11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (2714)

172. mál, nýbyggingar í Höfðakaupstað

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. frsm. n. drap á það, sem ég vildi gera hér að umtalsefni, en það er þetta : Á síðustu árum — ég ætla 5–6 — hefur svo að segja allt það land, sem Höfðakaupstað er ætlað að standa á, verið látið í erfðafestuleigu til einstakra manna til ræktunar. Sumir þessara manna eru búnir að rækta þessi lönd, en mikill meiri hluti þeirra hefur enn ekki gert neitt við þessi lönd, enda eru sumir þeirra, sem fengið hafa þessi lönd, nýbúnir að fá þau og sumir hafa fengið þessi sín lönd fyrir einu eða tveimur árum. Ég vildi beina því til hv. fjhn., hvort ekki gæti komið til mála að setja inn í 5. gr. frv. ákvæði um það, að erfðafestuland á þessu tiltekna svæði, sem ekki væri farið að kosta neinu til, en ríkið hefur selt á leigu, yrði tekið aftur af ríkinu endurgjaldslaust og hin, sem farið væri að kosta einhverju til, yrðu tekin eftir mati á ræktunarkostnaði þeirra, en að þessi lönd verði ekki tekin eftir mati á því, hvers virði þau væru, þegar kaupstaðurinn væri orðinn svo eða svo stór bær. Það er að mínu áliti ekki heppilegt, að það endurtaki sig, sem skeði á Siglufirði í þessum efnum, að ríkið verði að kaupa lönd, sem það sjálft á. Mér er sagt, að á Skagaströnd hafi það verið þannig, að kaupfélagið hafi gengið á undan í þessu efni með því að selja part af túni undir síldarverksmiðju, og hafi selt á eina kr. fermetrann í túni, og hafi gert það með tilliti til þess, að það yrði lagt til grundvallar við væntanlegt mat, en að eigendur þessara erfðafestulanda hefðu talið, að slík sala gæti ekki komið til mála. Þeir vildu fá miklu meira fyrir lönd, sem þeir ekki áttu og höfðu fengið á erfðafestu fyrir mjög lágt gjald. Og ég hef átt tal við menn, sem hafa verið í mötum, — ekki þarna, heldur annars staðar, — sem hafa talið, að taka verði mjög mikið tillit til þess, hvað upp úr þessum löndum hafist á næstu árum. Og þegar þarna á að rísa upp kaupstaður, kannske allstór, þá geta menn eftir þeirri reglu fengið mikið fé fyrir það að hafa skrifað undir samning um erfðafesturéttindi á landi, án þess að hafa kostað neinu til, hvorki landsins né landsréttindanna. En það er að mínu áliti ekki rétt að láta menn hagnast þannig, þegar slíkt land er tekið eignarnámi, að borga þá svo og svo mikið fyrir það að sleppa erfðafesturéttinum, sem handhafi engu hefur kostað til að fá. — Þessu vil ég beina til hv. fjhn., og ég trúi ekki öðru en hv. 1. flm. skilji, hvað hér er um að ræða, og sjái, hversu heimskulegt það er að ætla sér að taka lönd eftir mati af mönnum fyrir mikið verð, mönnum, sem ekkert hafa gert við löndin og eru ekkert annað farnir að gera við þau en að bíða eftir því, að löndin hækki í verði, þegar bær rís þarna upp.