir, verði ekki settir útundan. Um þessa menn þarf sérákvæði í bráðabirgðaákvæðum. Það var sagt í gamla daga, að erfitt væri að kveða niður gamla drauga, því að þeir vildu rísa upp aftur, og svo virðist ætla að vera með 17. gr. Og það gleður mig að sjá hana hér, þó að í nýrri mynd sé, og sjá hana endurvakta af þeim, sem hafa talið sig á móti henni og lagt hönd að því að fella hana úr lögum.