28.03.1946
Neðri deild: 97. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

181. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. V.-Húnv. skal ég ekki þræta um, hvort kvaðir séu meiri eða minni, áður en l. var breytt. Hér er ekki um sömu kvaðir að ræða, ekki eins miklar kvaðir á nýbýlum og mér skildist á hv. þm. V.-Húnv., þar sem mér skildist, að heimilt væri að borga upp kvaðir, sem á lægju áður, en tekið fram um forkaupsréttinn og er hann háður því, að eitthvað af jarðarverðinu sé veðsett í sjóðnum. Augljóst er, að heimilt er að borga lánin upp.

Ég sé ekki ástæðu til að þræta um 17. gr. jarðræktarlaganna og 17. gr. þessa frv. Það er óþarfi að blanda þeim í þetta mál. Hleyp ég því yfir hana og ræði hana á öðrum vettvangi, hv. þm. V.-Húnv. til geðs.

Þá eru það brtt. hans og fyrirspurnir. Varðandi fyrstu brtt. hans, um sjálfsábúðarjarðir og erfðaábúð, þá tel ég, að öðru máli gegni um jarðir, sem ríkið á, en einstakir menn eiga. Ég mæli ekki með brtt., en álít, að það liggi beint fyrir, og var minnzt á það í n., hve langt ætti að fara. Þrengdi landbn. ákvæðin allmikið.

Þá er aðalbrtt. hv. þm. V.-Húnv., 2. brtt, um það, að heimilt sé nýbýlastjórn að veita lántakanda óafturkræft framlag gegn því, að hann fái minna lán. Í sjálfu sér hefði þetta vel getað komið til álita, ef á annað borð hefði verið haldið kaflanum, sem áður var í þessum l., sem nú er verið að breyta, III. kaflanum um byggingarstyrk. En eins og frv. er nú orðið mundu verða á þessu miklir annmarkar og árekstrar. Í fyrsta lagi er það, að ekkert af því fé, sem Byggingarsjóður á samkv. kaflanum um hann, er undir umsjón nýbýlastjórnar, og hún hefur þess vegna ekkert fé til umráða, sem hún getur veitt. En hún getur mælt með og gert till. um það, hvað há lán bankastjóri veiti samkv. þeim reglum, sem l. ákveða. Ef hins vegar þessi till. ætti að eiga rétt á sér, yrði að beita henni þannig, að stjórn sjóðsins fengi þessa heimild eftir meðmælum nýbýlastjórnar.

Í öðru lagi er ætlazt til þess samkv. þessari brtt., að það sé reiknað út miðað við 2% vexti annars vegar og 4% hins vegar, hvað hlunnindi og lán ætti að minnka mikið við byggingarstyrkinn samkv. þessari till. Með því væri verið að slá því föstu, að það væri alveg óhugsandi, að nokkurn tíma yrðu hér lægri vextir en 4%. Ég vil ekki slá föstu, að það gæti ekki verið fullkomin sanngirni að hafa vexti lægri en það.

Í þriðja lagi er samkv. þessari till. talað um, að ef styrkur sé veittur, þá megi ekki lána hærra en 50% af kostnaðarverði bygginga. Með því virðist mér til þess ætlazt, að það sé hámark á þessari styrkheimild, að það sé veittur 1/3 af hlunnindunum, en þó er ekkert sérstakt ákvæði í till. um það, hvað hámarkið á slíkum styrk væri. Þess vegna held ég, að það sé ekki hægt, þannig að komi að haldi, að samþ. brtt. eins og hún er, enda virðist mér till. helzt stefna í þá átt, að heimildina ætti að nota aðallega til þeirra manna, sem væru það vel efnaðir, að þeir þyrftu ekki að taka nema lítil lán, og kæmi því helzt þeim mönnum að gagni, sem sízt þyrftu á því að halda og er veittur lægstur styrkur samkv. l. eins og þau eru nú og eins og þau eru praktiseruð af nýbýlastjórn.

Þá er 3. brtt. hv. þm. V.-Húnv., við 30. gr., um það að takmarka forkaupsréttinn við sömu ákvæði eins og eru í ábúðarl. varðandi það, að menn megi taka úr ábúð eignarjörð sína, ef eitthvert skyldmenni hefur verið farið að búa á henni. Ég skal ekki segja, að það hafi mikla þýðingu, þó að þessi brtt. yrði samþ., og ég fyrir mitt leyti álít, að það geti orkað tvímælis, hvort þetta væri rétt. En það er eitt, sem mér finnst mæla á móti því, og það er, að með þessu fá ættingjarnir frekar tækifæri til þess að fara á bak við tilgang l., þó að það sé tilgangurinn, að það sé ekki hægt að hækka jarðir í verði eða koma þeim á lausari grundvöll í sölu. Og það er annað í þessu. Ef menn hafa áhuga fyrir því að fá skyldmennum sínum ábúðarréttinn, þá hafa þeir fullkomið tækifæri til þess samkv. gildandi l. um ættaróðul og erfðaábúð að gera jörðina að ættaróðali, og er það í sjálfu sér heppilegri leið. Ég held þess vegna, að ef samþ. er einhver frekari rýmkun á þessu ákvæði, þá sé réttara að samþ. varatill. hv. þm. varðandi þessi ákvæði en aðaltill., enda þótt ég sé í vafa um, að það hafi nokkra praktíska þýðingu, vegna þess að það tekur aðallega til þeirra ákvæða l., að það gildi annað þegar um erfðaskipti er að ræða og ef hlutaðeigandi maður selur skyldmennum. En þá er fullkomið tækifæri til þess að gera jörðina að ættaróðali.

Viðvíkjandi fyrirspurnum hv. þm. um skilning á l. þá hef ég, eins og gefur að skilja, af því að þeim er kastað hér fram fyrirvaralaust, ekki borið mig saman við meðnm. mína. En nokkur þessi atriði hafa verið rædd í n. og þá í fyrsta lagi sú fyrirspurn og skýring, sem hann óskaði eftir á ákvæðum 9. gr. um það, hvernig eigi að skilja það atriði, að sveitar- eða bæjarfélög, sem fá aðstöðu til frumræktunar á landi, eigi að leggja fram fé að svo miklu leyti sem væntanlegur jarðræktarstyrkur hrekkur ekki til. Nú er það svo, að ef samningar kæmust á, eins og gert er ráð fyrir í þessari gr., milli nýbýlastjórnar annars vegar og Búnaðarfélagsins eða búnaðarsambandanna hins vegar um ræktun á þessu landi, þá mundi í þeim samningum vera tekið fram, að hve miklu leyti varið yrði fé frá ríkinu til þessarar frumræktar og að hve miklu leyti það yrði gert með tilliti til þess styrks, sem búnaðarsamböndin fá til vélakaupa. Ég skal taka það fram, að landbn. hefur breytt um fyrirkomulag með brtt. sinni varðandi þessi atriði, því að samkv. frv. eins og það var er gert ráð fyrir því, að landnámsstjóri, sem átti að hafa yfirstjórn þessara mála allra, hefði í sirni þjónustu vélaflokka, þar sem væri um að ræða vélar, sem ríkið ætti og ræki, og er þá öðru máli að gegna en ef samið er við búnaðarsamböndin og ræktunarfélög um að framkvæma þessa frumræktun. En að hér er minnzt á bæjar- og sveitarfélög í þessari gr., byggist á því, að það nær aðeins til þess, þegar verið er að framkvæma ræktun fyrir þá aðila.

Viðvíkjandi 10. gr., að það sé óljóst, að hve miklu leyti hér kunni að koma til greina stuðningur frá ríkisins hálfu við þá frumræktun, sem þar er ætlazt til, að eigi sér stað, og hvort nokkur breyting sé á því eftir því, hvort landið sé opinber eign eða í eigu einstaks manns, þá er því til að svara, að það er ekki ætlunin, að þetta verði neitt öðruvísi, þó að landið sé í eigu einstakra manna, því að það er ætlunin samkv. þessari gr., um öll ákvæðin, að það gildi hið sama um aðstoð til nýbýlastofnunar hvort sem landeigandinn sjálfur er nýbýlastofnandinn eða nýbýli er stofnað á landi, sem ríkið á.

Það mun hafa verið varðandi 28. gr., sem hv. þm. áleit, að ekki væri nógu ljóst að orði komizt um það, hvað við væri átt, þar sem talað er um, að ábúandi geti fengið ræktaða 5 ha túns.

Hv. þm. V.-Húnv. spyr, hvort það sé meiningin að rækta 5 ha túns og byggja íbúðarhús og verkfærahús hlutaðeigandi manni að kostnaðarlausu. Það er því til að svara, að það er ekki ætlunin, heldur að það sé komið í framkvæmd áður en maðurinn flytur á jörðina, því að það verður að vera skylda og gerðar um það samþykktir, að 5 menn fáist til að taka við byggðarhverfi, áður en ráðizt er í undirbúning á nýbýlum, og að sjálfsögðu kemur ræktun þessara 5 ha á hvert býli.

Fyrirspurnin varðandi 35. gr. er svipaðs eðlis. Við í landbn. færðum niður og samþ. við 2. umr., að í staðinn fyrir 10 menn og 10 býli komi 5 menn og 5 býli. En að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því, að þetta verði nánar skilgreint í reglugerð, sem verður sett samkv. þessum l., skilgreint nánar, að hve miklu leyti styrkurinn nái til hvers einstaks býlis. Hitt er aðalatriðið, að fyrir það fé, sem til þess er varið, er keypt landið og undirbúningur ræktunar.

Varðandi 39. gr., þar sem hv. þm. var að spyrja um, hvort stuðningurinn ætti að vera svipaður eða eins á þeim býlum, sem væru reist á landi einstakra manna, eins og á hinum, sem reist eru á landi ríkisins, þá á það samkv. því, sem við höfum um þetta rætt, ekki að breyta neinu, hvort nýbýli er reist á landi einstaks manns eða á landi ríkisins. Það, sem ætlazt er til, er það, að það sé veittur stuðningur til einstakra býla alveg í samræmi við það, sem meðalkostnaður reynist við að stofna nýbýli og byggðarhverfi.

Fleira held ég það hafi ekki verið, sem aths. komu fram við hjá hv. þm. V-Húnv.